23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2529)

85. mál, verkafólksskortur í sveitum

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Fyrir 40–50 árum lifði 60–70% af íslenzku þjóðinni í sveitum landsins. Þetta hefur stöðugt verið að breytast og það miklu meira en flestir gera sér grein fyrir. Fólk og fjármagn hefur streymt úr sveitahéruðum landsins til bæjanna, nokkuð til þeirra smærri, en einkum hinna stærri og mest til Reykjavíkur. Orsakirnar eru margar, en ein hin stærsta er síaukin þægindi og stórkostlegar framkvæmdir í þéttbýlinu. Nú er svo komið, að í sveitunum er ekki eftir nema um 22% af þjóðinni allri. Er þó eigi því að neita, að mikið hefur verið til þess gert, bæði af hálfu hins opinbera og á annan hátt, að gera lífið í sveitunum þægilegra og betra en áður var. En þetta hrekkur eigi til, því að aðdráttarafl fjölmennisins er svo sterkt, að fram að þessu hefur þar ekkert dugað gegn. Það öfugstreymi hefur verið, er og verður báðum aðilum til tjóns. Því færra fólk sem í sveitunum er eftir, því meiri örðugleikar, því meiri áhætta fyrir þá, sem eftir eru. En því fleira fólk sem safnast fyrir í einstökum bæjum, því meiri vafi er á því, að sú atvinna, sem þar er að hafa, endist til að nægja öllum, og því meiri vandkvæði á því, að allir geti fengið húsnæði, sem viðunandi sé. Þetta er alkunn saga, og hún sýnir og sannar, að fjöldi þess fólks, sem til bæjanna flyzt, hefur enga fyrirhyggju um það að eiga vísa atvinnu og húsnæði, sem þó ætti að vera lágmarksskilyrði.

Nokkrir hv. alþm. tala um það og skrifa, að auka þurfi jafnvægi í byggð landsins, og er það hverju orði sannara. En þó fer ójöfnuðurinn að þessu leyti næstum árlega vaxandi og kannske aldrei meir en á yfirstandandi ári. Þetta gildir annars vegar um sveitirnar, einkum vestanlands, norðan og austan, hins vegar alla hina stærri bæi sunnanlands, þar sem fólkinu fjölgar stöðugt, þar sem það heimtar síaukin þægindi, hærri laun, styttri vinnutíma, fleiri frídaga, meiri skemmtanir og síðast en ekki sízt meiri og stærri byggingar. Enginn atvinnurekstur úti á landsbyggðinni getur eins og vera þyrfti staðizt samkeppnina á þessum vettvangi. Því hlýtur illa að fara, og það er illa farið.

Um nokkurra ára skeið hefur að vorinu til verið haldið uppi ráðningarstofu til að annast milligöngu um fólksráðningar til bænda. Þetta hefur um mörg ár gert mikið gagn, en á þessu ári brá svo við, að svo að segja ekkert annað fólk fékkst en krakkar innan fermingar, og þó má segja, að nú í haust hafi tekið steininn úr að þessu leyti, því að í mörgum sveitum mun það vera einsdæmi, að svo mörg sveitaheimili séu blátt áfram í háska stödd vegna fólksleysis eins og nú er. Að sumrinu til takmarkar geta heimafólksins eðlilega, hve mikils er hægt að afla af heyjum. Oftast stendur þó heyskapurinn lengur en hollt er og ætti að vera, og víða hafa nú orðið hey úti, af því að fólk vantaði til að nota hina fáu góðviðrisdaga svo sem nauðsynlegt er. En þó að þetta séu ískyggilegar staðreyndir, þá eru þó aðrar verri, og það er aðstaðan, þegar veturinn gengur í garð. Víða er bóndinn einn til að annast alla búpeningshirðingu, óhjákvæmileg ferðalög og annað, sem hverju heimili er nauðsynlegt. Ef sá eini maður fatlast frá vegna veikinda, er neyðarástand fyrir hendi. En þó að þetta sé þekkt víða, er þó annað enn verra til, og það er, að húsfreyjan hefur enga hjálp innanhúss. Það getur sums staðar gengið og gengur stundum allsæmilega, en þegar þessi einmana húsfreyja er slitin að kröftum eftir erfitt ævistarf eða er í þeirri aðstöðu að hafa mörgum ungum börnum að sinna, er ástandið þvílíkt, að allir vitibornir menn ættu að skilja það, að slíkt er ekki á nokkurn hátt viðunandi. En fólkinu er boðin slík aðstaða nú, að sveitaheimili verða útundan, jafnvel hvað sem í boði er. Gildir þetta enn frekar um kvenfólk en karlmenn, þó að um þá sé nú miklu verra en áður.

Ég og hv. 2. þm. Skagf., sem flytjum þá till., sem liggur fyrir á þskj. 124, höfum oft áður séð, að hverju fór. En af því að ástandið er nú miklu verra en verið hefur, hefur okkur eigi þótt fært að þegja hér á hv. Alþ. um þann mikla vanda, sem fyrir hendi er á þessu sviði. Við viljum láta það liggja fyrir opinberlega, að við heimtum aðgerðir. Okkur blöskrar, þegar samhliða því ástandi, sem ég hef lýst, er sí og æ verið að tala um atvinnuleysi og ráðstafanir, er gera þurfi til að varna því. Raunar eru til einstök dæmi um það, að menn, sem ekki geta farið burt úr sínu heimakauptúni, hafa þar eigi atvinnu um háveturinn. En hitt er miklu alvarlegra, að fólkið fæst ekki til vinnu, þar sem þess er mest þörf. Það er mál, sem vert er að taka til athugunar á annan veg en gert hefur verið. Þegar svo stendur, að einn aðalatvinnuveg landsins skortir vinnuafl eins tilfinnanlega og landbúnaðinn nú, en menn eru samtímis að tala um atvinnuleysi á vissum stöðum, þá er augljóst verkefni fyrir stjórnarvöldin að gera ráðstafanir til úrbóta. Þó að einhverjar fjárhæðir verði að taka úr ríkissjóði í því sambandi, væri því fé betur varið en í sumt af því, sem fé er látið í nú. Það er of dýrt að láta merkustu stétt landsins vera í háska, og það er meira að segja dýrt hvert sveitaheimili, sem í eyði fer. Er ekki alveg víst, að framvegis gangi vel að hafa atvinnu fyrir alla í þéttbýlinu, þó að nóg sé að gera og víða meira en svo, á meðan fjármagninu er beint í það að byggja yfir alla þá hópa, sem flýja utan úr strjálbyggðinni og jafnvel úr bæjum og kauptúnum þeirra landshluta, sem fjærstir eru höfuðborginni.

Fari nú svo, að ekki finnist ráð til að hagnýta betur en er íslenzkt vinnuafl, þá er sú leið eigi lokuð að fá fólk frá öðrum löndum. Útgerðarmenn hafa reynt það á þessu ári og mörgum gefizt vel, jafnvel þó að hindranir, heldur óeðlilegar, hafi verið lagðar á þann veg. En fyrst þetta hefur gefizt vel, hví skyldi þá eigi mega reyna að bjarga bændum á sama hátt? Sú tilraun, sem gerð var á árunum með þýzkar stúlkur, gafst að vísu misjafnlega. Sums staðar illa, en annars staðar vel. Það var eigi heldur leitað á heppilegasta stað, þar sem þýzkir bæir og borgir eru harla ólík því, sem gerist í íslenzkum sveitum. En ef hægt væri að fá verkafólk frá fremstu landbúnaðarþjóðum álfunnar, svo sem Norðurlandaþjóðunum eða Hollendingum, þá má ekki draga að gera viðeigandi ráðstafanir á því sviði.

Ég veit, að til bjargar í slíku stórmáli sem ég hef nefnt verður ekkert gert nema til þess sé lagt fé, svo að verulega muni um. Þess vegna legg ég til, að þessari till. verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. fjvn., það er sú nefnd Alþingis, sem um flest vandamál hefur að fjalla, og ég vil mega vona, að hún afgreiði þetta mál frá sér fljótt og vel.