05.04.1955
Sameinað þing: 50. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2534)

85. mál, verkafólksskortur í sveitum

Pétur Ottesen:

Ég vil við þetta tækifæri leiða athygli að því, að búnaðarþing, sem hér var háð fyrir nokkru, lét þetta mál til sín taka og gerði um það samþykktir, og fól búnaðarþingið stjórn Búnaðarfélags Íslands að koma á framfæri við ríkisstj. þeim ályktunum, sem það hafði gert í þessu máli og voru tengdar við það, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að útvega erlent fólk til starfa í landbúnaðinum. Það hafði verið, á meðan þingið sat, leitað nokkurra upplýsinga um það hjá bændum, hvaða óskir þeir hefðu fram að færa um fyrirgreiðslu Búnaðarfélagsins að því er snertir að afla erlends vinnuafls fyrir landbúnaðinn, og um það leyti sem búnaðarþingi lauk, höfðu Búnaðarfélaginu borizt óskir um, að það hefði fyrirgreiðslu um að afla milli 150 og 200 erlendra verkamanna, bæði karla og kvenna.

Það erlenda vinuafl, sem fengið hefur verið handa landbúnaðinum á undanförnum árum, hefur aðallega verið ráðið fyrir milligöngu Búnaðarfélags Íslands, en þá milligöngu hefur einn af ráðunautum félagsins haft á hendi, sem sé Gísli Kristjánsson, ritstjóri Freys. Hann hafði gefið upplýsingar um, að það væri nú orðið mjög erfitt að fá menn frá Danmörku til landbúnaðarstarfa hér, en þaðan hafa erlendir menn aðallega verið ráðnir til þessara starfa að undanförnu, og ef hér ætti að gera frekari ráðstafanir, þá mundi frekar verða að snúa sér til annarra landa í þessu efni, þar sem lítillar úrlausnar mætti vænta um þessa hluti frá Danmörku, eins og komið var, því að þar er einnig eins og hér skortur á verkafólki til sveitastarfa.

Það hafði verið leitað nokkurra upplýsinga um aðstæður í Þýzkalandi í þessu efni, sem gáfu nokkrar vonir um, að ef til vill mætti fá starfsfólk fyrir landbúnaðinn þaðan.

Í tilefni af meðferð búnaðarþings á þessu máli og ályktun þess skrifaði Búnaðarfélagsstjórnin strax að þingi loknu ríkisstj. um þetta mál, og var aðalinntakið úr því bréfi það, er ég vil nú lesa hér upp:

1) Að veitt verði landsvistarleyfi fyrir 150200 erlenda verkamenn, karla og konur, til landbúnaðarstarfa og að leyfið verði miðað við eins til tveggja ára dvöl í landinu.

2) Að greiddur verði úr ríkissjóði allur kostnaður við flutning fólksins til landsins og sömuleiðis kostnaður við sendiför eins manns eða tveggja, sem valdir yrðu til þess að ráða þetta fólk, enda samþykkti ráðuneytið val þess manns eða þeirra manna, ef um fleiri væri að ræða.

3) Að leyfð yrði yfirfærsla á allt að helmingi af kaupi þessa erlenda fólks.

Þetta bréf sendi Búnaðarfélagsstjórnin 11. marz til ríkisstj., og hefur það nú verið í meðförum hennar síðan, en stjórn Búnaðarfélagsins hins vegar ekki borizt enn sem komið er svar við þessu bréfi. Nú mun sú frestun, sem gerð var á þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir og flutt var af þeim hv. þm. A-Húnv. (J. Pálm) og hv. 2. þm. Skagf. (JS), hafa verið við það miðuð, að ef til vill mundu við framhald þessarar umræðu geta legið fyrir einhverjar upplýsingar frá ríkisstj. varðandi þetta mál. Ég veit nú ekki um það; það mundi vera landbrh., sem sennilega léti það frekast til sín taka. Hann er ekki, að ég held, mættur á þessum fundi, en þá mætti kannske vænta þess, að aðrir af hæstv. ráðherrum, sem hér eru mættir, gætu gefið um þetta nokkur svör, því að það er vitanlega mjög nauðsynlegt fyrir stjórn Búnaðarfélags Íslands að fá um það vitneskju, hvernig þessari málaleitun verður tekið, því að hún þarf auðvitað að geta gert þeim mönnum, sem beðið hafa Búnaðarfélagið að hafa fyrir sig milligöngu um útvegun þessa fólks, sem allra fyrst grein fyrir því, hvort sé að vænta nokkurs stuðnings að því er tekur til þeirra atriða, sem ég hef nú hér nefnt og beint hefur verið til hæstv. ríkisstjórnar.