13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2563)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er nú til meðferðar, var flutt af okkur þm. Eyf. og hneig í þá átt, að gerðar væru ráðstafanir til þess að hagnýta svo niðursuðuverksmiðju þá, sem ríkið hefur eignazt í Ólafsfirði, að hún gæti komið að sem mestu gagni fyrir atvinnulíf þar á staðnum. Fjvn. hefur athugað þessa þáltill. allýtarlega og hefur leitað umsagnar um hana frá tveimur aðilum, Fiskifélagi Íslands og fiskiðjuveri ríkisins. Umsögn hefur aðeins borizt frá Fiskifélaginu, og felast í þeirri umsögn meðmæli með því, að verksmiðja þessi verði hagnýtt til eflingar útgerð í Ólafsfirði, en hins vegar talið, að eins og ástatt sé nú með fiskniðursuðu í landinu, séu litlar horfur á, að hægt verði að starfrækja verksmiðjuna áfram sem niðursuðuverksmiðju. Með áliti stjórnar Fiskifélagsins fylgdi rækileg og athyglisverð grg. um ástand niðursuðuiðnaðarins á Íslandi. Um það mál var allmikið rætt hér við fyrri umræðu málsins, og komu fram ýmsar raddir um nauðsyn þess, að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að efla þennan mikilvæga iðnað, og bent jafnframt á það, hversu hagkvæmur slíkur iðnaður gæti reynzt til atvinnujöfnunar í landinu.

Fjvn. leggur til, að till. verði samþ. með smávægilegri orðalagsbreytingu, og er þá till. í því formi, að ríkisstj. láti fram fara athugun á því, hvernig niðursuðuverksmiðja ríkisins í Ólafsfjarðarkaupstað verði hagkvæmast notfærð til eflingar atvinnulífi á staðnum. Verður vitanlega að teljast æskilegt, að áður en endanleg ákvörðun er um það tekin, verði það rannsakað, bæði í samráði við forustumenn byggðarlagsins og jafnframt sérfróða menn í útvegs- og niðursuðumálum, þannig að þessi verksmiðja komi þar að sem beztum notum. Vitanlega væri æskilegast, að hægt væri að starfrækja fyrirtækið áfram sem niðursuðuverksmiðju, því að það mundi leysa mjög verulega úr þeim atvinnuvandræðum, sem við er að stríða í þessum kaupstað. Sé það hins vegar ekki talið fært, þá verði leitazt við að hagnýta þetta ágæta hús, sem þarna er til staðar, á einhvern þann hátt, að það geti styrkt útgerðina í Ólafsfirði. Þar standa nú svo sakir, að mjög tilfinnanlega skortir húsnæði fyrir útgerðina, ekki sízt eftir að þar er komin einnig togaraútgerð að nokkru, þannig að það eru vissulega fullkomin not fyrir þetta hús og mikilvægt, að sem allra skjótast geti fengizt á þessu máli einhver endalok, því að það er vitanlega alls kostar óviðunandi, að þessi ágæta verksmiðja og mikli húsakostur standi þarna ónotaður í langan tíma. Þar koma bæði til greina hagsmunir kaupstaðarins og einnig hagsmunir ríkissjóðs sem eiganda þessarar verksmiðju, að hún verði ekki látin standa þarna arðlaus og grotna niður, sem hlýtur að verða, ef ekki eru einhverjar sérstakar ráðstafanir gerðar í þessu efni.

Ég tel ekki þörf á að orðlengja frekar um þetta mál, en vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á að samþykkja till. með þeirri breytingu, sem fjvn. hefur borið fram.