22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2507)

161. mál, okur

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að sjálfu málinu, vildi ég láta í ljós undrun mína yfir því, að flutningsmenn till. þeirrar, sem hér liggur fyrir, virðast telja rétt að vekja athygli utan þings á þessu máli á mjög óþinglegan og að ég vil segja ruddalegan hátt, eins og sjá má af skrifum þeim, sem eru í dagblaðinu Þjóðviljanum í morgun, í sambandi við þetta mál. Og án þess að ég vilji beina því að nokkrum sérstökum af flm. till., þá verður þó að sjálfsögðu 1. flm. að taka á sig heiðurinn af þessum skrifum.

Eins og mönnum er í fersku minni, var þetta mál tekið út af dagskrá hér í gær að minni beiðni. Í tilefni af því hefur Þjóðviljinn skrifað nefnda grein, og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa smáklausu úr þessari grein:

„Málið var á dagskrá Nd. í gær til síðari umr., og hefði mátt ætla eftir þessa afgreiðslu n., að það ætti greiðan gang gegnum þingið.“ (Afgreiðsla n. var sú, að hún mælti eindregið með till.) „En rétt áður en að till. kæmi, tók Bjarni Benediktsson Björn Ólafsson út undir vegg í þingsalnum og talaði geyst yfir honum, ómjúkur á svip. Að því loknu kom Björn dálítið skömmustulegur til forseta og ræddi við hann nokkra hríð, en forseti brosti svolítið háðslega, meðan á því stóð. Svo gerðist það, að forseti tók till. um rannsókn á okri af dagskrá, enda þótt ríflegur fundartími væri enn til stefnu. Verður fróðlegt að sjá, hvort þau öfl, sem vilja hindra rannsókn á okurstarfsemi, eiga svo sterk ítök innan veggja Alþingis, að takist að hindra samþykkt á till. Einars, Lúðvíks og Gunnars, þrátt fyrir eindregin meðmæli allrar nefndarinnar.“

Það er að sjálfsögðu ekki einsdæmi, að mál séu tekin út af dagskrá hér í d., og það er ekki heldur einsdæmi, að Bjarni Benediktsson og ég tölum saman hér í þingsalnum. En ég held, að það sé einsdæmi, að flm. till. hér í þingi láti blað sitt flytja svona lágreist slúður eins og þetta úr þingsölunum. Þó að þetta sé ómerkilegt, þá eru þessi skrif furðuleg og þeim til lítils sóma, sem að þeim standa. Ástæðan fyrir því, að málið var tekið út af dagskrá í gær, var ekki önnur en sú, að ég þurfti að sinna aðkallandi störfum, meðan á þingfundi stóð, og bað þess vegna forseta um að taka málið af dagskrá, svo að það yrði ekki tekið fyrir, ef ég væri ekki á fundi.

Ég get huggað hv. flm. með því, að mér vitanlega hefur ekki komið til tals, hvorki í n. né hjá nokkrum nefndarmönnum, að taka aftur þá afstöðu n., sem kemur fram á þskj. 476.

N. ræddi þetta mál nokkuð, en eins og tekið er fram í nál., taldi hún sig ekki hafa aðstöðu til að dæma um nauðsyn þeirrar rannsóknar. sem hér er um að ræða. En vegna þess, að mjög hefur verið í hámæli manna á meðal, að okurlánastarfsemi fari hér fram, taldi n. rétt, að reynt væri að fá úr því skorið, hvort nokkur fótur væri fyrir þessu. Þetta hefur sérstaklega komið upp, eins og kunnugt er, í sambandi við gjaldþrot eins fyrirtækis hér í bænum, Ragnars Blöndals h/f. Nú er að vísu svo komið, að segja má, að viðhorfið til nefndarskipunarinnar sé nokkuð breytt, þar sem málið er nú komið í opinbera rannsókn og talið er víst, að það verði rannsakað frá ýmsum hliðum, þ. á m. frá þeirri hlið, sem þessi till. fjallar um.

En þrátt fyrir þessa breyttu afstöðu hef ég ekki talið ástæðu til að breyta afstöðu minni í n. og tel þess vegna, að rétt sé að samþ. þessa nefndarskipun. Ég mæli því með því, að till.samþ., eins og aðrir nm.

Auk þess er ástæða til að ætla, að slík n., sem skipuð er af þinginu í þessu skyni, geti aflað sér víðtækari upplýsinga í málinu en gerast mundi í sambandi við venjulega réttarrannsókn. Ég tel vel farið, ef málið verður athugað ofan í kjölinn, og þar sem hv. flm. hafa mjög látið í það skína í sínum málflutningi hér í þinginu og utan þings í blaði sínu, að þeim væru kunnar ýmsar upplýsingar í málinu. þá er þess að vænta, að þeir leggi nú öll plögg sín á borðið og skýri frá því, sem þeir vita í málinu, þegar þingið hefur skipað n. og hún tekur til starfa. Af ræðum þeirra hefur verið hægt að skilja, að þeir vissu ýmislegt í þessu máli, sem aðrir vissu ekki. Ég get ekki betur séð en að þeim beri nú skylda til. þegar svona langt er komið og n. hefur verið skipuð, að skýra frá því, sem þeir vita í málinu sannast og réttast.