15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til 2. umr., var lagt fyrir þessa hv. d. í upphafi þings, og það hefur þess vegna tekið rúma tvo mánuði eða tvo og hálfan mánuð að þoka málinu þetta áleiðis. Þær breytingar, sem hv. sjútvn. gerir á frv. ríkisstj., eru hins vegar ekki mjög veigamiklar. Það er sú aðalbreyting þar, að 2000 kr. styrkurinn, sem settur var á með bráðabirgðalögum á miðju þessu ári, er framlengdur til ársloka 1955, og síðan er tekið upp eitt atriði úr till. milliþn., sem sjútvn. fékk til athugunar, en n. virðist ekki hafa séð sér fært að taka upp úr þeim fleiri till. en þá, sem hér er nefnd og fer í þá átt að fresta stofnlánagreiðslum togaraeigenda um tvö ár. Till. milliþn. voru hins vegar allmiklu fleiri, eins og lýst var hér við 1. umr. þessa máls, og skal ég ekki fara frekar út í að telja þær upp. En ég er þeirrar skoðunar, að meðal þeirra till. séu ýmis atriði það þýðingarmikil, að það hefði vissulega verið athugavert fyrir n., hvort hún hefði ekki getað tekið upp einhverjar fleiri af þeim till.

Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, sem hér talaði, hv. 11. landsk. þm., um það, að þessar till., sem hv. sjútvn. gerir, koma hvergi nærri að fullu gagni. Þær nægja ekki til þess að rekstrarjöfnuður fáist á reikningum togaranna. En ég vil leyfa mér að skoða þær till., sem hér eru bornar fram, sem byrjunaraðgerðir í málinu og að það muni fleira á eftir koma. Það eru sumar af þeim till., sem milliþn. hafði til meðferðar á sínum tíma í sumar, þannig vaxnar, að þeim kannske verður hrundið í framkvæmd án lagasetningar, með því að ríkisstj. beiti sér fyrir vissum aðgerðum, ef hún þá gerir það, og mætti e.t.v. segja, að árangurinn yrði ekki lakari fyrir því, þó að lagasetningarformið væri ekki notað, heldur áhrifum ríkisstj. beitt til þess að koma málinn fram á annan hátt. Og ég leyfi mér að skilja þær till., sem hér eru uppi, á þann veg, að þær séu byrjun á öðrum og meiri aðgerðum, bæði kannske lagalegum og framkvæmdum á annan hátt, sem hæstv. ríkisstj. hafi þá í huga að gera í framhaldi af því, sem hér er borið fram.

Um afkomu togaranna almennt skal ég ekki fara að ræða aftur nú. Ég gerði það við 1. umr. þessa máls, og þeir, sem talað hafa hér á undan mér, hafa vikið nokkuð að því, svo að það er engin ástæða til þess. En ég vil þó aðeins nefna, að ettir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta mál, þá virðist svo sem sú rekstrarafkoma, meðaltals rekstrarafkoma, sem mþn. komst að að væri fyrir hendi þegar hún starfaði, fyrir árið 1953, hafi enn versnað á árinu 1954. Við gerðum í n. lauslega athugun á afkomu nokkurra skipa, örfárra, mig minnir rúmlega 10 skipa, á þeim tíma ársins, sem liðinn var þegar n. starfaði, og komumst að þeirri niðurstöðu þá, að afkoman fyrir þetta tímabil væri sýnu lakari en hún hefði verið á árinu 1953. Við þetta bætist svo sem kunnugt er sú hækkun, sem orðið hefur á launakjörum þeirra manna, sem vinna á skipunum, sem er lágt metin á 300 þús. kr. og sennilega nær, þó frekar hátt, á 400 þús. kr., þegar öll kurl eru þar komin til grafar. Þetta er náttúrlega enn ein ástæðan til þess, að hraða verður þeim aðgerðum, sem gerðar verða til þess að koma hlutunum aftur á réttan grundvöll.

Ég er alveg sammála því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði í lok sinnar ræðu áðan, að ekki væri óeðlilegt, að það væri tekið eitthvað til athugunar það kerfi, sem byggist á því að borga fyrir sömu vöruna 85 aura til togaranna, en kr. 1.35– 1.40 til bátanna.

Ég flutti á sínum tíma till. til þál. á þskj. 35 um nokkra aðstoð við togaraútgerðina. Ég sé, að hv. sjútvn. hefur tekið upp eitt af þeim atriðum, sem þar er minnzt á, og ég er henni út af fyrir sig þakklátur fyrir það, þ.e.a.s. frestun á afborganagreiðslum af stofnlánum togaranna. 4. till. á því þskj,., sem ég flutti, snertir vissan flokk togaraútgerðarinnar, sem mér virðist hafa orðið harðara úti en aðrir venjulegir togarar. Þegar við erum hér að tala um afkomu togaranna, þá er venjulegast átt við þá togara, sem fyrstir komu hingað til landsins að styrjöldinni lokinni, 33 að tölu, sem þá voru fengnir, og afkoma togaraflotans er þá jafnan miðuð við þá. Hins vegar voru síðar fengnir hingað 10 togarar, sem urðu mjög miklu dýrari en þeir fyrri, og það hefur af þeim sökum gengið miklu verr að láta endana ná saman hjá þeim heldur en þeim eldri, vegna þess að vaxtabyrðin hefur þar verið þyngri, vátrygging hærri og ýmis önnur útgjöld, sem hafa komið til, eru þyngri í skauti útgerðarmanni þeirra togara heldur en hinna eldri. Þar við bætist svo, að sú tekjutind, sem átti að vega á móti þessum auknu útgjöldum, fiskimjölsvinnslan um borð í skipunum, hefur gersamlega brugðizt og það svo, að teknar hafa verið, eftir því sem ég bezt veit, flestar eða allar fiskimjölsverksmiðjurnar í land úr togurunum og hætt að nota þær. Ég leyfði mér þess vegna að flytja sem síðustu till. í þessari þáltill. minni í haust sérstaka till. um það, að reynt yrði að greiða götu þeirra manna, sem þannig hafa orðið harðar úti en nokkrir aðrir, þeir sem togararekstur hafa stundað, og lagði þá til, að ríkisstj. yrði heimilað að lækka eitthvað söluverð þessara skipa með hliðsjón af því, að fiskimjölsvélarnar hefðu brugðizt, og yrði þá verð þeirra og ýmis annar kostnaður, sem við þær var bundinn, lagður þar til grundvallar. Á hvern hátt þetta yrði gert, skal ég ekki segja, en vísast yrði það að vera á þann veg, að þetta yrði að koma sem hreint framlag ríkissjóðs.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að svo stöddu. Ég er samþykkur þeim till., sem hér hafa verið lagðar fram, bæði frá sjútvn. og eins frá hv. 11. landsk. En mig langaði í sambandi við þetta eina atriði, sem ég minntist á nú síðast, afkomu nýjustu togaranna, til þess að leggja hér fram skriflega brtt., sem mjög svipar til þeirrar till. nr. 4, sem fólst í till. mínum á þskj. 35. Brtt. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 5. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Ríkisstj. er heimilt að lækka söluverð nýjustu togaranna með hliðsjón af því, að ekki hefur tekizt að nota fiskimjölsvélar þeirra.“

Eins og ég segi, skil ég það svo, að ef aðeins verða samþ. í þessu máli till. sjútvn. eða svipaðar eða lítið eitt auknar aðeins, þá þýðir það það, að hæstv. ríkisstj. telji þetta aðeins sem byrjun á aðgerðum í málinu, því að mér er ljóst, að þær einar duga ekki til þess að halda togaraflotanum gangandi, þótt útgerðarmenn séu þar allir af vilja gerðir.

Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari skriflegu breytingartillögu.