08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

161. mál, okur

Gunnar M. Magnúss:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður þeirrar till., sem hér hefur verið til umræðu, og að gefnu tilefni af orðum hæstv. dómsmrh., þar sem hann dró nokkuð í efa, að tilefni væri til þess að skipa slíka n. eða kjósa slíka n. hér í deildinni til rannsóknar á okri, vil ég nefna dæmi, svo sem hann óskaði að gert yrði.

Ég vil fyrst benda á það, að umræðurnar hafa snúizt því nær eingöngu, sem komið er, um eitthvert ákveðið verzlunarfyrirtæki, sem, eins og síðasti hv. ræðumaður benti á, væri talað um undir rós, en ég sem meðflutningsmaður þessarar till. hafði þetta fyrirtæki ekki sérstaklega í huga. Og ég geri ráð fyrir því, að hugur hv. þingmanna reiki til fleiri fyrirtækja en þessa. En dæmi, sem ég ætla að nefna hér, vil ég skjóta til hinna lögfróðu manna og þá sérstaklega til hæstv. dómsmrh. og spyrja, hvort heyra muni undir okur. Það er auglýsing í Morgunblaðinu öðru hverju frá manni, sem auglýsir undir nafni, að hann láni peninga, hann leiðbeini mönnum í peningaviðskiptum og greiði fyrir viðskiptum manna. Nú fyrir um hálfum mánuði kemur kjötkaupmaður hér í bænum, sá sem sagði mér þessa sögu, til þessa manns. Þennan kjötkaupmann vantaði 20 þús. kr. til þess að leysa út kjötvinnsluvél. Hann fer til þessa manns og spyr, hvort hann geti lánað honum peninga, 20 þús. krónur. Já, það er velkomið að útvega þér peningana, 20 þús. kr., en þá verðurðu að taka einum þriðja meira, sem sagt um 10 þús. kr. til viðbótar, en það færðu ekki út í peningum, það verðurðu að taka út í vörum. — Og hvaða vörur eru það? Ja, það eru vörur af „lager“, sem má selja við ýmiss konar tækifæri. Og hvaða vörur voru þetta til dæmis? Það voru nokkur hundruð tylftir af tölum. Það voru ýmiss konar leikföng. Það var keramik. Það voru postulínshundar og leirhundar og fleira, sem mætti nefna. Hann varð sem sagt til þess að geta náð í þessa kjötvinnsluvél að taka hitt og þetta skran út á um 10 þús. kr. til viðbótar. Hann treysti sér ekki til að taka þetta lán. En nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Heyra svona lánveitingar undir okur? Ef maðurinn hefði tekið þetta lán, var hann þá búinn að taka okurlán, og var lánveitandinn undir þá sök seldur, sem við leyfum okkur að kalla okur? Ég vil ekki nefna nöfn í þessu sambandi, get það þó og mun gera til væntanlegrar nefndar, sem hér verður skipuð samkv. þáltill. okkar, ef þess verður óskað. Og enn fleiri dæmi mun ég geta nefnt.