09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2559)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hv. flm. till., að mjög er illt til þess að vita að hafa í Ólafsfirði fullkomna niðursuðuverksmiðju, að mér skilst einhverja fullkomnustu á landinu, er ekki getur komið að notum fyrir íbúa bæjarins, sem henni var þó ætlað að verða til hagsbóta. En ég verð að segja, að till. þessi er orðuð á þann veg, að mér er ekki alveg ljóst, hvað fyrir hv. flm. vakir með þeirri ályktun, sem hér er um að ræða. Hún leggur til að fela ríkisstjórninni að ráðstafa sem allra fyrst niðursuðuverksmiðju þeirri, sem ríkið á í Ólafsfirði, á þann hátt, að horfi til aukningar atvinnu og bættrar afkomu Ólafsfirðinga. Mér skilst hins vegar af grg., að aldrei hafi tekizt að reka þessa verksmiðju að nokkru ráði, og segir í grg.: „Hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að reka verksmiðjuna, en þær jafnan farið út um þúfur.“ — Nú finnst mér, að það hefði verið viðeigandi, að gefin væri nokkur skýring á því, hvers vegna rekstur á svo fullkominni verksmiðju hafi alltaf farið út um þúfur.

Ef verksmiðjan er í fullkomnu lagi og hráefnið til staðar, þá getur ekki verið nema um eina ástæðu að ræða fyrir því, að verksmiðjan hefur ekki verið rekin. Og ástæðan er vafalaust sú, sem hv. 3. landsk. (HV) tók fram, að kunnáttumenn vantar til þess að reka þetta fyrirtæki. Þetta er ekki eina fyrirtækið af þessari tegund hér í landinu, sem skortir kunnáttumenn til að reka. Því miður lítur svo út, að flestar niðursuðuverksmiðjur, sem risið hafa upp hér á síðari árum, séu ekki reknar af kunnáttumönnum. Það er leitt að þurfa frá því að segja, að íslenzkar niðursuðuvörur hafa illt orð á sér. Þær hafa illt orð á sér vegna gallaðrar framleiðslu, og gölluð framleiðsla getur ekki orsakazt nema af því, að kunnáttumenn eru ekki við framleiðsluna.

Það hefur verið reynt á mörgum mörkuðum að selja íslenzkar niðursuðuvörur. Íslenzkar niðursuðuvörur voru sæmilega vel komnar inn á amerískan markað fyrir nokkrum árum. En eftir því sem ég veit bezt, hefur alveg tekið fyrir þá sölu (það var sérstaklega niðursuða á síldarvörum) vegna þess að viðskiptamennirnir komu til verzlananna hvað eftir annað með dósirnar til baka, vegna þess að varan var skemmd. Þegar viðskiptamaður í Ameríku kemur með dós af skemmdri niðursuðuvöru, þá er ekki aftur keypt framleiðsla þess framleiðanda, sem þá dós selur. Þannig hefur þetta verið víðar.

Íslendingar virðast því miður ekki eiga fullkomna kunnáttumenn á þessu sviði. Fyrir rúmlega hálfri öld voru Norðmenn að koma fótunum undir sinn fiskniðursuðuiðnað. Það gekk mjög á tréfótum hjá þeim fyrstu árin, og stærstu firmun voru hvað eftir annað komin að því að verða gjaldþrota, vegna þess að þau skorti kunnáttumenn við niðursuðuna. En það var líka vegna þess, að þá var niðursuðutæknin á mjög lágu stigi. Hún var mjög skammt á veg komin, svo að þeir barnasjúkdómar, sem þar komu fram hjá Norðmönnum, komu þá um sama leyti fram víða um heim. En nú er niðursuðuiðnaður svo að segja hvarvetna í heiminum á háu tæknistigi. Er sama hvar maður kaupir niðursuðuvörur, þær eru alls staðar ógallaðar, og það er hægt að geyma þær mánuðum og árum saman, án þess að þær skemmist. Niðursuðuiðnaðurinn er á svo háu stigi, t. d. í Bandaríkjunum og einnig í Evrópu, að það þekkist varla, að fram komi gallaðar niðursuðuvörur. En þetta sýnir, að til eru kunnáttumenn, það eru til menn, sem kunna að meðhöndla þessa framleiðslu, og það eru til vélar, sem geta afkastað þessari framleiðslu, án þess að hún þurfi að vera stórgölluð.

Það er alveg tilgangslaust fyrir Íslendinga að setja upp verksmiðjur með ærnum kostnaði, ef þeir kunna ekki með þær að fara. Og ef þeir kunna ekki sjálfir með þær að fara, þá verða þeir að fá sér menn frá útlöndum, sem kunna þessa iðn og geta gengið frá vörunni eins og hún á að vera, svo að hún komi óskemmd til kaupandans.

Ég vil ekki mæla því í gegn, að þetta mál komi til athugunar hjá ríkisstjórninni. En mér finnst, að það eigi að koma fyrst og fremst fram, hvað það er, sem er ábótavant í þessu máli, bæði með þessa niðursuðuverksmiðju og aðrar niðursuðuverksmiðjur í landinu. Það kann vel að vera, að nauðsynlegt sé, að ríkisstj. taki málið í sínar hendur til þess að kippa þessu í lag í eitt skipti fyrir öll. Ef allur heimurinn getur framleitt góðar niðursuðuvörur nema Íslendingar, þá hlýtur að vera hægt fyrir þá að læra einhvers staðar að búa til almennilegar niðursuðuvörur.