10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

73. mál, löggæsla á samkomum

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Engar skýrslur eru til, er sýni, hve margar skemmtisamkomur eru haldnar í landinu og almenn gleðimót eða hve margir sækja slík mannamót til jafnaðar. Enginn tölulegur samanburður er þess vegna til milli fortíðar og nútíðar í þessum athöfnum þjóðarinnar. Hins vegar dylst sjálfsagt engum, að skemmtisamkomuhald hefur færzt stórkostlega í aukana upp á síðkastið. Samkomunum hefur fjölgað og sóknin til þeirra vaxið, enda getur hver samkoma náð til miklu stærra svæðis en áður var. Ótalmargt veldur þessu. Annríki mikils hluta þjóðarinnar hefur minnkað, peningaráðin til þess að skemmta sér hafa aukizt. Vegirnir hafa batnað, hraðskreið samgöngutæki komið til sögunnar, samkomuhús verið stækkuð og gerð vistlegri, útvarpið tekið að sér að koma boðum til allra, sem hafa eyru til að heyra. Þá þykir það vænlegra nú en nokkru sinni fyrr að halda skemmtisamkomur til fjáröflunar, selja aðgang og veitingar til ágóða fyrir hitt og þetta, sem félög og áhugamenn vilja koma til leiðar í þágu almennings og safna fé til: Dag hvern er hrópað gegnum útvarpið á fjölda fólks til gleðimóta. Auðvitað er það æskan, sem til er talað fyrst og fremst og hlýðir kallinu örast. Telja má, að svo sé komið, að uppeldi þjóðarinnar fari að umtalsverðu leyti fram á samkomum. Áhrif samkomanna eru sterkari en hversdagslegra stunda á hugi ungmenna og háttalag. Af samkomunum draga menn dáminn heim með sér.

Engum manni getur blandazt hugur um, að mikilsvert er, að menningarbragur sé á samkomuhöldum þjóðarinnar. Þetta hefur jafnan verið þýðingarmikið, en þó meiri menningarleg nauðsyn nú, af því að samkomuhöldin eru almennari og þátttaka æskunnar í þeim meiri en áður var. Stjórn þjóðfélagsins má ekki láta málefni þessi afskiptalaus eða svo afskiptalítil sem hingað til. Þetta skildi vitanlega ráðherrann, sem bannaði útvarpinu að flytja auglýsingar um dans. En hans góða meining gerði enga stoð. Þó skal viðurkennt, að fyrir eyrað hljóma auglýsingarnar um dansleikina ekki alveg eins fátæklega og áður. Annar ráðherra gaf út fyrirmæli um, að slíta skuli opinberum samkomum ekki síðar en kl. 1–2 að nóttu. Þessi fyrirmæli voru þörf og til stórbóta. Sýna þau glögglega, að á þessu sviði sem öðrum má jafnvel með litlu mikið gagn gera, ef gripið er rétt á málum.

Samkomumenning okkar Íslendinga þarf meiri umhyggju af þjóðfélagsins hálfu en veitt er nú. Skylt þyrfti að vera að vanda meira til skemmtiefna en oft er gert, þar sem æskulýður kemur saman. En um þá hlið skal ég þó ekki ræða að þessu sinni, heldur nauðsyn þá, sem till. okkar hv. 2. þm. S-M. hljóðar um, að haldið sé uppi traustri reglu á samkomum, og svo hina óhjákvæmilegu þörf á því, að hið opinbera leggi lið til þess, þar sem starfandi lögreglulið er ekki eða þá ófullnægjandi.

Fjölmennustu bæirnir í landinu geta sennilega, ef vilji er fyrir hendi, séð um sig í þessum efnum sjálfir, svo að sómasamlegt sé, með þeirri aðstoð, sem ríkið veitir þeim nú þegar. Þó skal ég ekki fullyrða, áð þetta sé svo. En allt öðru máli gegnir um fámennari bæi og kauptún, þar sem fjölmenni safnast til dvalar tíma úr ári vegna atvinnuhátta. Þar hafa heimamenn ekki bolmagn til þess að sjá um löggæzlu. Á síðustu árum hefur líka a. m. k. sjö slíkum stöðum verið ætlað dálítið fé á fjárlögum til aukinnar löggæzlu á þeim tímum árs, sem þar er mannflest, en mikið er talið á skorta, að löggæzlan sé þó sem skyldi, og þarfnast það athugunar.

En svo er dreifbýlið, smáþorpin og sveitirnar. Þessir staðir hafa frá fyrstu tíð og til skamms tíma engrar löggæzlu þarfnast á samkomum sínum. Fámenniskenndir kunnugleikans og heilbrigður aldarháttur héldu þar vörð. Nú er þetta breytt. Samkomur fámennra byggða verða löngum fjölmennar nú, af því að fólk sækir þær um langa vegu. Gleðimótavandamál fjölmennisins eru komin út um allt land, misjafnlega erfið að vísu á hinum ýmsu stöðum, en yfirleitt of lausbeizluð og ofviða heimamönnum aðstoðarlaust. Hin beina skylda til löggæzlu fellur líka eftir eðli málsins á fleiri, um leið og stækkar sóknarsvæðið, þó að ekki náist til þeirra öðruvísi en að ríkið komi til fyrir þeirra hönd, eins og við flm. till. leggjum til að athugað verði, hvernig hentast geti orðið. Eitt mesta áhyggjuefni foreldra er nú orðið víðs vegar um land að vita börn sín á æskualdri á samkomum, þar sem ölæðingar og upphlaupsmenn vaða uppi og leynivínsalar sitja um að fá menn til þess að kaupa varning sinn. Þetta er þjóðfélagsvandamál, sem grandskoða verður, hvað hægt er að gera til þess að ráða bót á.

Auðsætt er að ekki verður lengur komizt hjá því að hafa löggæzlu, sem heldur óeirðamönnum í skefjum og gerir leynivínsölum ókleift að hafa samkomurnar fyrir markaði sína. En hvernig þeirri löggæzlu yrði bezt háttað og af hverjum hún yrði kostuð, er mál, sem þarf vel að athuga. Enn fremur er þýðingarmikið athugunarefni, hvort ekki væri hægt að setja fleiri almennar samkomureglur en þá, hvenær samkomunni skuli lokið í síðasta lagi, — reglur, sem gætu verið til bóta eins og sú regla er.

Mikilsvert er að leita allra finnanlegra ráða til þess að skapa þá samkomumenningu innra hjá fólkinu, að samkomurnar friðist sem mest af sjálfu sér. Venjulega eru það ekki nema til þess að gera fáir menn, sem eru orsök truflana á samkomum, sömu mennirnir aftur og aftur, sömu mennirnir hér og þar. Úr því að ekki má láta þessa menn í poka, hvað á þá við þá að gera, þar sem engin hús eru til geymslu, og hvernig væri til dæmis að dæma þá fyrir friðrof í útlegð af samkomum tiltekinn tíma? Mundu þeir ekki sjá að sér og verða eins og annað fólk, ef þeir ættu slíkra dóma von? Ég nefni þetta síðasta sem dæmi um það, hve málið er margþætt og á hve margt ber að líta við athugun þess.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þingheimur fallist á það, að rétt sé og tímabært að fela ríkisstj. að taka til rækilegrar athugunar, hvað hægt sé og nauðsynlegt að gera af hálfu hins opinbera til þess að halda uppi traustri og menningarlegri reglu á samkomum. Telji hæstv. forseti eða hv. þingmenn ástæðu til þess að fresta umr. og vísa till. til n., þá legg ég til, að henni verði vísað til hv. allshn. Annars tel ég svo einboðið að gera þá ráðstöfun, sem í till. felst, að samþykkja mætti hana án þess að setja hana til athugunar í n. og spara með því tíma þingsins.