22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2508)

161. mál, okur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér f. h. okkar flm. að þakka hv. allshn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessari till., sem hér liggur fyrir, og mér þykir mjög vænt um, að n. skuli hafa séð nauðsyn á því að láta þessa rannsókn fara fram og mæla með því, að Alþ. grípi til þess ráðs, sem því er heimilað í stjórnarskránni og ekki hefur áður verið gripið til hér hjá okkur, að skipa sérstaka n. innandeildarþingmanna til þess að rannsaka þetta fyrirbrigði, sem við erum allir sammála um að sé meinsemd í okkar þjóðfélagi og þurfi að reyna að finna aðferðir til þess að uppræta. Ég vil þess vegna vonast eftir því. að hv. d. verði við þessum tilmælum frá hv. allshn., sem hér hafa komið fram um, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem lagt er til að gera þar á.

Hv. frsm. n., hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), minntist ofur lítið á í sinni annars góðu framsöguræðu, að það hefði verið gefin allskemmtileg lýsing í einu dagblaði bæjarins á smáatburði. sem fram hefði farið hér í þingsalnum. Ég verð nú að segja, að mér finnst það frekar kryddað ofur lítið, ef blaðamennirnir finna upp á að lýsa ofur lítið því, sem gerist hér öðru hverju: það er nú það dauft og leiðinlegt í þingsölunum yfirleitt og lítil afrek, sem unnin eru, að það er rétt eins og ofur lítill pipar í plokkfiskinn að fá svona smágamansamar lýsingar á því, sem þar er að gerast. Ég skal nú ekki segja, hvort þeir kunni að hafa haft einhverjar endurminningar um kátleg og þó öllu leiðinlegri fyrirbrigði, þeir sem þetta hafa skrifað.

Það er nefnilega svo, að þótt hv. 3. þm. Reykv. segi, að það komi nú ekki til tals og hafi ekki komið til tals að taka aftur neina afstöðu eða till., þá er þetta þó ekki ótítt fyrirbrigði, því miður, á þessum síðustu og verstu tímum hjá stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi. Frv., sem ég stóð að hér í Nd. sem einn af flm. og samþ. var í þessari d. og sent var til Ed., sent þar til nefndar og mælt einróma með af allri n., og það fjhn. Ed., og útbýtt prentuðu þskj. um að mæla með að samþ. viðkomandi frv., hlaut þá meðferð, að meiri hl. n., stjórnarliðið í n., snerist, þegar kippt var í spottann annars staðar frá, og sami meiri hl. n. sem hafði lagt til að samþykkja þetta frv., lagði síðan til að vísa því til ríkisstj., án þess að nokkur skýring væri gefin á því, hvernig hefði staðið á þessum skyndilegu hughvörfum. Ég veit ekki, hvort það kann að hafa vakað fyrir þeim, sem skrifa, ótti við eitthvað svipað, þegar þessi frekar skemmtilega lýsing var gefin. En a. m. k. er ákaflega gott að fá nú þá yfirlýsingu frá hv. 3. þm. Reykv., að nú komi það ekki til neinna mála að fara að gera svona breytingar á afstöðu nefndar, hún standi við það, sem hún hefur sagt, og það komi ekki til tals að taka aftur þá afstöðu eða þá till. Mér þykir mjög vænt um það, og batnandi mönnum er bezt að lifa. Ég vona, að það sýni sig, að nefndirnar vilji fara að taka þessi mál dálítið fastari tökum og standa við þá afstöðu, sem þær taka. Ég sé, að n. hér eru yfirleitt farnar að gerast allmiklu virkari en verið hefur í þinginu; meira að segja nál. um frjálsan innflutning bifreiða er þegar komið hér fram, og ef þingið stæði nokkrar vikur enn þá, þá gæti ég jafnvel trúað, að hv. fjhn. þessarar d. færi að rumska. Hins vegar býst ég við, að það þurfi allmikið til, og um leið vil ég segja hv. allshn. til hróss, að hún hefur gengið vel fram í að afgreiða sínar till., og mættu aðrar n. þingsins, þær sem nú sofa værast, taka sér hana til fyrirmyndar um slíkt.

Ég vil um leið vekja athygli hv. þdm. á því, að með þeirri ákvörðun, ef samþykkt verður nú, að stofna til svona n., erum við að fara inn á nokkrar nýjar leiðir viðvíkjandi því að reyna að tryggja heilbrigði í okkar þjóðlífi. Og ég vil leyfa mér að vonast til þess, að sú tilraun, sem hv. d. gerði með því að samþ. þessa till., mætti ganga vel, mætti sýna það, að Alþ. gæti á þennan hátt, sem annars er óvenjulegur hjá okkur, lagt nokkuð fram til þess að uppræta meinsemd, sem við vitum allir að hefur viðgengizt um þó nokkurt skeið, meinsemd, sem erfitt er að komast að. Og ég vil vonast til þess, rétt eins og við, sem þetta mál flytjum, munum gera það, sem við getum, til þess að stuðla að því, að aðrir þeir, sem jafnvel eru enn þá kunnugri fjármálaheiminum, ekki sízt í Reykjavík, láti ekki sitt eftir liggja, þannig að það verði lagzt á eitt af okkar hálfu til þess að komast fyrir rætur þeirrar meinsemdar, sem þessi hv. d. væri að taka sér fyrir hendur að rannsaka með skipun þeirrar n., sem hér er lagt til.

Ég vil svo þakka hv. allshn. enn einu sinni fyrir afgreiðsluna á þessari tillögu.