23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (2544)

77. mál, tollgæsla og löggæsla

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. á þskj. 102, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að athuga, hvort ekki væri haganlegt og ávinningur til sparnaðar að sameina á ýmsum verzlunarstöðum tollgæzlu og almenna löggæzlu.“

Ég hef kynnzt því af eigin raun í mínu heimkynni, Húsavík, að þar hefur tollþjónn verið látinn dvelja nokkur s. l. sumur á fullum launum þann tíma án þess að hafa fullkomin viðfangsefni dag hvern, vegna þess að þar er ekki um vinnu við tollgæzlu að ræða, nema um það leyti sem skipakomur eru, en skipakomur eru þar ekki nema nokkra daga í mánuði hverjum. Ég segi alls ekki, að maður þessi hafi verið óþarfur, en ég fullyrði, að hann hefði getað annað miklu meiri verkefnum.

Nú hagar þannig til, að vantað hefur í Húsavík löggæzlu á þessum sama tíma, og á því er enginn vafi, að maður þessi hefði átt hægt með að sinna löggæzlustarfi um leið og tollgæzlunni, en til þess hefur hann ekki verið ráðinn og þess vegna ekki viljað skipta sér af þeim málum. Ég hef minnzt á þetta í stjórnarráðinu, en fengið þau svör hjá starfsmönnum þar, að tollgæzla heyrði undir fjármálaráðuneytið, en löggæzla undir dómsmálaráðuneytið, og hér sé því um tvo aðila að ræða, þ. e. útgerðirnar tvær, en ekki ein og hin sama. Mér finnst þetta engin veruleg afsökun, af því að svo stutt er á milli heimilanna og róið úr sömu vör, enda líka gert út fyrir sama sjóðinn. Mér finnst, að hér standi svipað á og ef samvinnu skorti milli vinstri og hægri handar. Ég sé ekki betur en að með þessu móti sé peningum eytt, án þess að þeir komi að því gagni, sem verða mætti annars.

Í l. nr. 50 frá 1940, um lögreglumenn, segir, að ráðherra sé heimilt að ákveða, að tollvörður inni af höndum störf lögreglumanns. Löggjafinn hefur þar sýnilega haft í huga, að þetta gæti stundum og sums staðar verið hagfellt. Lagaheimildina skortir þar af leiðandi ekki til sameiningarinnar. Nú hefði ég getað, þegar ég hafði athugað þetta, gengið í það að koma sameiningu tollgæzlu og almennrar löggæzlu á fyrir Húsavík. En ég tel það ekki nóg. Ég hygg, að sú sameining eigi miklu viðar við, og þess vegna flyt ég till.

Eftir upplýsingum, er ég hef aflað mér, gæti þessi sameining sennilega einnig átt við t. d. á Siglufirði, Raufarhöfn, Þórshöfn, Seyðisfirði og Höfn í Hornafirði. Á öllum þessum stöðum munu hafa verið hafðir sérstakir tollverðir, sem sennilega hefðu haft tíma til að veita aðstoð, meiri eða minni, við almenna löggæzlu. Vel má líka vera, að til séu staðir, þar sem lögreglumenn gætu bætt á sig tollgæzlunni. Um það get ég ekki dæmt. En engu spillir, þótt það sé athugað.

Ég sé ekki neina ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir, að rétt þyki að vísa till. til nefndar. Málið er í mínum augum aðallega fjárhagsmál, og þess vegna finnst mér rétt, að till. sé vísað til fjvn.