13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2547)

77. mál, tollgæsla og löggæsla

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flutti till. þessa um sameiningu tollgæzlu og löggæzlu allsnemma á þinginu. Fyrir mér vakti fyrst og fremst, að heppilegt væri til sparnaðar og til þess að hagnýta betur en nú er gert keyptan vinnukraft við tollgæzluna og hina almennu löggæzlu á ýmsum stöðum í landinu að láta sömu menn annast bæði þessi verkefni. Hafði ég þá sérstaklega í huga ýmsa hina smærri verzlunarstaði og nefndi dæmi til sönnunar því, að þar ætti þessi sameining við. En ekki var þó till. þannig orðuð, að hún væri bundin við takmarkað svæði eða tiltekna staði. Hæstv. dómsmrh. mælti með till. við fyrri hl. þessarar umr. og lýsti yfir, að hann teldi, að gera ætti hana ótvírætt víðtækari en hún bæri beinlínis með sér að hún ætti að vera, eins og hún var fram lögð.

Till. var vísað til fjvn. Nefndin sendi hana til umsagnar þeim tveim ráðuneytum, sem tollgæzlan og hin almenna löggæzla heyra undir. Bæði rn. lýstu yfir, að þau mæltu með því, að till. yrði samþ.

Dómsmrn. gerði ýtarlega grein fyrir meðmælum sínum og mjög í sömu átt og hæstv. dómsmrh. hafði mælt með við umr. Í bréfi rn. segir m. a.: „Svo sem kunnugt er, fara sömu embættismenn með stjórn almennrar löggæzlu og tollgæzlu alls staðar í landinu nema í Reykjavík, enda er tollgæzla einn þáttur í löggæzlu í víðari merkingu. Dómsmrn. er þeirrar skoðunar, að í fámenni slíku sem er hér á landi mundi ótvírætt bezt henta að sameina algerlega tollgæzluliðið hinu almenna löggæzluliði. Svo sem vikið er að í þáltill. og grg. hennar, felast í sameiningu þessara starfa möguleikar á betri hagnýtingu starfskrafta þeirra manna, sem að störfum þessum vinna. Þarf ekki frekari rökstuðning fyrir því, þar sem starfsmenn eru örfáir í hvorri starfsgrein og ef til vill aðeins í annarri þeirra, svo sem er á ýmsum stöðum utan Reykjavíkur. En einnig í Reykjavík mundu betri möguleikar á hagnýtingu starfskraftanna með sameiningu þessara starfa. Það er alkunna, að nokkurt vandamál er að hagræða verkaskiptingu svo, að vel henti um nýtingu starfskrafta löggæzlumanna, er þeir taka að reskjast. Mundu talsvert auknir möguleikar á hentugri verkaskiptingu að þessu leyti með sameiningu þessara starfsgreina. Þá geta og verið ýmsar aðrar ástæður til, að heppilegt sé að breyta til um störf manna í þessum greinum um lengri eða skemmri tíma. Þá hendir og oft, að starfsmaður, sem nú aðeins hefur valdssvið í annarri þessari grein, geti við störf á því gripið inn á hitt sviðið með fullkomnu embættisvaldi.“

Fjvn. öll er sammála um, eins og nál. á þskj. 543 ber með sér, að mæla með því, að till. verði samþ., en með tilliti til þeirra upplýsinga, sem dómsmrn. veitti, og þeirrar áherzlu, er það leggur á málið, taldi n. rétt að bæta við tillgr. einni málsgr. til frekari áherzlu. Hljóðar þá till. þannig samkvæmt till. fjvn., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort ekki væri haganlegt og ávinningur til sparnaðar að sameina tollgæzlu og almenna löggæzlu. — Leiði athugunin í ljós, að hagkvæmt sé að sameina þessi störf, skal ríkisstj. gera ráðstafanir til þess, að það verði gert alls staðar þar, sem það álízt vera til bóta.“

Er þá till. orðin sterkari fyrirmæli en hún áður var, og hef ég sem flm. síður en svo við það að athuga.

Tjái ég öllum, er til málsins hafa lagt fram að þessu, þakkir fyrir góðar undirtektir og leyfi mér að vænta þess, að till. verði samþ. þannig orðuð, sem fjvn. leggur til, og geti orðið til gagnsemdar í framkvæmd.