14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær ræður, sem hér hafa verið fluttar af hálfu hæstv. ráðherra og forsvarsmanna þeirrar till., sem hér er til umræðu.

Hæstv. fjmrh., sem nú mun um stund gegna störfum utanrrh., sagði hér í gær, að þetta væri svo sem ekki neitt upphaf að vígbúnaði, furðaði sig á því, að alþm. skyldu ekki hafa áttað sig á því, að vígbúnaðurinn væri hafinn fyrir löngu, og þótti þetta sýnilega mjög mikill fróðleikur. Við vitum það nú allir, að vígbúnaðurinn er hafinn fyrir löngu. Og hæstv. ráðh. hélt áfram: Sovétríkin hafa vígbúizt eftir stríðið meira en nokkurt annað ríki, og Atlantshafsbandalagið var stofnað í varnarskyni gegn því, og vígbúnaður Atlantshafsbandalagsins er varnarráðstöfun gegn þessum geysilega vígbúnaði Sovétríkjanna. Þetta gera Atlantshafsbandalagsríkin til þess að vera svo sterk, að Rússar telji sér hagkvæmt að semja um afvopnun. Sovétríkin mundu þá telja sér hagkvæmt að semja um afvopnun, þegar þessi vígbúnaður er orðinn nógu mikill, þ. e. a. s. þegar búið er að vopna hið nazistiska Þýzkaland, koma þar upp her, sem telur ½ milljón manns, og auk þess varaher, sem gert er ráð fyrir að muni telja um 5 millj. manna. Svo mörg eru þau orð. Það er sem sé skoðun hæstv. ráðh., að ráðið til afvopnunar sé meiri vígbúnaður, nógu mikill vígbúnaður. Það er náttúrlega mál út af fyrir sig, að í orðum hæstv. ráðh., sem ekki voru mörg, fólust hinar herfilegustu sögufalsanir, þar sem öllu er snúið öfugt. Það er vitaskuld fullyrðing algerlega út í bláinn, að Sovétríkin hafi vígbúizt eftir stríðið meira en nokkurt annað land, á meðan vesturveldin afvopnast. Þetta er ekkert annað en margendurtekinn stríðsáróður Bandaríkjamanna, sem hefur ekki við neitt að styðjast. Vígbúnaðarkapphlaupið og kalda stríðið hófst fyrir alvöru með stofnun Atlantshafsbandalagsins, sem opinberlega var stefnt gegn Sovétríkjunum og bandalagsríkjum þeirra. Þar með var heiminum skipt í tvær fjandsamlegar fylkingar og stefnt að nýju heimsstríði. Þar með var tekin upp stefna, sem var í algerri andstöðu við anda og tilgang Sameinuðu þjóðanna.

Öll þessi ár hafa Sovétríkin borið fram hverja tillöguna eftir aðra um allsherjarafvopnun og bann við kjarnorkuvopnum. Vesturveldin hafa neitað að fallast á þessar tillögur, og alveg sérstaklega hafa þó Bandaríkin neitað algerlega að fallast á bann við kjarnorkuvopnum. Raunar hafa þau líka neitað að undirskrifa sáttmálann um bann við notkun sýklavopna og eiturgass. Ef vesturveldin hefðu áhuga á allsherjarafvopnun, þá væri hægt að hefja þá afvopnun nú þegar. Þar stendur ekkert í vegi. Það er því sýnilega allt annað, sem hæstv. ráðherra meinar með afvopnun. Hann ætlast sem sé til þess, að Sovétríkin afvopnist einhliða, og það á að neyða þau til slíkrar afvopnunar með vopnavaldi, með vopnaglamri og ógnunum. –ógnunum með kjarnorkuvopnum og með því að vopna þýzku nazistana. Þetta er allt í fullu samræmi við þá staðhæfingu, að Sovétríkin hafi vígbúizt meira en vesturveldin, og í fullu samræmi við allar tillögur og alla afstöðu Bandaríkjanna í afvopnunarmálunum.

Nú vil ég spyrja: Trúir nokkur hv. þm. því, er sá þm. til, sem trúir því, að hægt sé að neyða Sovétríkin til afvopnunar með slíkum ógnunum? Trúir nokkur því. að þegar búið er að vopna 5 millj. manna undir herstjórn þýzku nazistanna, sem stefnt er gegn Sovétríkjunum, 5 milljónir Þjóðverja undir forustu hinna nazistísku stríðsglæpamanna, sem opinberlega er stefnt gegn Sovétríkjunum, þá muni Sovétríkin fallast á tillögu Bandaríkjanna um afvopnun, eftir reynslu síðustu styrjaldar og samtímis því sem varla líður svo dagur, að Bandaríkin ógni ekki Kína með styrjöld? Styrjöld við Kína hlýtur að leiða til heimsstyrjaldar. Það er öllum ljóst, og því neitar enginn. Það hlýtur að vera öllum ljóst, jafnvel svo blindum og ofstækisfullum manni sem hæstv. fjmrh. virðist vera, — sem þessa dagana mun fara með utanríkismál, — að svar Sovétríkjanna og bandalagsríkja þeirra við þýzkri hervæðingu hlýtur að vera aukinn vígbúnaður af þeirra hálfu, og annað svar getur ekki komið til greina, eins og þau hafa líka sjálf lýst yfir. Og slík hervæðing, þar sem tvær heimsfylkingar standa hvor gegn annarri, gráar fyrir járnum, slíkar tvær hervæddar heimsfylkingar stefna að styrjöld, og aldrei í veraldarsögunni hefur það komið fyrir, að slíkar hervæddar fylkingar hafi staðið hvor andspænis annarri, án þess að af því hafi leitt styrjöld.

Ég bið hv. alþm. að reyna að gera sér ljóst, hvaða ábyrgð þeir eru að taka á sig með því að samþykkja þessa till., sem alveg óhjákvæmilega stefnir á stríð. Með þeim vopnabúnaði, sem mannkynið ræður nú yfir, er mikil hætta á því, að ný styrjöld leiði til tortímingar þess. Ísland á þó ef til vill meira í húfi en flestar aðrar þjóðir. Það er nú svo komið, að það eru ekki miklar líkur til þess, að íslenzka þjóðin lifði af nýja heimsstyrjöld. Ég á erfitt með að trúa því, þrátt fyrir dapurlega reynslu, að hv. alþm. séu svo blindir, að þeir ani út í það glæfraspil að samþykkja till., sem beinlínis stefnir á styrjöld, hlýtur að stefna á styrjöld, — tillögu, sem jafngildir stríðsyfirlýsingu gegn þriðja hluta mannkynsins. Það væri slík fyrirmunun af fulltrúum vopnlausrar þjóðar, sem telur 150 þúsund manns, að maður á engin orð.

Ég held, að það megi ekki minna vera en að hv. alþm. fái tækifæri til þess að spyrja samvizku sína, á meðan þeir njóta jólaleyfisins.

Hv. þm. Str. (HermJ) sagði hér áðan, að spurningin um hervæðingu Þjóðverja stæði alls ekki í sambandi við þetta mál. Þetta eru alveg furðulegar fullyrðingar og furðulegar blekkingar af hálfu hv. þm. Str. Andstaða Frakklands gegn Parísarsamningunum byggist á því, að þeir óttast hervæðingu Þjóðverja, og eingöngu á því. Það verða ekki gerðir friðarsamningar við Þjóðverja, nema í þeim samningum felist ákvæði um það, að hve miklu leyti þeim verður leyft að hervæðast og hvaða takmörkum slík hervæðing yrði háð.

Það, sem hæstv. ráðh. og hv. þm. Str. voru að dylgja með, þegar þeir töluðu um það, að Þjóðverjar mundu hervæðast hvort sem er, voru hótanir Bandaríkjanna um að hervæða Þjóðverja upp á eigin spýtur. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sýndi fram á með rökum, sem ekki verða hrakin, að Bandaríkin munu hika við að grípa til slíkra ráða, því að slík ráðstöfun mundi, eins og hv. 2. þm. Reykv. benti á, alveg óhjákvæmilega leiða til þess, að Frakkland losaði sig úr tengslum við Bandaríkin og tæki upp samvinnu við Sovétríkin.

Hv. þm. Str. hélt því fram, að þýzki nazistaherinn væri nú bezta vörnin fyrir Íslendinga og þess vegna ættum við að samþykkja þessa till., vegna þess að Ísland hefði alveg sérstakan hag af því, að þýzku nazistarnir væru hervæddir, vopnun þýzku nazistanna væri bezta vörnin fyrir Ísland. Ég leyfi mér að segja, að þetta er hryllileg kenning, en hún er raunar í fullu samræmi við rök hæstv. fjmrh. Það er sem sé gert ráð fyrir því, að til styrjaldar hljóti að koma. Það er gert ráð fyrir styrjöld og stefnt á styrjöld og allt miðað við það, hvernig aðstæður okkar mundu verða í óhjákvæmilegri styrjöld. En jafnvel þótt við lítum á málið út frá þessu sjónarmiði, hver aðstaða okkar mundi verða, ef til styrjaldar kæmi. þá er hér um algera falskenningu að ræða. Ísland verður miðsvæðis í átökunum milli austurs og vesturs, ef til styrjaldar kemur, undir öllum kringumstæðum, og héðan verður farið í árásarferðir til Mið-Evrópu og til Austur-Evrópu undir öllum kringumstæðum, og slíkar árásarferðir bjóða þeim hættum heim, sem geta orðið til þess að tortíma íslenzku þjóðinni.

Í blaðinu U. S. News and World Report, sem nýlega er komið út, er enn einu sinni kort af Íslandi með langri grein, þar sem Ísland er talið útvörður Bandaríkjanna og einn mikilvægasti bletturinn á hnettinum sem stöð til árásar á Sovétríkin. Um þetta er farið mörgum orðum. Og þessu fylgja myndir — þarna er mynd af forsætisráðherranum okkar. Þetta blað er hálfopinbert málgagn Bandaríkjastjórnar. Ég nefni þetta sem eitt nýjasta dæmið, en greinar á borð við þessa, með korti af Íslandi, þar sem útlistað er fyrir bandarískum lesendum, hvaða þýðingu Ísland hefði í næsta stríði einmitt sem árásarstöð á Sovétríkin, eru engin ný bóla, heldur hafa ótal slíkar greinar verið birtar í amerískum blöðum og meira að segja hálfopinberum amerískum málgögnum, síðan Bandaríkin fengu herstöðvar hér.

Fyrir íslenzku þjóðina er aðeins eitt til bjargar, og það er að koma í veg fyrir heimsstyrjöld. Að því eigum við að vinna. En með þessari till. er stefnt á styrjöld.