14.12.1954
Sameinað þing: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2468)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var auðheyrt á ræðu hv. þm. Str. (HermJ), að hann hafði gengið heldur ófús til alls þess leiks, sem nú er leikinn hér á Alþ. og hefur verið síðustu 5 árin í sambandi við Atlantshafsbandalagið. Það var auðheyrt, að hann vildi hjá því komast að þurfa að verja nokkuð, sem stæði í sambandi við það mál. En það er líka alveg greinilegt, af hverju tveir forustumenn Framsfl. á endanum hafa verið knúðir fram í það að reyna af veikum mætti að verja aðgerðir stjórnarinnar í þessum málum. Bak við þá stendur íhaldið og segir við þá: Nú hafið þið utanríkismálin. Nú er bezt, að þið sjáið um að verja þetta. Meðan við höfðum utanríkismálin, íhaldsmenn, þá réðuzt þið alltaf aftan að okkur og töluðuð um, hvað illa allt væri framkvæmt. Nú er bezt, að þið fáið að sitja með alla skömmina. — Og þess vegna þegir íhaldið svona vendilega hérna og lætur vesalings framsóknar-forustumennina um að reyna nú af veikum mætti að halda uppi einhverjum vörnum. Svo lendir þetta einmitt á hv. þm. Str., þeim sama þm., sem var fulltrúi fyrir Framsókn í utanrmn., þegar Atlantshafsbandalagið og innganga Íslands í það var til umr. Og hvað sagði hann þá? Hvað getur að lesa í hans ræðu 30. marz 1949? Löng ræða, sem ég ætla að lesa tvær setningar úr, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég vil þó lýsa vanþóknun minni á meðferð þessa máls, því að það á ekki að ræða það með þeim sérstaka hætti eins og gert hefur verið nú hér á Alþingi.“

Svo segir hann seinast: „Annars er ég einn af þeim, sem telja, að nóg sé komið af þessum samningum, og vil þá heldur enga samninga heldur en þá, sem eru ekki öruggir fyrir okkar þjóð.“

Það var ekki nóg með, að hann talaði þetta, og mér er nú ekki grunlaust um, að hann hafi sagt þetta heldur ákveðnar, þegar hann mælti það, en það kemur nú út í þingtíðindunum. Tveir fulltrúar Framsóknar í utanrmn. birtu líka sitt álit og lögðu báðir raunverulega á móti því, að Ísland gengi í Atlantshafsbandalagið. Þá minntu þeir að vísu á í sínu nál., að ráðherrarnir íslenzku hefðu gefið opinbera skýrslu og fjórða atriðið í þeirri skýrslu væri svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum“ — og segja svo: „Við erum því ekki mótfallnir, að samið sé á þessum grundvelli, en við viljum, að þessi atriði séu, eftir því sem við teljum þörf og höfum vit á, tryggð í samningnum sjálfum, en ekki með yfirlýsingum einum.“ M. ö. o.: Þeir voru vantrúaðir á samningana eins og Bandaríkin knúðu þá Ísland til að gera þá. Þeir vildu þá láta setja inn í samningana sjálfar yfirlýsingar ráðherranna, yfirlýsingar Achesons við Eystein og þá, og segja svo seinast í sínu nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem greiða atkvæði með sáttmálanum, taka ábyrgð á því gagnvart þjóðinni, að hún eigi rétt til framkvæmda á samningnum í samræmi við yfirlýsingu ráðh., sem hér hefur verið rakin. Þessu teljum við okkur ekki geta borið ábyrgð á nema fá framfylgt a. m. k. þeim atriðum, sem við höfum lagt til hér að framan.“

M. ö. o.: Þessir hv. þm., það voru Hermann Jónasson og Páll Zóphóníasson, sem treystu sér ekki til að greiða atkvæði með Atlantshafssamningnum og lögðu raunverulega á móti honum þá, vildu setja inn í samningana þá einmitt þau ákvæði, sem síðan hefur komið í ljós að Bandaríkjamenn hugsuðu sér auðvitað að knýja fram, þegar Atlantshafssamningurinn var gerður, en gáfu náttúrlega yfirlýsingar um, að væri alls ekki meining þeirra, þetta sem sé: að það yrðu engar herstöðvar hér á Íslandi né erlendur her á friðartímum.

M. ö. o.: Allt, sem þessir menn vöruðu við þá, er komið fram nú. Allt, sem þeir álitu að þjóðin þyrfti að varast þá, er komið fram nú. Og svo er það einmitt hv. þm. Str., sem er nú knúinn til þess að verða ekki aðeins að taka ábyrgð á þessu öllu saman, heldur líka að bæta því við að reyna að finna rök fyrir því, að Ísland eigi að gefa samþykki sitt til þess að fá nazistaher í Atlantshafssamfélagið.

Hv. þm. Str. hefur auðsjáanlega frá því í gær farið að reyna að finna einhver rök fyrir þessum samningi, sem hér liggur fyrir. Í gær leizt honum svo illa á að fara að leita að rökum. að hann sagði, að það væri ekki óeðlilegt, að málinu væri frestað. Svo hefur auðsjáanlega verið knúið á að hafa álíka hætti á og 1949, og hann segir áðan, að það hafi verið rætt við ríkisstj., hvort hún sæi sér fært að fresta málinu. Nei, ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að fresta málinu, og hv. þm. Str. hefur haldið áfram að leita að rökum, og rökin, sem hann fann, eru síður en svo góð. Hann hafði þau ekki til í gær, en hann kom með þau í dag, og við skulum rétt athuga þau, þó að það sé búið að minnast á þau nú þegar.

Hann sagði fyrst í sinni ræðu, að það væri aðeins um tvennt að velja fyrir okkur Íslendinga. Það væri um það að velja, hvort Vestur-Þjóðverjar skyldu fá að hervæðast innan Atlantshafsbandalagsins eða utan þess, menn yrðu að kjósa um þetta tvennt og um annað væri ekki að velja. Hins vegar mun hann undir niðri hafa fundið, að þetta væri rangt, því að það var vitað, eins og hv. 2. landsk. sýndi hér fram á áðan, að það er ekki hægt fyrir Bandaríkin að leyfa Vestur-Þjóðverjum að hervæðast einum sér. Það þarf meira en samþykki þeirra og meira en samþykki þeirra og Breta til þess, það þarf líka samþykki Frakka, og það samþykki fæst ekki. Þess vegna kemst hv. þm. Str. rétt á eftir, í seinni hluta ræðunnar, í mótsögn við sjálfan sig, og þá segir hann: Ja, fyrir utan þessa tvo möguleika er þriðji möguleikinn til. — Og hver er þriðji möguleikinn, sem hann allt í einu í seinni hluta ræðu sinnar er búinn að uppgötva og hann fann ekki, meðan hann var að leita að rökunum? Jú, þriðji möguleikinn er sá, að Vestur-Þýzkaland fái ekki leyfi Bandaríkjanna og Bretlands til að hervæðast. Og hvað mun þá gerast? Jú, þá munu Bandaríkin og Bretland fara burt með sinn her af meginlandinu. Var það þá einhver ósköp? Hvað mundi það þýða, að Bandaríkin og Bretland færu burt með her sinn af meginlandinu? Það mundi þýða, að það yrðu teknir upp samningar um friðsamlega sameiningu Þýzkalands, og friðarhorfurnar í álfunni mundu stórbatna. Hv. þm. Str. datt ekki í hug að koma með eina einustu röksemd um, hvað af þessu mundi leiða. Ef nokkuð væri satt í þeirri bábilju, sem hann hefur aldrei haldið fram, en sumir hans flokksmenn hafa haldið fram, að sósíalistísku ríkin mundu ráðast á Vestur-Evrópu, ef hún væri svona varnarlaus, þá veit hann ósköp vel, að herforingjar Atlantshafsbandalagsins hafa haldið því fram, að sósíalistísku löndin hefðu með sínum her getað tekið Vestur-Evrópu á hvaða mánuði undanfarinna 5 ára sem þau hafa viljað, ef þau væru yfirleitt í þeim hug.

Það er þess vegna ljóst, að svo framarlega sem Bandaríkin og Bretland færu burt með sinn her af meginlandinu, þá mundu friðarhorfurnar í Evrópu stórbatna og möguleikarnir á sameiningu Þýzkalands standa opnir. Hv. þm. reyndi að finna þarna út, eins og hv. 2. landsk. þegar er búinn að hrekja, að það væri einhver kostur fyrir Ísland, ef Þýzkaland væri hervætt sem klofið land, þannig að beggja vegna stæðu herir gráir fyrir járnum. Það væri alveg sama tortímingin, sem vofði yfir Íslandi. Það vita svo að segja allir menn í Þýzkalandi, að Bandaríkin eru þegar búin að úthugsa, ef til styrjaldar kæmi, þá bardagaaðferð að eyða megininu af Vestur-Þýzkalandi, m. a. með því að stífla fyrst Rín og taka síðan stíflurnar burt og skapa flóð, sem mundi eyðileggja um áratugi helztu námur, verksmiðjur og beztu lönd Vestur-Þýzkalands. Og af hverju hafa Bandaríkin hugsað sér þessa baráttuaðferð? Vegna þess að þau gera ráð fyrir því, að ef til styrjaldar kæmi, þá tækju herir sósíalistísku landanna Vestur-Evrópu á nokkrum vikum og þess vegna væri um að gera fyrir Bandaríkin að eyðileggja eins mikið af Vestur-Evrópu og hægt væri og hafa allt reiðubúið til þess. Þannig væri Ísland í slíkri styrjöld, þegar herir sósíalistísku landanna væru komnir að Atlantshafinu, alveg jafnt í fremstu víglinu. Íslandi verður ekki borgið með stríði í Mið-Evrópu. Það strið takmarkast aldrei við Mið-Evrópu. Það breiðist út hvert sem er. Okkur verður aðeins borgið með friði, og það er það, sem við verðum að gera okkur ljóst.

Svo vildi ég með örfáum orðum víkja að því, sem hæstv. fjmrh. sagði. Hann er nú sá, sem helzt fæst til að tala af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og mun ég kannske koma að því síðar, hverjar ástæðurnar eru til þess. Hann tönnlaðist á nokkrum slagorðum, sem ég veit ekki hvort hann hefur nokkurn tíma sjálfur reynt að finna nokkurn rökstuðning fyrir. Og ég ætla, þó að við séum ekki vanir því hérna, að taka nokkuð af þessum staðhæfingum hans fyrir.

Hann sagði, að Sovétríkin hefðu vígbúizt eftir styrjöldina. Hver var nú sannleikurinn eftir styrjöldina? Hvernig var ástandið í ágúst 1945, í þeim mánuði, er kalda stríðið var að byrja? Við skulum reyna að rifja það upp fyrir okkur. Ameríska auðmannastéttin hafði kastað sinni atómsprengju á Japan, og hún áleit, að hún stæði ein með slík vopn í höndunum, og hún áleit, að atómsprengjan tryggði henni pólitískt alræði í veröldinni. Ameríska auðvaldið ofmetnaðist af þeirri einokun, sem það hélt sig hafa á atómsprengjunni, og ameríska auðvaldið ákvað að halda áfram að smiða atómsprengjur og tryggja sér þannig þau völd að geta sagt öðrum þjóðum í veröldinni fyrir verkum. Og það var einn áþreifanlegur hlutur, sem ýtti undir ameríska auðvaldið hvað þetta snertir. Styrjöldin hafði gefið ameríska auðvaldinu stórkostlegan gróða. Hún hafði gefið því í gróða um 50 milljarða dollara, 50 þús. millj. dollara. Ameríska auðvaldið áleit, að ef friður héldist lengi, þá mundi koma kreppa, og það leið ekki á löngu áður en í amerískum blöðum var orðið „friðarhætta“ skapað og talað um friðarhættuna sem eina af þeim skelfingum, sem kynnu að skella yfir Bandaríkin, og í hvert skipti sem friðarhætta óx, féllu verðbréfin í kauphöllunum í New York. Stríðsgróðinn og gróðinn af vígbúnaði var það, sem ýtti undir ameríska auðvaldið að vígbúast. Fyrir sósíalistísk lönd getur aldrei verið annað en tjón jafnt af vígbúnaði sem styrjöld. Þjóðirnar, sem sjálfar eiga sín framleiðslutæki, geta aldrei annað en beðið tjón af því að þurfa að verja sínu vinnuafli og sínum auðlindum til þess að vígbúast. En fyrir auðmannastéttina, sem á vopnaverksmiðjur veraldarinnar, er það staðreynd, sem enginn þorir að mótmæla, að styrjaldarundirbúningur og styrjöld eru stórkostlegustu gróðafyrirtæki, sem til eru. Þess vegna var strax í ágúst 1945 af hálfu ameríska auðvaldsins farið að undirbúa næstu styrjöld. Þess vegna var strax í ágúst 1945, mánuðinum sem styrjöldinni lauk, farið að undirbúa að sundra því bandalagi, sem skapazt hafði í styrjöldinni þá. Það voru Bandaríkin, sem áttu upptök að þessu og lögðu till. um það fyrir sína gömlu bandamenn, England og Frakkland. Leon Blum, hinn kunni forustumaður sósíaldemókrataflokksins franska og lengi forsætisráðherra í Frakklandi, sagði í ágúst 1945, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar, að samkomulag við Sovétríkin sé grundvallaratriði franskrar stjórnmálastefnu og allrar sannrar evrópskrar stjórnmálastefnu. Í dag er friðsamlegt skipulag í Evrópu og heiminum fyrst og fremst komið undir samkomulagi við sovétstjórnina. Hugsunin um vesturblokk, sem beinir oddi sinum gegn Sovétríkjunum, liggur mér þess vegna fjarri. Ég er mótstöðumaður slíks flokks eða slíks bandalags Vestur-Evrópuríkjanna.“

Þetta birtist í Le Populaire, blaði sósíaldemókratanna frönsku, 28. ágúst 1945.

Af hverju gaf Leon Blum þessar yfirlýsingar þá? Af því að þá strax, í ágúst og september 1945, er Truman og stjórnendur Bandaríkjanna byrjaðir á því að undirbúa slíkt bandalag vesturveldanna og reyna að koma því á gegn Sovétríkjunum og að tryggja sér hernaðarstöðvar í því sambandi. 6. sept. 1945 gefur Truman skýrslu til „kongressins“ ameríska, þar sem hann talar um slíkar hernaðarstöðvar. Og á Lundúnaráðstefnunni, sem þá hófst, 10. sept. 1945, er byrjað á þessari pólitík og þessi blokk vesturveldanna undirbúin. Dulles, sem þá var sérstakur erindreki Trumans, skýrði frá því seinna meir. Hann skýrði frá því árið 1950, og það viðtal birtist í blaðinu Life í Chicago 8. maí 1950, að 30. sept. 1945 hefði hann átt viðtal við ameríska utanríkisráðherrann, Burnes, í Claridgehótelinu í London, og endar skýrsluna um þennan fund þeirra með því að segja orðrétt: „Á því augnabliki fæddist eftirstríðspólitík okkar, sú pólitík að hætta við samkomulagsleiðir við Sovétríkin og beita valdinu í staðinn.“ Og þá fullyrti „Wallstreet Journal“, eitt af kunnari blöðum Bandaríkjanna, að nú væri stefnt að vestur-evrópskri blokk og menn gætu vel skilið, að Rússarnir væru nokkuð tortryggnir. Það var 30. okt. 1945, sem það gat að lesa í „Wallstreet“.

Ég hef nú tekið hér aðeins nokkrar tilvitnanir um, hvað er að gerast í ágúst og september 1945 af hálfu Bandaríkjanna, hvernig þau voru að byrja þá að eyðileggja það bandalag, sem skapazt hafði gegn fasismanum í styrjöldinni, og undirbúa þá vesturblokk, sem nú er mesta styrjaldarhættan í heiminum. Það síðasta, sem ég þarna sagði frá, var viðtal Dulles 30. sept. 1945. Og nú vil ég spyrja hv. þm.: Muna þeir eftir nokkru, sem gerðist á Íslandi 1. okt.1945, daginn eftir þetta viðtal, sem Dulles átti, daginn eftir að lýst var yfir gerbreytingu á pólitík Bandaríkjanna? Jú, það gerðist ákveðinn hlutur hér á Íslandi 1. okt. 1945. Það kom krafa til íslenzku ríkisstjórnarinnar, krafa frá Bandaríkjastjórn, sem enn hafði her hér á Íslandi, krafa um það, að þrjár stöðvar á Íslandi yrðu framseldar Bandaríkjunum til 99 ára sem herstöðvar undir bandarískri stjórn. Hvað var að gerast? Það var að gerast það, að Bandaríkin strax 1. okt. 1945 gera kröfu til Íslands sem hernaðarstöðvar í sambandi við það net af hernaðarstöðvum, sem þau strax í stríðslokin eru búin að hugsa sér að skapa til undirbúnings árása á Sovétríkin.

Hæstv. fjmrh. sagði, að Sovétríkin hefðu fyrr byrjað að vígbúast eftir styrjöldina. 1. okt. 1945 eru Sovétríkin flakandi í sárum, borgirnar brenndar, sjö milljónir manna drepnar. 1. okt. 1945 sitja amerískir auðhringar, sem síðan hafa eignazt góða umboðsmenn á Íslandi, með 50000 millj. dollara, sem þeir hafa grætt á stríðinu. Hvorir halda menn nú að hafi þurft á friði að halda og hafi viljað frið, Sovétþjóðirnar, sem brutu nazismann á bak aftur með því að úthella blóði sínu, eða ameríska auðmannastéttin, sem græddi á hverjum blóðdropa, sem úthellt var? Og við þurfum ekki að spyrja að því hérna heima. 1. okt. 1945 heimtuðu Bandaríkin herstöðvar hér á Íslandi: Og í okt. 1945 tóku Sovétríkin að flytja sína heri, sem rekið höfðu nazistana burt af Borgundarhólmi og Norður-Noregi, á brott þaðan og heim til sin. Hvað gerðist? Hver var afstaða Framsfl. við kröfum Bandaríkjanna 1. okt. 1945? Það var einn maður í Framsfl., sem var þá, ef ég man rétt, enn þá formaður hans, Jónas Jónsson frá Hriflu, sem skrifaði bók um Borgundarhólm og Ísland. Og tilgangur þeirrar bókar hjá formanni Framsfl. var að sýna fram á, að auðvitað héldu Rússarnir Borgundarhólmi og náttúrlega yrðu Bandaríkin að fá að halda Íslandi. Það átti að fara að skapa áróðurslegan grundvöll hér heima fyrir því, að Bandaríkin fengju Ísland sem herstöð. Hvað gerði Framsfl.? Framsfl. var ekki í ríkisstj. 1. okt. 1945. Framsfl. skrifaði um það allan veturinn, að auðvitað bæri mönnum að neita þessum kröfum Bandaríkjanna, hvað ætti eiginlega að draga þetta lengi, hvað ætti að halda þessu stórkostlega sjálfstæðismáli lengi leyndu? Sjálfstfl. bar sig eins og hann væri heilmikil sjálfstæðishetja og vildi helzt hvergi nærri koma því, sem formaður hans var að impra á.

Kröfunum um amerískar herstöðvar á Íslandi til 99 ára var neitað 1945, af því að Sósfl. var í stjórn, eins og þróunin síðan hefur sýnt. Framsfl. er síðan hann var að veita þeim kröfum mótspyrnu búinn að fara í hring. Hann er búinn að snarsnúast. Hann er að vísu búinn að setja frá formanninn, sem hann hafði þá, Jónas frá Hriflu, en hann er búinn að gera stjórnmálastefnu hans að sinni. Og það hafði gerzt ofur lítið annað, sem ég skal minnast á, og það voru Marshallmúturnar. Framsfl. var búinn að fá í hendurnar dálítinn hlut, sem vó nokkuð þungt, þyngra en Ísland og öll ættjarðarást hjá Framsókn. Það var búið að veita nokkrum milljónum dollara inn í landið sem gjöfum, og Framsfl. var kominn í ríkisstj., og þá var sannfæring Framsfl. um, hvað það væri hættulegt, að Ísland væri herstöð fyrir ameríska auðvaldið, orðin breytt. Þess vegna hefur Framsfl. frá því 1945 snarsnúizt í málunum. Formaður hans var settur frá, en stefna hans var sett í öndvegið. En undir samvizkunnar mótmælum er það auðsjáanlega, að Framsfl. hefur fallizt á þessa pólitík. Þó að hægt sé að beygja menn í sambandi við Marshallmúturnar og öll tökin, sem Ameríka er búin að ná hér síðan, er ekki hægt að breyta sannfæringu manna.

Ég veit, að hæstv. fjmrh., eins og hann sagði í sinni ræðu, ef hann væri hérna viðstaddur núna og reyndi einhverju að svara, þá mundi hann segja: Ég veit ekki betur. — Og honum fer það vafalaust bezt. En mér liggur við að spyrja: Hvað er þessi hæstv. fjmrh. alltaf að tala um hluti, sem hann veit ekkert um? Honum er bezt að halda sér við sitt bókhald. Dálkana getur hann nokkurn veginn lagt saman, en um utanríkispólitík ætti hann helzt yfirleitt ekki að tala.

Það var ekki nóg með, að Bandaríkin, strax meðan Evrópa var flakandi í sárum og fjárhirzlur amerísku stríðsgróðamannanna fullar af fé, byrjuðu að undirbúa næsta stríð. Þau hertust því meira í trúnni á einokun sína á atómsprengjunni, eftir því sem lengra leið. Og það var ekki skorið utan af yfirlýsingunum, sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar gáfu í ameríska þinginu. Formaður fjárveitinganefndar amerísku fulltrúadeildarinnar, Cannon, sagði 18. apríl 1948, með leyfi forseta:

„Við verðum að leggja Moskva og aðrar borgir Rússlands í eyði strax á fyrstu vikunum, eftir að stríðið byrjar, með flugvélum, sem hafa flugstöðvar sínar á meginlandinu. Svo er Atlantshafsbandalaginu fyrir að þakka, að við höfum þessar flugstöðvar. Allt, sem við nú þurfum, er að hafa nóg af flugvélum til þess að flytja sprengjurnar. Við verðum að útbúa hermenn annarra þjóða, sem eiga að senda sína æskumenn í dauðann, til þess að við þurfum ekki að senda okkar pilta. Atómsprengjan leyfir Bandaríkjunum að breyta þannig. Næsta stríð verður að vinnast á fyrstu þremur vikunum. Á þeim tíma verðum við að eyðileggja allar hernaðarstöðvar Rússlands.“

Öll stríðspólitík Bandaríkjanna hefur snúizt um að reyna að kaupa aðrar þjóðir til þess að fórna sínum æskulýð, Bandaríkin láti peningana og vopnin, hinar þjóðirnar láti mannslífin. Og svo blygðunarlausir hafa forustumenn Bandaríkjanna verið í þessu sambandi, að þeir hafa ekki einu sinni reynt að dylja þetta. Stundum hafa þeir talað um varnarstríð, stundum hafa þeir sagt, að grípa yrði til annarra aðferða. Sjóhermálaráðherra Bandaríkjanna, Matthews, sagði í ágúst 1950 í ræðu, sem hann hélt í Boston, að Bandaríkin yrðu að gera heiminum það ljóst, að þau væru reiðubúin til að byrja stríð til þess að þvinga fram friðsamlega samvinnu þjóðanna.

Það er hægt að nota nokkuð margs konar orð til þess að reyna að knýja fram þá „friðarpólitík“, sem Bandaríkin segjast reka. Og sjálfur núverandi forseti Bandaríkjanna, Eisenhower, gerði það alveg ljóst í ræðu, sem hann hélt og sagt er frá í blöðum í New York 25. ágúst, daginn eftir að hún var haldin, 1952, með þessum orðum, — hann var að halda ræðu þá fyrir „American Legion“, sem eru ein af kunnustu samtökum amerísku hermannanna, — að Bandaríkin gætu ekki til lengdar þolað, eins og hann orðar það, yfirráð Rússlands í Austur-Evrópu og Asíu, Bandaríkin yrðu að vera reiðubúin til þess að hjápa þjóðunum, sem væru þrælkaðar á bak við járntjaldið, til þess að fá aftur frelsi sitt. Og meðal þessara þrælkuðu þjóða nefndi Eisenhower m. a. líka hernámssvæði Sovétríkjanna í Þýzkalandi og Austurríki. Með öðrum orðum: Hvað eftir annað kemur það greinilega fram hjá sjálfum forustumönnum Bandaríkjanna, að þeir hugsa sér þrátt fyrir allt talið í Atlantshafsbandalaginu um vörn — árásir og árásarstríð sem fyllilega mögulegt, enda sagði Manchester Guardian um þessa ræðu Eisenhowers: Þið sjáið, að Eisenhower hefur nú sjálfur staðfest þá sannfæringu friðarvinanna, að vesturveldin búa sig undir árásarstríð.

Samtímis öllum þessum yfirlýsingum, sem fram fara, tala svo verkin. Bandaríkin hafa á þessum árum, sem liðin eru frá stríðslokum, látið til sín taka og skipt sér af innanríkismálum að heita má hvers einasta lands utan sósíalistíska heimsins. Þau hafa útbúið keðju af herstöðvum hringinn í kringum Sovétríkin í heild. Það eru máske einhverjir, sem vilja reyna að telja mönnum trú um, að herstöðvarnar í Tyrklandi, herstöðvarnar í Japan, herstöðvarnar á Formósu væru allt saman herstöðvar til varnar Bandaríkjunum. En skyldu menn vilja segja það sama, ef ástandið væri þannig í dag, að það væru t. d. Sovétríkin, sem hefðu herstöðvar í Mexíkó, herstöðvar í Kanada, að þær væru til varnar fyrir Sovétríkin?

Bandaríkin hafa látið til sín taka á þessum níu árum frá stríðslokum um svo að segja hvert einasta innanlandsmál landanna utan hins sósíalistiska heims. Það var ekki aðeins, að þau blönduðu sér í borgarastyrjaldir, sem áttu sér stað, eins og í Grikklandi og Kína. Meira að segja í eins lítil mál og manni virðist það vera, hvort Íslendingar megi byggja sementsverksmiðju eftir lögum frá Alþ., sem sé eign ríkisins, eða hvort hún eigi að verða eign hlutafélags, blanda Bandaríkin sér — og hvort Íslendingar megi frjálst fá að byggja sér íbúðir eða ekki. Inn í slík mál blanda Bandaríkin sér, svo að ég ekki tali um, hvernig þau blanda sér inn í það spursmál, með hvaða flokkum stjórnmálaflokkar á Íslandi megi vinna án þess að hljóta vanþóknun Bandaríkjanna. Og Bandaríkin hafa á þessu sama skeiði komið upp hernaðarbandalögum, komið upp Atlantshafsbandalaginu, komið á hernaðarbandalagi við Japan, komið upp bandalaginu í Suðaustur-Asíu, komið á bandalaginu við Spán og eru nú að undirbúa að koma á bandalagi við Vestur-Þýzkaland, þó að í Potsdam-samningnum, sem þau gerðu við Sovétríkin og fleiri ríki, standi þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Þýzki hernaðarandinn og nazisminn verða upprættir, og bandamenn gera samkomulag viðvíkjandi framtíðinni um aðrar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til þess að Þýzkaland verði aldrei oftar hætta fyrir nágranna sína eða fyrir það, að friðurinn haldist í öllum heiminum.“

Hæstv. fjmrh. segir svo andspænis öllum staðreyndum þessara síðustu níu ára: Vesturveldin hafa óttazt árás. — Og hvernig er nú um þennan mikla árásarhug, sem hann ætlar einu helzta viðskiptaríki okkar, Sovétríkjunum? Síðustu 4 ár hefur ekki linnt yfirlýsingum frá helztu herforingjum Atlantshafsbandalagsins um það, að á hvaða degi sem væri, ef Sovétríkin vildu hefja stríð, þá gætu þau á hálfum mánuði eða í hæsta lagi nokkrum vikum tekið alla Vestur-Evrópu. Og enn nýlega voru gefnar þær yfirlýsingar af forustumönnum Atlantshafsbandalagsins, að máske eftir ein 2 ár yrðu ríkin í Vestur-Evrópu fær um að geta varizt Sovét-árás a. m. k. dálítinn tíma. M. ö. o.: Allan þennan tíma, sem hæstv. fjmrh. segir að vesturveldin hafi óttazt árás Sovétríkjanna, hafa þessi sömu Sovétríki samkvæmt yfirlýsingum forustumanna Atlantshafsbandalagsins getað tekið Vestur-Evrópu, ef þau hefðu viljað. Mér liggur við að spyrja stólinn hans Eysteins: Hví í ósköpunum hafa þau ekki gert það, ef þau eru eins slæm og hann Eysteinn heldur? Og hvers konar hugmyndir eru þetta eiginlega, og hvers konar rök eru þetta eiginlega, sem þessir menn dirfast að bera á borð fyrir okkur?

Af hverju hafa Sovétríkin ekki ráðizt á Vestur-Evrópu? Af þeirri einföldu ástæðu, að þau hafa enga löngun til þess. Það er ekki nokkur ástæða, sem knýr sósíalistísk ríki til þess að fara að leggja út í styrjöld, ef þau geta komizt hjá henni. Það er enginn maður til í þeim ríkjum, sem græðir á styrjöld, sem græðir á blóði og tárum annarra. En þeir menn eru til í Bandaríkjunum, og það eru þeir menn, sem eru að gera Ísland að leiksoppi í þessum hættulega leik í dag.

Það er hægt fyrir Bandaríkin að níðast á varnarlausum löndum eins og Guatemala, eins og þau gerðu í ár, og það er hægt fyrir þau að beygja land eins og Ísland, þegar þau hafa eins þæga þjóna og þau hafa hér. Það er hægt að níðast á slíkum löndum. En sósíalistísk ríki hafa ekki tilhneigingu til slíks.

Svo segir hæstv. fjmrh.: Við þurfum að vígbúast, til þess að Sovétríkin telji sér hagkvæmt að semja. M. ö. o.: Nú kemur hann með röksemdina um pólitík valdsins. Þessi hæstv. ráðh. virðist trúa hverju einasta orði, sem annaðhvort amerískir ráðherrar, eins og Acheson eða aðrir slíkir, skrökva að honum, eða trúa hverju því, sem lélegustu blaðamenn Tímans taka upp eftir lélegustu blaðamönnum Ameríku. Hann heldur, að það sé hægt að beita pólitík valdsins gagnvart Sovétríkjunum og þeim sósíalistíska heimi. Það er hægt að beita pólitík valdsins, eins og Ameríka hefur gert, gagnvart löndum eins og Guatemala eða gagnvart Íslandi. En verkalýðurinn og hans ríki í heiminum láta ekki beygja sig með slíku. Einn af þeim utanríkisráðherrum Bandaríkjanna, sem að ýmsu leyti sá allt skynsamlega, Byrnes, sem var utanrrh. þeirra enn 1946, lagði til fyrir sitt leyti, að Þýzkaland yrði í heila kynslóð losað við alla hervæðingu og látið vera eins og einhvers konar hlutlaust svæði á milli austurs og vesturs. Hann gerði sér það ljóst, og svo gerðu ýmsir af skynsamari stjórnmálamönnum Bandaríkjanna, að það var þá og verður ætíð óhugsandi að sameina allt Þýzkaland sem eina herstöð fyrir Bandaríkin og fyrir þýzka auðvaldið og þýzka hervaldið. Menn verða að gera sér ljós kraftahlutföllin í heiminum, og það þýðir ekki fyrir hæstv. fjmrh., meira að segja þó að hann eigi að heita utanrrh. í dag og á morgun, að tala eins og sá sósíalistíski heimur væri ekki til. Ástandið í veröldinni er það í dag, að Bandaríki Norður-Ameríku eru raunverulega einangruð í heiminum, þau eru andlega einangruð í heiminum, þau eru hötuð um allan heim, og það ritar varla nokkur fréttaritari amerískur í blöð Bandaríkjanna án þess að skýra frá því, hvernig hermenn Bandaríkjanna séu annaðhvort hataðir eða fyrirlitnir, hvar sem þeir eru í veröldinni.

Þriðji hluti heimsins er sósíalistískur í dag, annar þriðji hluti heimsins, — þarna á ég við Indland og önnur þau ríki, sem ýmist hafa verið eða eru enn þá hálfnýlendur eða annað slíkt, — annar þriðji hluti heimsins er andvígur ameríska auðvaldinu og auðvaldsstefnum yfirleitt, og þriðji hluti heimsins, Bandaríkin og Vestur-Evrópa, sem eftir er, er sjálfur innbyrðis klofinn. Það er þess vegna, ef menn vilja fara að tala í stórpólitík, eins og hæstv. ráðh. var að reyna hér áðan, og fara að beita valdinu í þessum efnum, bezt fyrir menn að reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig valdið er í veröldinni sem stendur og hvar styrkleikurinn liggur.

Svo kom hæstv. fjmrh. með það, að jafnaðarmenn, þ. e. verkamannaflokkarnir í Vestur-Evrópu, beittu sér fyrir því, að Vestur-Þýzkaland yrði aðili í Atlantshafsbandalaginu. Enn virðist hann trúa því, sem blaðamenn Tímans skrökva að honum. Brezki verkamannaflokkurinn sat hjá við atkvgr. um þetta, og það munaði aðeins nokkrum atkvæðum á hans þingi, að það yrði ákveðið að berjast gegn hervæðingu Vestur-Þýzkalands. Hinir sósíalistísku flokkar, eins og aðalsósíalistaflokkur Ítalíu, Nenni-flokkurinn, standa á móti hervæðingunni. Og það, sem hæstv. utanrrh. — eða fjmrh. — hliðraði sér hins vegar hjá að ræða, eins og eðlilegt er, því að hann sagðist aldrei ræða nein rök í svona sambandi: sósíaldemókrataflokkur Vestur-Þýzkalands og verkalýðssamband Vestur-Þýzkalands hafa tekið eindregna afstöðu á móti hervæðingu Vestur-Þýzkalands og beðið bókstaflega um hjálp allra verkamannaflokka og lýðræðissinna í Vestur-Evrópu um að hindra þetta.

Í sínu fullkomna rökleysi hleypti svo hæstv. fjmrh. að síðustu kettinum út úr sekknum með því, sem hann sagði seinast. Hann sagði: Við verðum að samþykkja þessa þáltill., því að þá er það ekki okkur að kenna, að Vestur-Þýzkaland vígbúist eitt sér. — Þar kom það fram, sem ég var að telja upp í rökunum, sem væru flutt fyrir þessu af hálfu formælenda þess úti í heimi, og væru þyngstu rökin hjá þeim, sem slík rök híta á, og það var hótun Bandaríkjanna. Þarna staðfesti Eysteinn Jónsson, að þetta var honum ríkast í huga, þetta var lokaröksemdin: Alþingi Íslendinga á að samþykkja þetta, til þess að það sé þá ekki því að kenna, að Vestur-Þýzkaland vígbúist eitt. M. ö. o.: Það eru hótanir Bandaríkjanna við sína bandamenn, sem hafa þarna aðaláhrifin á hæstv. fjmrh. Bandaríkin segja: Ef þið ekki gerið það, sem ég vil, þá geri ég það einn, þó að það sé ykkur á móti skapi.

Það að leyfa hervæðingu Vestur-Þýzkalands er þó ekki á valdi Bandaríkjanna einna og ekki heldur á valdi þeirra, þó að þau fái Breta til að samþykkja það með sér. Frakkar hafa neitunarvaldið í þessu sambandi. Og það er engum efa bundið, að Frakkland mun beita því neitunarvaldi, svo framarlega sem Bandaríkin ætla sér að hervæða Vestur-Þýzkaland utan Atlantshafsbandalagsins. M. ö. o.: Bandaríkin þurfa ekki aðeins að brjóta samninga á Sovétríkjunum, Potsdam-samningana og aðra slíka, þau verða líka að brjóta sína sérstöku samninga við sína bandamenn í Vestur-Evrópu til þess að knýja fram hervæðingu Vestur-Þýzkalands ein sér. Og það eru svo lítil líkindi til þess, að Bandaríkin mundu þora þetta, að sjálfur framsögumaður meiri hl. utanrmn. lýsti því hérna yfir áðan, að þau mundu jafnvel heldur kjósa að taka sinn her burt úr Vestur-Þýzkalandi. M. ö. o.: Það er þess vegna síður en svo ástæða til þess að fara að láta undan þessari hótun Bandaríkjanna, sem er raunverulega einasta röksemdin og sú röksemd auðsjáanlega, sem mest áhrif hefur á hæstv. fjmrh. En karlmannleg finnst mér ekki hugsunin hjá honum, sem liggur á bak við þennan boðskap til Alþingis. Hann vill sem sé segja: Við skulum þó Íslendingar a. m. k. hlýða. Ef einhverjir aðrir eru svo óþekkir við Bandaríkin, þá skulum við þó a. m. k. sýna í tæka tíð, að við viljum vera þægir. — Þegar Bandaríkjamenn eru að reyna að siga ríkjum Atlantshafsbandalagsins á þýzku alþýðuna, á þýzka verkalýðinn, sem nú biðst hjálpar á móti þessum fyrirætlunum Bandaríkjanna, þegar Bandaríkin eru að undirbúa að koma upp hálffasistískum her í Vestur-Þýzkalandi, sem sé ógnun við lýðræðið í Evrópu og stríðshótun gagnvart sósíalistísku ríkjunum, þá vill hæstv. fjmrh., að við Íslendingar sýnum það allra manna fyrst, að það standi ekki á okkur að bíta, ef okkur sé sigað.

Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. man svör Halldórs Snorrasonar, þegar Haraldur harðráði vildi fá hann og aðra Íslendinga til að vinna ódrengilegt verk, en Grímur Thomsen setti það svar í ljóð með þessum orðum:

„Með hundum konungs, harðast sem að bíta,“ Halldór svarar, „var ég aldrei fundinn.“

Ég held, að þeim, sem í dag skoða það sem fagnaðarboðskap fyrir Íslendinga að vera fljótir að hlýða, þegar stríðsgróðavaldið í Bandaríkjunum skipar, væri hollt að minnast þess, að það hefur ekki verið að skapi Íslendinga hingað til að haga sér þannig.

Og að síðustu, fyrst hæstv. fjmrh. er kominn: Hvernig skyldi standa á því, að þessi hæstv. fjmrh. skyldi nú vera eini af ráðherrunum, sem stendur upp til þess að deila í þessum efnum? Ég er hræddur um, að það sé af því, að hann veit minnst um þessi mál, en trúir mestu. Hinir vita máske meira, þó að þeir viti ekki mikið, en nóg til þess að hafa vit á að þegja. Hæstv. fjmrh. virðist trúa hverri nýrri lygi, sem Ameríkanarnir troða í hann, af sama strangheiðarlega ofstækinu og þeirri gömlu lygi, sem stangaðist við þá nýju, en hann þá var búinn að gleyma, — eða skyldi hæstv. fjmrh. vera búinn að gleyma því í dag, hverju Acheson lofaði honum 1949, þegar hann flaug vestur, að það yrði alls ekki farið fram á neinar herstöðvar á Íslandi? Og veit hann af nokkrum herstöðvum á Íslandi í dag?

Ég veit, að þessi hæstv. ráðh. boðar hver ný ósannindi, sem hann leggur hér fyrir þingið, með sömu fortakslausu ofstækistrúnni og hann boðar nýtt hallæri í byrjun hvers fjárhagsárs og er alltaf jafnsannfærður og hann er í lok hvers hallærisárs um, að það hallæri hafi verið einstakt góðæri, sem aldrei komi aftur. En ég spyr: Á vanheilög einfeldni þessa manns í utanríkismálum að vera leiðarljósið, sem Ísland fer eftir á örlagatímum þess?

Við höfum einu sinni verið í þeirri aðstöðu, Íslendingar, að geta sagt nei, þegar átti að segja til um, hvort þau öfl, sem nú eru að vígbúast í Vestur-Þýzkalandi, fengju flugvelli hér á Íslandi. Við sögðum nei, það nei heyrðist um allan heiminn, og það nei var okkur til sóma. Og við eigum að hafa manndóm í okkur til þess enn að segja nei við því, sem hér er lagt fyrir, þó að þeir menn, sem þá voru til í að segja nei og gerðu Íslandi sóma með því, séu núna þeir, sem mæla með því, að við göngum að valdboði Ameríkumanna.