20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2482)

41. mál, staða flóttamanna

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. um fullgildingu á samningi um stöðu flóttamanna er borin fram af ríkisstj., og óskar hún eftir, að Alþingi veiti henni heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda slíkan samning um stöðu flóttamanna. Það fylgir hér með stutt grg., en þó að vísu nægilega löng að því leyti, að þar eru fram tekin öll meginatriði, er þetta mál varða.

Mál þetta var í upphafi borið fram að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, og var það rætt á fundi í Genf í júlímánuði 1951, og voru 26 ríki, sem höfðu fulltrúa á þeim fundi. Ísland átti ekki fulltrúa þar, en hin Norðurlöndin, sem oft hafa haft samstöðu með Íslandi um svipuð mál, áttu fulltrúa á þeim fundi, og þar var samþ. samningur um stöðu flóttamanna. Meginefni þessa samnings er að tryggja flóttamönnum, sem hvergi hafa ríkisborgararétt eða fullkomið heimili, ýmis réttindi, þannig að þeir geti á þann hátt lifað eins og nokkurn veginn sjálfstæðir þegnar, þar sem þá hafði fjarað uppi og þeir setzt að. Stefnt er að því, að þeir séu í engu lakar settir en aðrir útlendingar, sem dvelja í hlutaðeigandi löndum, þótt þeir hafi komið inn sem flóttamenn.

Þetta mál var til umr. á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, sem haldinn var hér í Rvík í fyrrasumar, og lá þar fyrir yfirlýsing frá fulltrúum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, sem allir höfðu átt fulltrúa á Genfarfundinum áður, um það, að flóttamannasamningurinn mundi verða fullgiltur í þessum löndum innan skamms. Hefur það nú verið gert.

Íslenzka ríkisstj. telur sjálfsagt, að Ísland gerist aðili að þessum samningi, og hefur því borið fram þessa þáltill., eins og hún hér liggur fyrir. Vænti ég, að hið háa Alþingi fallist á, að hér sé um réttlætismál að ræða og sjálfsagt fyrir Íslendinga að vera með í því á þann hátt, sem þetta hefur verið markað á þeim fundum, sem ég hef nú lýst.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Samningurinn er alllangur og að ýmsu leyti flókinn, en það verður þá hver hv. þm. að pæla í gegnum hann út af fyrir sig. En röksemdirnar fyrir því að bera þetta mál fram virðast einfaldar og ég hygg að dómi okkar Íslendinga allra sjálfsagðar.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessari þál till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. allshn.