08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2499)

161. mál, okur

Flm. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. dómsmrh. spurði: Af hverju kæra menn ekki, ef einhverjir svona hlutir eins og ég var að minnast á ættu sér stað? Það getur verið af tveim orsökum, annars vegar af því, að menn séu svo gersamlega ofurseldir þeim, sem þeir eru í klónum á, að menn treysti sér ekki til þess, og það getur ef til vill stundum líka verið af vantrausti á réttvísinni, þó að það sé nú kannske ósköp ljótt, að menn séu stundum hræddir um, að hún mundi ekki beita sér í þessum efnum.

Hæstv. dómsmrh. spurði mig, hví ég kæmi ekki fram með gögnin í þessu máli, ef ég vissi svona um þetta. Ég mundi ekki þurfa að fara fram á rannsóknarnefnd þdm., ef ég hefði öll gögn í málinu. Það, sem ég er að gera, er að fara fram á, að hv. Nd. beiti því valdi, sem hún hefur eftir stjórnarskránni, til þess að rannsaka þetta mál, af því að mér sýnist það vera látið undir höfuð leggjast af hlutaðeigandi aðilum að framkvæma slíka rannsókn. Það hefur verið lengi um það talað á milli manna hér í Reykjavík, áður en þessi síðustu hneyksli gerðust, að hér ætti okur sér stað. Það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir af hálfu þeirra, sem eiga að gæta réttvísinnar í landinu, til þess að komast fyrir um þetta. Ég hélt því fram, að ráðherrar og hæstv. ríkisstj. hefðu haft aðstöðu til þess að sjá, hvernig þetta okur væri framkvæmt, hefðu haft aðstöðu til þess jafnvel að vita um skuldir og verðbréf manna, sem ella væru eignalausir, — hefðu haft aðstöðu til þess með því að bera saman alls konar skuldakröfur, sem bárust til vitneskju einstakra ráðherra, og „eventuellar“ skattskýrslur manna, að svo miklu leyti sem það kemur út á því almenna eignauppgjöri, hvort menn eiga eignir, — hefðu haft aðstöðu til þess að sjá, hvort eitthvað væri athugavert í slíkum hlutum. Og ég hélt því fram, að ýmsir hæstv. ráðherrar hefðu haft vitneskju í þessum efnum og samt leitt þetta hjá sér, eins og sést á því, að þeir hafa enn þá ekkert gert.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að sér þætti ósennilegt, að þetta hefði átt sér stað. Ég býst við, að rannsóknarnefnd hér í þinginu, ef hún kallar ýmsa ráðherra fyrir sig, geti látið þá svara spurningum um það efni, hvort þeir hafa haft aðstöðu til þess að skyggnast í slík skuldaskil, og komizt þannig að raun um, hvort ráðherrar fram að þessu hafa haft aðstöðu til þess að grípa inn í svona mál. Það, sem ég segi í þessum efnum, er, eins og hæstv. dómsmrh. náttúrlega benti á, enn sem komið er staðhæfingar. Sannanir í þessum efnum mundu fyrst fást við rannsókn í þessu máli, og það, sem ýtti á eftir mér með að flytja þessa till., er, að mér sýnist vera sleppt að rannsaka það, sem hefði verið rannsóknarvert. Og hvort maður notar þau orð, að það væri sleppt að rannsaka slíkt eða þar með væri verið að kveða það niður, er nú raunverulega aðeins mismunandi orðalag um það sama.

Ég held þess vegna, að það, sem hæstv. dómsmrh. hefur sagt, ýti undir, að svona n. sé skipuð, eins og ég hef hér lagt til ásamt tveim öðrum hv. þm. Hann sjálfur hefur með rannsókn mála í landinu að gera og getur fyrirskipað rannsókn og hefur ekki enn þá séð ástæðu til þess að gera neitt í þessum efnum. Og eins og hann veit frá sínum eigin samstarfsflokki, þá eru mjög deildar meiningar meira að segja um rannsóknardómara, þegar hann setur þá, þannig að ég held, að það væri í máli eins og þessu mjög heppilegt, að farið yrði að þeirri till., sem ég hef hér gert ásamt tveim öðrum hv. þm.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að það væri nú ef til vill svipað með okrið í þjóðfélaginu og með skattsvikin. Það efaðist enginn um, að það væri rétt, að skattsvik ættu sér stað, en það væri bara svo bölvað að komast fyrir um þetta: Og ég efast ekki um, að hæstv. dómsmrh. hefur þar alveg rétt að mæla. Samt er munurinn sá, að það er þó allmikið bákn, sem sett er á laggirnar í hverjum kaupstað og ekki sízt í Reykjavík til þess að hafa eftirlit með skattframtölum og reyna að komast fyrir um skattsvik, en það fer lítið fyrir bákninu viðvíkjandi baráttunni við okrið. Hitt er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. kom inn á, að það skapar ákaflega mikla örðugleika um þessa baráttu, að þeir menn, sem viðskiptin eiga við okrarana, fást ekki til að kæra þá. Það er alveg rétt, og það skal ég fyllilega viðurkenna, að það er atriði, sem jafnt rannsóknarnefnd, sem yrði sett, eins og líka ef hann setti rannsóknardómara, mundi reynast mjög örðugt viðfangs. Hér er sem sé þjóðfélagsvandamál af mjög slæmu tagi við að etja. Við stöndum frammi fyrir ástandi, sem allir eru sammála um að sé hneyksli og sé óþolandi, en sé þannig, að þegar við grípum í það, þá er eins og að það víki sér undan okkur. Ég held þess vegna, að það væri reynandi, þó að það hafi lítið verið að því gert fram að þessu, að þingið sjálft sæi til, hvort það gæti ekki komizt fyrir um þessa starfsemi, þetta átumein, sem hæstv. dómsmrh. að ýmsu leyti réttilega kvartar yfir hvað sé fyrir þau venjulegu yfirvöld erfitt viðureignar, og ég held, að það sé nauðsynlegt, að þessi hv. þd. geri það; það séu það mikil brögð orðin að þessu og þetta fyrirbrigði sé orðið það ófyrirleitið, að við getum ekki lengur látið það þolast, án þess að Alþ. láti koma til sinna kasta. Hitt stendur svo aftur opið, þegar svona n. væri búin að skila sinni skýrslu, hvað þá væri gert. Ég skil það náttúrlega mjög vel, að hæstv. ríkisstj. hefur alltaf möguleika með sínum meiri hluta hér á Alþ. að taka þá ákvörðun, að eftir skýrslu frá rannsóknarnefnd skuli dómsmrn. falið málið að öllu leyti, og við í stjórnarandstöðunni getum náttúrlega litið við það ráðið, a. m. k. svo framarlega sem stjórnarflokkarnir koma sér alveg saman um það. Hvað þeir eru sammála í þessum efnum, það skal ég ekki segja; það verður að koma á daginn, þegar þingið sem heild er búið að gera það, sem það getur, til að upplýsa þetta. Þá kemur auðvitað til kasta hæstv. ríkisstj.