09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2557)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef einu sinni séð þetta fyrirtæki, niðursuðuverksmiðjuna í Ólafsfirði, og gekk þá úr skugga um það, að þetta fyrirtæki er hið myndarlegasta. Það hefur nýtízku niðursuðuvélar, og þeim, sem þá voru á ferð þar, — það var atvinnumálanefnd ríkisins, — var gefinn kostur á að bragða á framleiðsluvörum fyrirtækisins, og virtist okkur öllum sem það væri fyrsta flokks vara. Þá voru erfiðleikar um rekstur fyrirtækisins, eins og nú hefur verið gerð grein fyrir að sé, og fyrirtækið rekið slitrótt.

Ég tel, að það sé engum vafa bundið, að fiskiðnaðarfyrirtæki séu einmitt fyrirtæki, sem koma verði á fót, þar sem staðbundið atvinnuleysi eða tímabundið atvinnuleysi á sér stað í útvegsbæjum og sjávarþorpum. En það er alveg víst, að úr því að við erum enn þá fákunnandi í fiskniðursuðu, þá verður af hendi stjórnarvaldanna að leggja áherzlu á það, að Íslendingar afli sér þekkingar á þessu svíði. Meðan við eigum ekki lærðum mönnum á að skipa í þessu, þannig að við fáum fyrsta flokks vöru, sem sé söluhæf á erlendum markaði, verður að gera ráðstafanir til að fá útlenda kunnáttumenn til þess að starfa fyrir okkur í þessari grein og kenna okkur þessi vinnubrögð.

Ég vil í sambandi við þessa till. spyrjast fyrir um það, hvort ríkisstj. hefur enga vitneskju um það, hvað gert er til þess að treysta grundvöllinn undir niðursuðuiðnaði í sambandi við sjávarútveginn, eða hvort ríkisstj. veit til þess, að fyrirtæki, sem annast og hafa nokkurs konar einkaaðstöðu til þess að annast sölu á íslenzkum sjávarafurðum, hafa nokkra menn í sinni þjónustu til þess að vinna skipulega að sölu niðursuðuvara fyrir íslenzka framleiðendur. Ég trúi því ekki, að vörur eins og ég gekk úr skugga um að þessi verksmiðja getur framleitt séu ekki söluhæfar á erlendum mörkuðum. En það eru þó fyrst og fremst söluvandræðin, sem hafa stöðvað þetta fyrirtæki hvað eftir annað og gert það að verkum, að það hefur ekki getað orðið sá bjargvættur í atvinnulífi Ólafsfirðinga sem ætlunin var og menn trúðu að það gæti orðið. Ég er hræddur um, að það sé ekki í fyrsta lagi lögð næg áherzla á að koma ungum, efnilegum Íslendingum til náms í þessari vandasömu sérfræðigrein sjávarútvegsins, til náms í þeim löndum, þar sem menn eru komnir lengst í þessum efnum, eða þá í annan stað, að það sé ekki gert nóg til þess af íslenzkum stjórnarvöldum í samráði við íslenzka atvinnurekendur að útvega erlenda fræðimenn til þess að kenna okkur þessar listir hér heima. Og í þriðja lagi er ég afar hræddur um það, að það sé ákaflega slælega unnið að því að vinna íslenzkum niðursuðuvörum markaði erlendis. Ég veit um t. d. niðursuðuvörur eins og framleiddar eru á Akranesi, að það er fyrst og fremst það, sem veldur þar vandkvæðunum, að fyrirtækin geti verið í stöðugum rekstri, að það tekst ekki enn þá að selja framleiðsluna. Og mín höfuðgrunsemd er sú, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda eða aðrir þeir aðilar, sem annast sölu sjávarafurða, hafi ekki tekið þetta hlutverk nógu alvarlega, því að það er alveg áreiðanlegt, að það eru ekki aðrar leiðir færari til þess að koma í veg fyrir tímabundið atvinnuleysi við sjávarsíðuna en einmitt að Íslendingar afli sér kunnáttu og að aflað sé sölumöguleika fyrir niðursuðuvörur úr glænýjum íslenzkum sjávarafurðum, sem engar þjóðir eiga að hafa betri aðstöðu til þess að framleiða sem fyrsta flokks vörur heldur en við.

Mig langar til að vita, hvort þeir, sem atvinnumálunum stjórna og eru hér á Alþ., geti ekki gefið neinar upplýsingar um það, hvort unnið hefur verið af þeim myndarskap að þessum málum sem skyldi eða hvort hér er um að ræða skilningsleysi og áhugaleysi ofan frá og að þessi atvinnugrein fái ekki þann stuðning frá stjórnarvöldunum sem vert væri og hin brýnasta nauðsyn er á til þess að geta bætt úr atvinnuvandræðum víðs vegar, þar sem það nú þjakar þjóðina.