08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (2497)

161. mál, okur

Flm.. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 11. landsk. (LJós) og hv. 6. þm. Reykv. (GMM) að leggja fram þáltill. um, að hv. d. setji 5 manna n. þingmanna úr þessari hv. d. til þess að rannsaka, að hve miklu leyti og með hvaða móti okur á fé viðgengst nú, fyrst og fremst í Reykjavík, og að þessi n. fái það vald, sem slíkum n. er heimilað samkvæmt stjórnarskránni til þess að yfirheyra menn og heimta af þeim skýrslur, munnlegar og skriflegar.

Ég býst við, að allir hv. þdm. séu sammála um, að það okur, sem er á almannavitorði að nú viðgengst í Reykjavík, sé með óhugnanlegustu fyrirbrigðum í okkar fjármálalífi. En hins vegar er því svo háttað með þetta fyrirbrigði, að það er engan veginn auðvelt að því að komast eða grípa það með höndunum sem það ólöglega fyrirbrigði, sem það er, því að venjulega er þar allkænlega um búið, þannig að þessi okurstarfsemi lítur út sem mjög venjuleg verzlunarstarfsemi, enda líka oft höfð aðstoð manna, sem hafa vel vit á lögum, við að framkvæma hana. En afleiðingin af þessari starfsemi er sú, að það tíðkast nú í Reykjavík, að það sé raunverulega lánað fé með 5–6% vöxtum mánaðarlega, þegar reiknað er með þeim afföllum eða með því verði, sem verðbréf eða víxlar eða annað slíkt er látið á manna á milli.

Það gengur svo langt, að það er sagt í bænum sem stendur, — nákvæmar sönnur get ég náttúrlega ekki á það fært, — að öll sala einnar verzlunar hér í bænum — ekki langt frá okkur — á síðasta ári hafi numið svipaðri upphæð og þeirri, sem þurfti að greiða í okurvexti af lánum, sem viðkomandi verzlun hafði orðið að taka með okurkjörum. Og menn geta sjálfir náttúrlega gert sér það í hugarlund, að ef um væri að ræða, að einhver verzlun hefði okurvíxla upp á 6–7 millj. kr. með allt að 60% raunverulegum vöxtum, þá er ekki lengi að koma upp í einar 4 millj. kr., sem slík verzlun gæti máske selt fyrir á ári og haft þó raunverulega ekkert afgangs fyrir allri greiðslu á vörum, starfskostnaði, húsaleigu og öðru. M. ö. o.: Þetta fyrirbrigði, sem þarna hefur skapazt, er slíkt, að það er auðvitað alveg óþolandi í þjóðfélaginu.

Hins vegar, eins og ég hef getið um, er e. t. v. oft auðvelt að íklæða svona fyrirbrigði í hætti venjulegra viðskipta. Það er hægt að segja við mann, sem af einhverjum ástæðum er í annaðhvort neyð eða í þeim hug, að hann búist við að geta grætt allmikið á einhverri verzlun, sem hann ætlar að gera, að menn taki af honum víxil með 30–40–50% afföllum eða taki verðbréf fyrir svona og svona lágt verð, — menn láni honum fé um leið, og hann eigi að greiða það til baka á ákveðnum tíma með fullu verði þess láns, sem hann hefur fengið.

Ég hef hugmynd um, að hæstv. ríkisstj. hafi haft aðstöðu til þess að skipta sér af þessum málum, ef hún hefði kært sig um, hún hafi haft vitneskju um, hvað væri að gerast í þessum efnum, og hún hafi látið hjá liða að sinna því.

Þess vegna er það, að við flm. þessarar till. leggjum til, að þingnefnd sé skipuð í málið til þess að rannsaka það. Það er háttur, sem stjórnarskráin heimilar að hafa, svo framarlega sem um mál er að ræða, sem hugsanlegt þætti að hið opinbera ella vildi þagga niður.

Og ég fæ ekki annað séð en að allir þeir hv. þm., sem væri kærkomið, að þessi starfsemi væri krufin til mergjar og þd. gefin skýrsla um það, gætu verið þess vegna fylgjandi þessari till.

Ég sé, að það hafa verið ákveðnar tvær umr. um þessa till., og hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Ég hef ekkert á móti því, að þessi till. sé athuguð í n. á milli umræðnanna, og líklega yrði eðlilegast að það yrði allshn. Að vísu skal ég viðurkenna, að að sumu leyti gæti þetta heyrt undir fjhn., en reynslan af þeirri n., þó að það hafi oft verið ágæt n., er slík hér í þinginu, að það kemur yfirleitt aldrei neitt aftur, sem til hennar fer, svo að ég vil þess vegna heldur gera það að minni till., að þessi till. fari til allshn.

Hins vegar vil ég vonast til þess, að þessi till. verði samþ. Ég álít, að Alþ. geti ekki horft aðgerðalaust á það, sem er að gerast nú í þjóðfélaginu í þessum efnum. Ég veit, að það voru nýlega við umr. um annað mál hér í þinginu bornar nokkrar brigður á það af hæstv. dómsmrh., að þetta fyrirbrigði ætti sér stað. Ég efast ekki um, að 5 manna n. þm., sem þetta rannsakaði, hefði þó aðstöðu til þess að komast að raun um, hvort það væri ekki rétt. Og þegar slík n. væri búin að ljúka sinni rannsókn og ég held þá með því að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta fyrirbrigði sé til, og hafandi þá rannsakað, með hvaða móti það gerist, þá er aðstaða fyrir Alþ. til þess að taka ákvarðanir um, hvað það vilji gera í framhaldi af slíku. Ég vil sem sé leyfa mér að vona, að það geti orðið góð samtök meðal hv. þdm. um að gera að sinu leyti það, sem hægt er til þess að rannsaka þetta fyrirbrigði og hefja þar með þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru til þess að uppræta það.