08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2498)

161. mál, okur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það kom glögglega fram í ræðu hv. 1. flm., að till. þessi er flutt í framhaldi af umr., sem hér urðu á dögunum, vegna ummæla hv. þm.

Hv. þm. ítrekaði nú það, sem hann þá sagði miklu greinilegar, en lét sér nægja að gefa í skyn nú, að ríkisstj. hefði haft einhver afskipti af málum í þá átt að kveða niður, að rannsókn yrði á okurstarfsemi hér í bænum.

Á dögunum sagði hv. þm. beinlínis, að ríkisstj. hefði gert ráðstafanir í þessa átt, að hindra, að slíkt kæmist upp. Nú dró hann úr þessu, en lét þó í það skína, að þessi mál hefðu komið fyrir ríkisstj. á þann veg, að hún hefði getað fyrirskipað rannsókn, ef hún hefði viljað. Jafnframt sagði hv. þm., að ég hefði dregið í efa á dögunum, að okur ætti sér stað hér í bænum. Mér þykir af því tilefni hlýða að lesa upp orðrétt það, sem ég sagði þá um það efni:

Hv. þm. sagði, að ríkisstj. hefði gert sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að þessi okurstarfsemi yrði hindruð. Mér er algerlega óljóst og ókunnugt, hvað hv. þm. á við. Ef hann hefur einhverjar raunverulegar upplýsingar um slíkt okur og slík lögbrot í þjóðfélaginu, þá vil ég eindregið mælast til þess, að hann leggi þau gögn fram, svo að hægt sé að skerast í þann ljóta leik. Og ég vil lýsa því yfir alveg afdráttarlaust, þannig að ekki geti leikið á neinum vafa, að ríkisstj. hefur ekki fengið til meðferðar neitt, sem þessi ummæli hv. 2. þm. Reykv. geti helgazt af, þannig að ef hann hefur einhverja vitneskju um slíka starfrækslu hér, þá er það atriði, sem er mjög mikilvægt, að hann láti koma fram í dagsins ljós, svo að hægt sé að koma í veg fyrir slíkar aðfarir.“

Þetta sagði ég á dögunum. Ég ræddi yfirleitt ekki um það, hvort hér ætti sér stað okur eða ekki. Ég mótmælti því hins vegar eindregið og ítreka þau mótmæli enn, að nokkuð hafi komið fyrir ríkisstj., sem gæfi henni möguleika til að hefjast handa um þessi efni, hvað þá að ríkisstj. hafi gert nokkuð af sinni hálfu til að kveða niður ráðstafanir annarra til að reyna að stöðva slík lögbrot. Um hitt afriðið, hvort okur á sér stað eða ekki, þá er það mjög svipað því og hvort skattsvik eigi sér stað eða ekki. Ég hygg, að enginn fullvita maður í þessu landi neiti því, að skattsvik eigi sér stað í allstórum stíl hér. Hitt er eftir að sýna fram á, hvaða ráðstafanir er hægt að gera umfram það, sem nú þegar er gert með skattanefndum og öllu því bákni, sem þeim fylgir, skattstofum og skattstjórum, til þess að reyna að knýja fram rétt framtöl. Þrátt fyrir allt það bákn, sem þar á sér stað, efast sjálfsagt enginn maður um það, að skattsvik eigi sér stað í landinu. Með okur er það eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ákaflega erfitt er að hafa hendur í hári þeirra manna, sem það fremja. Hv. þm. lýsti því svo glögglega, að þar hef ég engu við að bæta. En þeim mun meira er um það vert, ef hv. þingmenn, þessi hv. þm. eða annar, hafa ákveðin tilfelli, sem þeir geta bent á, þá skal sannarlega ekki standa á mér að fyrirskipa og láta þegar í stað hefja rannsókn í þeim efnum, hver sem í hlut á.

Ég kann ekki ráð til þess að hafa upp á þessum mönnum, ef enginn, sem viðskipti við þá hefur, fæst til að kæra þá, eða ef enginn, sem telur sig með öryggi vita um okur, fæst til þess að kæra okrarana, jafnvel þó að hann hafi ekki sjálfur haft viðskipti við þá. Og einmitt þess vegna tel ég það mjög mikilsvert, að hv. 2. þm. Reykv. láti í té alla þá vitneskju, sem hann hefur um þessi efni.

Hv. þm. talaði hér áðan eins og það væri á almannavitorði, að verzlun hér í bænum hefði tapað eða greitt til okrara, skildist mér, 6–7 millj. króna. Var það ekki rétt skilið? (EOl: Það voru fjórar, sem ég talaði um.) Já, 4. Ég misskildi hv. þm., en sjálfsagt er að hafa það, sem réttara reynist. (EOl: 60–70% af sex millj.) Já, það er einmitt það. Sjálfsagt er að hafa það, er sannara reynist. En ég spyr: Ef þetta er svo og ef þetta liggur fyrir, af hverju hefur þá enginn af þeim, sem hér eiga hlut að máli, kært það mál? Af hverju kærir ekki sá kaupsýslumaður eða þeir kaupsýslumenn, sem fyrir þessu hafa orðið? Af hverju kæra þeir ekki? Og af hverju kæra ekki aðrir lánardrottnar?

Ég tel það sannast sagt ákaflega ósennilegt, að slíkt geti átt sér stað, án þess að einhver af þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, láti til sín taka um að kæra. En eins og ég hef þegar tekið fram, hefur engin kæra borizt til dómsmrn. eða sakadómara af þessu tilefni, og ríkisstj., hvorki mitt ráðun. né ríkisstj. í heild, ekki á neinn hátt haft nokkur afskipti af þessu máli og allra sízt á þann veg að kveða niður, að rannsókn gæti átt sér stað. En vitanlega verða þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, sjálfir að kæra og gefa réttarvörzlunni færi á því að skyggnast í það, hvað hér er á ferðum, og ég á raunar mjög bágt með að trúa því, að fjármálastofnanir landsins, sem sjálfsagt hafa eitthvað verið viðriðnar þessa stofnun, mundu hafa látið það afskiptalaust, hafi það legið fyrir, að þetta verzlunarfyrirtæki hafi tapað svona með þessum hætti. Ég á ákaflega bágt með að trúa því. En ef hv. þm. veit um, að svo sé, þá er vissulega nauðsynlegt, að það komi fram, og ég vil láta það uppi af minni hálfu, að ég tel auðvitað sjálfsagt, að þetta mál fari til 2. umr., því að það er síður en svo, að ég hafi á móti því, að þetta mál sé kannað til hlítar. Þvert á móti óska ég eftir því, að öll plögg geti orðið lögð fram, þannig að réttvísinni gefist færi á því að rannsaka og koma réttum lögum fram, ef hér hafa lögbrot átt sér stað.