22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2513)

161. mál, okur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt, að sú fyrirspurn sé borin fram, sem hv. síðasti ræðumaður bar fram, og vitanlega hlýt ég að hafa spurt sjálfan mig að því oft og mörgum sinnum þær vikur, sem þetta mál hefur staðið yfir, hvort rétt væri af mér að hefja rannsókn. Og ég hygg, að það hafi komið glögglega fram í minni ræðu, að ég sem sagt hafði hug á því að gera rannsókn, jafnskjótt sem ég taldi mér það fært samkv. þeim reglum, sem um sams konar mál er fylgt.

Það er alveg hiklaust, og við skulum ekki vera í neinum vafa um það, að ég hefði hvenær sem var haft heimild til þess að fyrirskipa rannsókn út af þessu máli. Það er alveg sambærilegt við annað dæmi, við skulum segja, — ja, ég hef hv. 2. þm. Reykv. fyrir augunum. Ég hef stundum séð það í blöðum, að þegar menn eru að líta í skattskrár, — ég er ekkert að færa að honum, — en ég hef séð það í blöðum, að hv. þm. þætti hafa ótrúlega litla skatta, miðað við ýmis atvik. Ég hefði auðvitað fullkomið leyfi til þess að fyrirskipa rannsókn á hv. þingmann samkvæmt þessu, en hætt er við, að það þætti misbeiting, ef slíkt væri gert, án þess að meira kæmi til. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt neitt ljótt af þeirri tegund um hv. síðasta ræðumann, svo að ég hef ekki haft ástæðu til þess að hugleiða það, hvort ég ætti að fyrirskipa á hann opinbera rannsókn, þó að ég sé ekkert sérstaklega ánægður með hans stjórnmálaskoðanir. Dómsmálastjórnin eða sá, sem með hana fer, verður hverju sinni að hugleiða vandlega, hvernig hún á að beita valdi sínu. Mér dettur ekki í hug að halda öðru fram en að þar geti ýmsar mismunandi skoðanir komið fram. Ég tel, að miðað við þau fordæmi, sem fyrir hendi eru, og miðað við öll atvik, hafi málið ekki verið komið á það stig, að ég hefði réttmæta ástæðu til þess að hefjast þar handa, enda vil ég vekja athygli á því, að það eru ekki ýkja margir dagar síðan þetta mál var rætt hér í d. áður, og þá talaði enginn svo hreint út um þetta mál, að hann ásakaði mig eða gæfi neitt í skyn um það, að ég hefði vanrækt að höfða réttarrannsókn á þetta tiltekna fyrirtæki. Og hvað sem um mína hv. andstæðinga verður sagt að öðru leyti, viðurkenna þeir þó væntanlega, að þeir eru ekki feimnir við að skamma mig, þegar þeim þykir tilefni til.

Í rökfærslu hv. þm. áðan er sú veila, — ég bara bendi honum á það, — að eins og sakir standa, er þetta fyrirtæki, Ragnar Blöndal h/f, sjálfsagt ekki fjárþrota, hvað þá að það sé gjaldþrota. Það er ekki fjárþrota, vegna þess að með atbeina bankanna hefur verið samið við alla skuldheimtumenn um að gefa eftir, þannig að þetta fyrirtæki er sjálfsagt síður en svo fjárþrota núna. Það er ekki einn einasti skuldheimtumaður, sem hefur hreyft sig með neina kröfu á fyrirtækið, heldur hafa þeir allir komið sér saman um að gefa því upp sínar kröfur eða slá af þeim. Við sjáum í frásögn Hilmars Stefánssonar, að hann segir, að Búnaðarbankinn hafi engu tapað. Ég hef heyrt sagt, að Útvegsbankinn hafi heldur engu tapað, en ef það er rétt, að þeir hafi hvorugur tapað neinu, þá hafa flestir aðrir orðið að slá af því hærri fjárhæðum. Og ég vek athygli á því, að enginn, ekki einn einasti maður af öllum þeim fjölda, sem þarna á hlut að máli, fer í mál til innheimtu á kröfu, hvað þá heldur meira, þannið að fyrir dómsmálastjórninni liggur það alls ekki, að þetta fyrirtæki hafi nokkru sinni lent í greiðsluþroti, hvað þá að það liggi nokkuð annað en orðrómur fyrir um það, hverjar séu ástæðurnar fyrir fjárhagsvandræðunum, sem fyrirtækið lenti í.

Og án þess að ég ásaki bankana eða vilji nokkuð meta þeirra gerðir í þessu, — það liggur ekki fyrir enn þá, okkur skortir gögn til þess, — þá tel ég, að fyrir þeim hljóti sú spurning að hafa vaknað: Ber okkur ekki meiri skylda til þess í þessu tilfelli að láta kanna, með hverjum hætti þetta fjárþrot er orðið til, heldur en að bjarga okkar fé? — Þeir töldu það síðara vera mikilvægara, segjast hafa bjargað öllu sínu fé, og með því móti gerðu þeir að verkum, að fyrirtækið varð ekki gjaldþrota og ekki einu sinni fjárþrota, því að nú er búið að semja um allar skuldirnar. Það getur vel verið, að fyrirtækið rísi upp sem fuglinn Fönix einhvern daginn aftur, endurnærður og fagur og í fullri velgengni; það er mér alveg ókunnugt um.

Við vitum, að bankaráð bankanna eru ýmist kosin á Alþingi, af nefndum Alþingis eða skipuð af ríkisstjórn að verulegu leyti. Bankastjórarnir eru ýmist kosnir af þessum þing- eða stjórnkjörnu bankaráðum eða skipaðir af sjálfri ríkisstjórninni. Ef allir þessir aðilar eru búnir að meðhöndla mál og svo fjarri fer því, að þeir sjái ástæðu til að kæra, að þeir þvert á móti veita löng ný lán til þess að koma í veg fyrir, að fyrirtækið verði fjárþrota, er þá ástæða til þess fyrir dómsmálastjórnina á því stigi og meðan ekkert liggur annað fyrir, að hefjast handa? Ég er ósköp hræddur um, að ég hefði þá legið undir þeirri ásökun, að ég væri með ofsóknir á hendur mönnum, sem mér af einhverjum ástæðum væri lítið gefið um.

Ég veit ekki, hvort ég er allra manna hræddastur við gagnrýni, en eins og ég segi, ég hef ekki önnur ráð en að fara eftir því, sem ég tel rétt vera og í samræmi við réttarvenjur, sem liggja fyrir í því ráðuneyti, sem mér hefur verið falið að stjórna.

Ég gat um það í ræðu minni, að kæra hv. þm. Str. hefði orðið lykillinn til þess að opna þær dyr, sem áður var búið að loka. Ég gat þess einnig, að ég hefði gert ráð fyrir, að eitthvað annað mundi koma upp á, ef ekki þetta. Ef þessi orðrómur var sannur, þá var sem sagt nær óhugsandi, að ekki bæri eitthvað að, sem gæfi ástæðu til þess, fyllilega, venjulega og lögmæta ástæðu til þess, að dómsmálastjórnin hæfist handa um þetta mál. Og ég sé og það einungis af tilviljun í þeirri réttarútskrift, sem ég las upp áðan, að hinn löggilti endurskoðandi er búinn að afhenda skattstofunni þau plögg, sem hann hefur, eða a. m. k. eitthvað af þeim: Með því móti var enn einn opinber aðili kominn inn í málið, og ég efast ekki um, að ef skattstofan hefði fundið þarna veruleg lögbrot, þá hefði hún tilkynnt dómsmálastjórninni það atriði. Það er sem betur fer svo með lögbrotin, þó að þau komist ekki öll upp, að segja má, að þó að náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir. Ef um jafnstórfenglegt misferli er að ræða og hér er sagt að sé, — ég legg áherzlu á: eins og hér er sagt að sé, þá hlýtur það auðvitað að koma í ljós áður en mjög langt um líður.

Í öllu þessu tali skulum við líka minnast þess gamla, að betra sé, að 99 sekir sleppi, en einn saklaus sé dæmdur. Við skulum líka minnast þess, að það er vandfarið með það vopn eða það vald, sem dómsmálastjórnin hefur, og það verður að gæta þess með varúð að grípa ekki eða ráðast ekki á saklausa menn eða á þá, sem ekki eru nægar sakir sannaðar á, þannig að hægt sé að dæma um, hvort þeir séu saklausir eða ekki. En allt eru þetta matsatriði, og með eðlilegum hætti hlýtur það mjög að fara eftir trausti á dómsmálastjórn hverju sinni, hvernig því mikla og viðkvæma valdi er beitt, sem henni er fengið. Í þessu tilfelli hygg ég þó, að hún verði ekki höfð fyrir ámæli, vegna þess að ég hef verið þess hvetjandi, m. a. með vitneskju um þetta mál, að sú tillaga yrði samþykkt, sem hér liggur fyrir. Það er bezt að rasa ekki um ráð fram í neinu máli, og þeir seku verða dregnir til dóms, ef sakir sannast á þá, ef þeir hafa gerzt svo sekir sem menn grunar að hér sé um að ræða. En við skulum einnig minnast þess, sem hv. 2. þm. Reykv. réttilega hefur lagt á ríka áherzlu hvað eftir annað, að þessi brot er sérstaklega erfitt að sanna og sérstaklega erfitt að ná tangarhaldi á þeim, sem gerast sekir um þau, og þess vegna engan veginn óeðlilegt, að til sérstakra ráðstafana sé gripið, eins og skipunar slíkrar þingnefndar sem hér er um að ræða, einmitt í því sambandi. Og hv. 2. þm. Reykv. mælti þannig fyrir þeirri tillögu í fyrstu, að það var ekki nein ásökun á dómsmálastjórnina fyrir það, að hún hefði látið neitt undir höfuð leggjast í þessum efnum, heldur var það einmitt eðli brotanna, sem hann gerði grein fyrir og taldi gefa ástæðu til þess, að sérstaklega væri að farið í þessum efnum.

Mér finnst sem sagt mestu máli skipta fyrir þá, sem eru ánægðir með, að þetta mál er ekki læst inni eða lokað, heldur verður nú réttvísinnar loft látið leika um það og skyggnzt þar í hirzlur, eftir því sem efni standa til, að nú er möguleiki til þess að gera það, og ég fyrir mitt leyti tel ekki neina ástæðu til þess að ásaka réttvísina um það, að hún hafi verið of svifasein í þeim efnum.

Varðandi það, sem hv. 1. landsk. þm. sagði um blaðamennskuna, þá get ég, eins og hann tók undir það, sem ég sagði, verið honum sammála í þessu sem hann mælti. Það kemur auðvitað mjög til athugunar í sambandi við endurskoðun hegningarlaganna að íhuga betur ákvæði um fréttaflutning, t. d. frá Alþingi. En það er önnur till., sem ég vil bera fram, og hún er sú, að þingflokkarnir taki allir höndum saman um að koma á betri skipan í þessum efnum en verið hefur. Við erum ekki sammála um allt of marga hluti. En allir þeir, sem trúa á eigin málstað og eigin rök, ættu að geta orðið sammála um að koma að minnsta kosti í veg fyrir, að beinlínis væri ranghermt, jafnvel þó að menn létu kyrrt liggja það, sem andstæðingarnir segðu. Og ég vil nú, án þess að ég hafi borið mig saman við minn flokk um það, sem form. þingflokks Sjálfstfl. spyrja formenn hinna þingflokkanna um það, hvort þeir vildu taka upp slíka samvinnu og reyna að koma sér saman um betri starfshætti í þessu en fram að þessu hafa verið við hafðir, og undantek ég þar enga.