22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2512)

161. mál, okur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá liða að segja hér nokkur orð í tilefni af þeirri mjög svo athyglisverðu ræðu, sem hæstv. dómsmrh. hélt hér áðan.

Ég vil fagna því, að þetta mál, sem hér hefur verið til umræðu og er raunverulega ástæðan fyrir þeirri till., sem hér er til umr., þ. e. fjárþrotamál verzlunarinnar Ragnars Blöndals h/f, virðist nú vera komið á það stig, og ég vil mega treysta því, að þau ummæli hæstv. dómsmrh. séu rétt, að málið sé komið á það stig, að það verði nú rannsakað allt ofan í kjölinn.

Hins vegar vil ég líka vekja athygli á því, að ég er ekki alls kostar ánægður með ummæli hæstv. dómsmrh. og íslenzkt réttarfar þar með, að því leyti, að þetta mál, eins og það virðist nú liggja fyrir, hefði að öllum líkindum ekki verið rannsakað, ekki farið fyrir dómstóla, ef sú tilviljun, ég vil orða það svo, hefði ekki ráðið, að hv. þm. Str. (HermJ) sá sig tilneyddan eða taldi ástæðu til að óska rannsóknar fyrir sína hönd út af ummælum, sem um hann voru höfð persónulega.

Hæstv. dómsmrh. las hér upp útskrift úr réttarhöldum áðan í sambandi við þetta mál. Þar er því lýst, að þetta fyrirtæki hafi látið endurskoðanda eða endurskoðunarfirma færa bókhald sitt, til að gefa sér aukið traust væntanlega, til að láta svo líta út í augum lánsstofnana m. a., að þetta væri traust og öruggt fyrirtæki, sem hefði sitt bókhald hjá endurskoðanda. En við réttarrannsóknina kemur í ljós, að endurskoðunarfirmað og endurskoðandinn fær ekki í hendur öll gögn fyrirtækisins. Bókhaldið er þar með falsað og það á mjög alvarlegan hátt. Jafnvel þetta atriði, þó að við sleppum öllu okri, er eitt svo alvarlegt og svo geigvænlegt að hugsa sér það, að fyrirtæki, sem þannig hagaði sér, gat sloppið við réttarrannsókn, þó að það væri komið í fjárþrot, að ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því. Ég furða mig á því, að íslenzku réttarfari skuli svo háttað, að þannig hlutir geti átt sér stað, án þess að kært sé yfir. Ég skal taka það fram, að ég er ekki löglærður maður, og þess vegna vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. í sambandi við þetta mál, hvort það sé alveg áreiðanlega rétt, ef tilefni hefði ekki komið frá hv. þm. Str. og ósk um að rannsaka þetta mál eða hans aðild að því, að dómsvaldinu hafi verið ókleift að hefja þessa rannsókn.

Hæstv. dómsmrh. las hér upp 1. gr. gjaldþrotalaganna, þar sem svo er ákveðið, að sé fyrirtæki gjaldþrota, geti ekki staðið við sínar skuldbindingar, greitt skuldir sínar, þá skuli því skylt að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. Nú lá það fyrir alveg ótvírætt og sannanlega, að þetta fyrirtæki var gjaldþrota, eins og hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) orðaði það. Það var gjaldþrota. Vörubirgðir þess höfðu verið seldar. Það var hætt starfseminni, og það lá augljóslega fyrir, a. m. k. ómótmælt. Því var haldið fram opinberlega, og því hafði ekki verið mótmælt af viðkomandi aðilum, að þeir hefðu gefið eftir svo og svo mikið af skuldum sínum, þannig að það átti að vera ljóst, að fyrirtækið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, ekki greitt skuldir sínar. Fyrirtækið var sem sagt gjaldþrota. Það vissu allir. En samt sem áður taka einstakir aðilar sig saman um það að koma málinu þannig fyrir, að fyrirtækið gefi sig ekki sjálft upp til gjaldþrotaskipta. Þeir sætta sig við að gefa eftir án þess að kæra út af málinu eða óska eftir rannsókn.

Eina atriðið, sem eftir er í þessu máli, er það, að forstjóri eða framkvæmdarstjóri fyrirtækisins eða stjórn fyrirtækisins gangi fram fyrir skjöldu, fari til dómsmálastjórnarinnar og óski eftir gjaldþrotarannsókn, — gefi sig upp sem gjaldþrotabú. Það er eina atriðið, sem eftir er. Öll önnur atriði varðandi málið eru ljós. Allt annað er staðreyndir. Það á ekki fyrir skuldum. „Lagerinn“ er seldur og húsnæðið leigt. Fyrirtækið hættir störfum. Var þetta ekki nægilegt tilefni fyrir dómsmálastjórnina til að hefjast handa, til að hefja rannsókn? Þurfti að bíða eftir því, jafnvel í lítilli von, að einhver aðili kærði út af einhverju atriði, sem svo gat dregið rannsóknina áfram út í það að verða allsherjarrannsókn? Var það nauðsynlegt? Og sýna ekki öll atriði, m. a. sá réttarútdráttur, sem hér var lesinn upp, að það hefði verið þessu þjóðfélagi algerlega nauðsynlegt til þess að komast fyrir þá spillingu, sem hér er á almannavitorði, að rannsókn hefði verið látin fara fram í þessu máli? Er það ekki nauðsynlegt, t. d. fyrir bankana, að fá það staðfest með rannsókn, að fyrirtæki geti látið löggiltar endurskoðunarskrifstofur, löggilta endurskoðendur, færa bókhald sitt árum saman, en bókhaldið er algerlega rangt, upplýsingarnar, sem lánsstofnanirnar fá frá löggiltum endurskoðanda, eru algerlega einskis virði? Og er það ekki skylda réttvísinnar, þegar fyrir liggur jafnhávær orðrómur og jafnmiklar sannanir og hér lágu fyrir í þessu máli, að hefja rannsókn? Og ég vil enn spyrja: Hefur ekki hæstv. dómsmrh. látið hefja rannsóknir í hliðstæðum málum, ekki sams konar, en sambærilegu máli, án þess að bein kæra lægi fyrir? Í þessu máli hér var fyrst og fremst um að ræða og fyrst og fremst rætt um okurlánastarfsemi. Síðan hefur komið í ljós ýmislegt annað, t. d. þetta, sem ég var að tala um bókhaldið, en það, sem fyrst og fremst var rætt um, var okurlánastarfsemin. Þessi okurlánastarfsemi er ólögleg í okkar þjóðfélagi og bönnuð samkvæmt lögum, það vitum við. En það er hliðstætt eða sambærilegt mál hér og hefur verið mörg ár á döfinni, kannske allt frá landnámstíð, eins og hæstv. dómsmrh. sagði um okrið; það er svokölluð sprúttsala. Þar hefur hæstv. dómsmrh. eða dómsmálastjórnin látið fara fram rannsóknir hjá einstökum mönnum, án þess að kæra væri lögð fram á þessa menn. Það hafa meira að segja farið fram rannsóknir hjá bílstjórum, það hefur verið skoðað í þeirra bila, án þess að nokkuð sannaðist á þá og þó að þeir væru sárasaklausir, og þetta var gert vegna þess, að almannarómurinn sagði og vissi, að þarna var um lögbrot að ræða. Þessa aðferð hefur enginn mér vitanlega átalið; að svona var gengið í þessi mál, að svona voru þau rannsökuð, þó að engin bein kæra lægi fyrir, hefur enginn maður átalið, mér vitanlega, heldur talið þetta sjálfsagða og nauðsynlega ráðstöfun af hendi dómsmálastjórnarinnar. Og mér sýnist, að þegar orðrómurinn um okurlánastarfsemina og jafnvel allveigamiklar röksemdir og sannanir hníga að því, að hún á sér stað, dómsmálaráðherrann meira að segja veit um það, eins og hann lýsti hér yfir, þá hljóti að vera sams konar ástæða til að rannsaka þau mál á sama hátt og sprúttsalan hefur verið rannsökuð og reynt að uppræta hana að undanförnu. Nú vil ég taka það enn fram, að ég er ekki löglærður, veit ekki, hvort þetta er fullkomlega rétt. Þetta lítur svona út frá mínu sjónarmiði. En ég vil beina þessum orðum, sem ég hef hér sagt, sem fsp. til hæstv. dómsmrh. Mér sýnist þetta mál vera svo alvarlegt og þessi mál, að það megi ekki láta tilviljun ráða, hvort einhver maður er svo hörundssár, eins og hv. þm. Str. virtist í þessu tilfelli vera, að hann gat ekki þolað þau ummæli, sem Jónas Jónsson hafði um hann, og óskaði eftir rannsókn það megi ekki láta slíkt ráða því, hvort þetta ástand í þessum málum og sú spilling, sem hér um ræðir, verður rannsökuð eða rannsökuð ekki.