22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2511)

161. mál, okur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að láta með fáeinum orðum í ljós ánægju mína yfir þeim skörulegu ummælum, sem hæstv. dómsmrh. viðhafði hér áðan um vilja sinn og dómsmálastjórnarinnar til þess að láta kafa til botns í því fjármálahneyksli, sem gerzt hefur í sambandi við fjárþrot verzlunarfyrirtækisins Ragnars Blöndals h/f. Ég vænti þess, að sú verði niðurstaða þess máls, að allt verði þar leitt í ljós, sem ástæða er til þess að í ljós komi, svo að ekkert verði í framtíðinni á huldu varðandi það mál.

Ég hugleiddi það stundum, meðan sögusagnir gengu í bænum fyrst varðandi þetta mál, líkt og hæstv. dómsmrh. lýsti í ræðu sinni áðan, að svo virtist sem fyrirtæki þetta væri skylt til þess samkvæmt gildandi landslögum að framselja bú sitt til gjaldþrotaskipta. Á því gæti varla leikið nokkur vafi, að fyrirtækið ætti ekki fyrir skuldum, og að það væri á vitorði eigenda og forsjármanna fyrirtækisins, að það ætti ekki fyrir skuldum, og að önnur þau atriði, sem jafnframt eru skilyrði þess, að fyrirtæki sé skylt að framselja bú sitt til gjaldþrotaskipta, væru einnig fyrir hendi. Mér virtist þetta, samkv. því, sem sagt var manna á meðal og fram hafði komið í blöðum, vera svo augljóst, að það væri farin að verða ástæða til þess fyrir dómsmálastjórnina að hefjast handa í þessum efnum. En tilefnið kom, sem betur fer, í rannsóknarbeiðni hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar, form. bankaráðs Búnaðarbankans, sem gerð var í tilefni af flugriti Jónasar Jónssonar. Þó að sú rannsóknarbeiðni snerti að vísu, eins og raunar var við að búast, fyrst og fremst þau málsatriði, sem rætt var um í nefndum bæklingi, þá virðist það ætla að verða niðurstaða málsins, að það verði rannsakað í heild, og fagna ég því fyrir mitt leyti mjög, að svo skuli verða. Á því virðist enginn vafi leika, að hér í bænum er um að ræða ýmiss konar fjármálaspillingu, sem nauðsynlegt er fyrir dómsmálastjórnina og réttvísina að kafa til botns í og gera sitt ýtrasta til að útrýma. Þetta mál virðist einmitt vera tilefni til þess að gera ráðstafanir í þá átt. Ég endurtek sem sagt, að ég fagna því fyrir mitt leyti, að skriður skuli vera kominn á málið, og vænti þess, að þannig verði áfram haldið, að það upplýsist að fullu.

Þetta var þó ekki tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur annað atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. Hann vék nokkrum orðum að því, að blað flokks míns hefði haft ranglega eftir ummæli sín á Alþ. við fyrri hluta umræðu þessa máls. Ég hef aflað mér upplýsinga um, hvað í Alþýðublaðinu hefur um þetta mál verið sagt, og mér er sagt, að í þingfréttum blaðsins hafi aldrei verið vikið einu orði að umræðum um þetta mál, heldur aðeins sagt frá, að till. hafi komið fram og hverjir hafi verið flutningsmenn hennar, hins vegar hafi einum tvisvar eða e. t. v. þrisvar sinnum verið vikið að umræðunum í forustugreinum blaðsins. Þó að ég minnist þess ekki sjálfur, með hverjum hætti það hafi verið, dreg ég engan veginn í efa, að hæstv. dómsmrh. hafi þar skýrt rétt frá, að ummæli sín um þetta efni hafi þar verið rangfærð, og skal ég gjarnan taka fram, að það harma ég og tel skyldu blaðsins að leiðrétta það, sem þar kann að hafa verið rangsagt.

En jafnframt vék hæstv. dómsmrh. að atriði, sem ég hef sjálfur margoft hugleitt áður, þ. e. varðandi fréttir blaðanna af þingfundum, af þeim umræðum, sem hér fara fram. Um það mál er það skemmst að segja, að þeim er mjög ábótavant, svo ábótavant, að það er íslenzkum blöðum til skammar, svo ábótavant, að ég hef oft hugleitt það og rætt það við mér fróðari menn í lögum, hvort ekki væri ástæða til þess að gera lagalegar ráðstafanir til að tryggja, að þingmenn þurfi ekki að þola það, að í blöðum séu beinlínis ranghermd eftir þeim ummæli, sem þeir viðhafa hér í þessum ræðustóli. Það er algerlega rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að hér er ekkert smámál á ferðinni. Hér er mál, sem snertir sóma löggjafarsamkomunnar og einn af hornsteinum lýðræðis og málfrelsis í landinu. Ef þingmenn geta átt von á því, að í blöðum sé því algerlega snúið við, jafnvel í feitletruðum fyrirsögnum, sem þeir segja hér á hinu háa Alþingi, þá er í raun og veru grundvellinum kippt undan því, að sómasamlegar og málefnalegar umræður geti farið fram um þjóðmál í landinu. Víða annars staðar lítur blaðamannastéttin á það sem helga skyldu sína, sem eina af frumskyldum sínum, að hafa bein ummæli ávallt rétt eftir. Hitt er svo annað mál, að þeim má í frásögnum og túlkun gefa mismunandi blæ, og um það er ekki að sakast. En séu ummæli höfð eftir, eiga þau að sjálfsögðu að vera rétt höfð eftir. Á þessu hefur því miður verið mjög mikill misbrestur.

Og þannig er mál með vexti, að blað hæstv. dómsmrh., sem er langstærsta og langútbreiddasta blað landsins, hefur ekki verið eftirbátur annarra blaða um þetta efni, nema síður væri. Morgunbl. er svo stórt blað, svo miklu stærra en öll önnur blöð landsins, að það ætti að hafa bezt skilyrði til þess allra blaða að flytja t. d. mjög ýtarlegar og greinargóðar fréttir frá umræðum á Alþingi og gæta þess, að fram komi öll meginatriði í umr. um mál. Ég veit, að öllum hv. alþm. er ljóst, að mikið skortir á, að svo sé, og skal ég þó ekkert sérstaklega deila á Morgunblaðið í þessum efnum frekar en önnur blöð, heldur ræða hér blaðamennskuna almennt. Þó get ég tekið fram sem eins konar kvittun, ef svo mætti segja, fyrir það dæmi, sem hæstv. dómsmrh. nefndi, að sjálfur hef ég oftar en einu sinni orðið fyrir því, að hans málgagn hafi alveg snúið við merkingu í orðum, sem ég hef hér viðhaft í þessum ræðustól. Ég man t. d. eftir því einu sinni, um það leyti sem ég var að hefja afskipti af stjórnmálum, að það var gert á mjög áberandi hátt. Ég bað þá Morgunblaðið fyrir leiðréttingu á þessum ummælum, örstutta — þetta var fyrir tíu árum — og tví- eða þríbað um birtingu hennar, en var um það synjað. Lesendur blaðsins, sem ekki lesa önnur blöð, hlutu að standa áfram í þeirri meiningu, að ég hefði sagt allt annað en ég hafði sagt. Eftir því sem árin færast yfir mann, þó að þau séu ekki orðin mörg enn, verður maður smám saman minna viðkvæmur í þessum efnum, þó að maður ætti í raun og veru ekki að vera það, þó að maður ætti í raun og veru alltaf að halda áfram að gera þá kröfu, að það, sem kemur fram í blöðum um umræður, a. m. k. hér á Alþingi, sé rétt og ekkert annað en það, sem er rétt.

Ég skýt því fram hér í tilefni af þessum umræðum, hvort ekki væri rétt að taka ákvæði í refsilögin um, að það skuli varða refsingu að skýra beinlínis eða vísvitandi rangt frá ummælum, sem annar maður viðhefur almennt eða í stjórnmálaumræðum, eða jafnvel að það yrði bundið við Alþ. eitt. Allir þekkja í meginatriðum ákvæði meiðyrðalöggjafarinnar og hversu ströng þau eru. Með tilliti til þess, hve ströng þau eru, er það í raun og veru furðulegt, að ekki skuli vera í íslenzkum refsilögum nein ákvæði, sem hægt væri að beita til refsingar, ef skýrt er beinlínis — og e. t. v. vísvitandi — rangt frá staðreyndum, t. d. ummælum manns algerlega snúið við. En mér er sagt svo, að eins og ákvæði gildandi laga séu, þá sé það ekki talið refsivert, ef ekki verði talið um meiðyrði að ræða. Ég hef oft hugleitt, með hvaða hætti væri hægt að koma slíkum ákvæðum inn í refsilög, og játa fullkomlega, að það mundi verða miklum erfiðleikum bundið. Þeir, sem ég hef leitað til um þetta, hafa ekki getað bent mér á leið, sem væri fullnægjandi og næði markmiði sínu. En því vildi ég skjóta fram í þessu sambandi til hæstv. dómsmrh., því að mér virtist það af ræðu hans áðan, að hann gerði sér fyllilega grein fyrir nauðsyninni á því, að eitthvað verði hafizt handa í þessum efnum. og skaðsemi þess, að það skuli geta komið fyrir og látið óátalið, að rangur fréttaflutningur, t. d. héðan af löggjafarsamkomunni, eigi sér stað, hvort hann vildi ekki hugleiða eða láta athuga, hvort ekki væri ástæða til þess að breyta refsilögunum með einhverjum hætti í þá átt, að rangur fréttaflutningur af stjórnmálaumræðum, jafnvel þótt bundið yrði við Alþ., yrði með einhverjum hætti látinn varða við lög. Eins og ég sagði áðan, hlýtur einmitt þetta, að tryggja sannar og réttar frásagnir, heiðarlegar frásagnir af stjórnmálaumræðum, að teljast til þeirra ráðstafana, sem getur ekki verið um deilt að eru nauðsynlegar til að vernda lýðræðið í landinu.