15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að vera fáorður, því að eins og kunnugt er, þá er nú ekki mikill tími til stefnu.

Hv. 11. landsk. (LJós) hélt því fram, að mín orð hefðu borið vitni um það, að mig skorti mikið þekkingu á þessum málum og mér veitti ekki af að leita upplýsinga hjá honum eða öðrum þar til hæfum mönnum til að bæta þessa vankunnáttu mína. Ég veit, að hann trúir því sjálfur, hvað sem hann segir, að ég sé nokkuð kunnugur útgerðinni, og félag, sem ég hef verið viðriðinn, á og rekur tvo af þessum nýsköpunartogurum. Og þó að ég fylgist þar ekki með daglegum störfum, þá hef ég náttúrlega aðstöðu til að afla mér upplýsinga frá því félagi og raunar fleirum, ef ég óska eftir því, og hygg, að það skorti ekki svo mjög á mína þekkingu um þetta.

Mér fannst hins vegar, að þær upplýsingar, sem hv. þm. gaf, og þær tilraunir, sem bann gerði til að leiðbeina mér og bæta úr minni vanþekkingu, væru ekki þess eðlis, að ég gæti mikið af þeim lært. Hann sagði m.a., að hans óskir og kröfur byggðust allar á því nál., sem hann er aðill að og mþn. í þessum málum afhenti ríkisstj. í ágústmánuði, ef ég man rétt. En mér fannst honum skjótast nokkuð, þegar hann var að gera grein fyrir því nál. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að samkv. nál. bæri mér að skilja, að togararnir þyrftu jafnvel allt að 1400 þús., og gat um, að nál. teldi fyrst fram 950 þús., en síðan gerði það ráð fyrir kauphækkunum, sem næmu 300 þús. Það væru 1250 þús., en auk þess kæmu enn til greina 150 þús., sem þá væntanlega er það, sem hann telur að farið hafi til kjarabóta umfram 300 þús. Mun það ekki vera þannig rétt skýrt? Nú vil ég benda þessum hv. þm. á, að í þessum 950 þús., sem hann í ágúst taldi hæfilega aðstoð, eru einmitt innifaldar kjarabæturnar. Það er þess vegna mikil skekkja, þegar hann tvitelur þá upphæð. Það stendur þess vegna alveg óhaggað, sem ég hef sagt í þessum efnum, og ber það vott um, að ég þekki málið betur en hann, þó að hann sjálfur hafi verið í nefndinni.

Hv. þm. vildi skjóta sér undir það, að afkoma togaranna væri verri en þeir reikningar bæru með sér, sem n. byggði á. Um það skal ég ekkert dæma, hvort menn hafa þar getið ranga reikninga vísvitandi eða óafvitandi. Hitt getur auga leið um, að et þessi hv. þm. telur reikningana, sem útgerðarmenn gáfu, hafa verið ranga, þá bar honum sem reyndum útgerðarmanni að benda á það og leggja aðrar tölur til grundvallar fyrir tillögum sínum heldur en þær 950 þús., sem hann lagði til að hagur útgerðarinnar væri bættur um, ýmist með framlögum úr ríkissjóði eða með niðurfærslu á kostnaðarliðum. Þar er aftur skekkjan hans megin, en ekki mín megin.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, enda hafði ég um það getið, að ef um er að ræða lengra tímabil, þá er sá atvinnurekstur óheilbrigður, sem ekki getur sjálfur staðið undir fyrningu sinna framleiðslutækja. Um það erum við sammála, og hann getur ekkert sett út á það, sem ég sagði um það. Og ég verð yfirleitt á grundvelli þessara upplýsinga, sem ég nú hef gefið, að leyfa mér að staðhæfa, að ef um er að ræða, að einhver vaði í villu og svima um það, sem hér er um að ræða, þá er það hann, en ekki ég. Ég vil enn fremur segja honum það, að nú alveg nýverið hafa sumir af stærstu útgerðarmönnunum sagt mér, að það orkaði a.m.k. nokkuð tvímælis, hvort það væri mikið yfir 300 þús., sem varið hefði verið til kjarabóta. Ég get ekki dæmt um það eftir öðrum upplýsingum en þeim, sem ég hef frá útgerðarmönnum. Hv. 11. landsk. nefndi þar 450–500 þús. Ég vil ekkert frekar vefengja hann en aðra. Mér þykir þó heldur ólíklegt, þegar svo ágætir menn sem hann og hans líkar eru í þessari n. og telja hæfilegar kjarabætur sjómönnum til handa vera 300 þús., að þá semji útgerðarmenn um 500 þús. Ég tel þá eiga að þekkja sína hagsmuni svo vel og þá ekki heldur vera það vinveittari sjómönnunum en sjálfum sér, eða það vinveittari sjómönnunum heldur en hv. 11. landsk. er, að þeir borgi fyrir það 500 þús. til sjómanna, sem hann telur hæfilegt að greiða 300 þús. fyrir.

Ég verð að segja það, að ef það væri rétt, sem hv. 11. landsk. segir, að þörf sé á 800 þús. útgerðinni til handa í viðbót við þær 630 þús., sem stj. ætlar að leggja fram, þá er það náttúrlega lítil úrbót, sem hann stingur upp á, því að hann stingur aðeins upp á 1000 kr. uppbót á dag og miðar við 300 útgerðardaga, og hefur þá ekki verið rausnarlegri eftir þessari sinni þekkingu á málinn heldur en að ætla að skammta útgerðarmönnum 300 af þeim 800, sem hann telur vanta.

Varðandi uppbætur á karfa, þá hef ég það eftir nefnd frá útgerðarmönnum, að það megi áætla það eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, og jafnvel nefndu þeir nú hærri tölu, jafnvel yfir 150 þús. Ég skal ekki um það deila. Ég gerði ekki heldur í minni ræðu ráð fyrir, að það mætti reikna að meðaltali meira en 80 þús., því þó að þeir nefndu, að togarar hefðu kannske um 3 þús. tonn á ári af karfa, þá þótti mér það nokkuð hátt reiknað, a.m.k. ef miðað væri við meðaltal. Hins vegar finnst mér of lítið rúm 800 tonn, eins og hv. þm. nefndi, því að það eru þá ekki nema svona þrjár veiðiferðir á ári, og ég hygg, að með hliðsjón af því, að margir af togurunum stunda karfaveiðar um nokkuð langan tíma ársins, þá sé það allt of lítið.

Ég skal svo ekki fara út í sparðatíning, þó að nokkur ástæða væri til þess; nefni aðeins sem dæmi, að hv. þm. hafði um það allmörg orð, að á árinn 1954 næmi styrkurinn ekki nema 300 þús., en ekki 600 þús. Það er náttúrlega ekki þess að vænta, að stjórnin fari að greiða langt aftur í tímann, þegar sú nefnd, sem um þetta fjallar, hreyfir ekki einu sinni þeirri tillögu, og það gerði hv. 11. landsk. ekki.

Varðandi olíuverðið, sem hann talaði nokkuð mikið um, sagði n., sem um þetta fjallaði, eða einhverjir menn úr henni, stjórninni frá því, að í rauninni væri olíuverðslækkunin fram komin nú þegar, vegna þess að menn fengju nú 20–30 þús. kr. afslátt á ári á olíunni, án þess að sá útgerðarsparnaður kæmi fram í þeim reikningum, sem lagðir voru til grundvallar, þegar niðurstaðan varð, að útgerðin þyrfti að fá um 950 þús. kr. uppbætur, þannig að sú olíuverðslækkun, sem þá var um að ræða, var í raun og veru fengin, og þess vegna má bæta þeim lið við þær kjarabætur, sem útgerðin hefur fengið með hækkun á karfaverðinu.

Ég nefni svo vátryggingarnar, sem ég áðan gat um. Það er ekki stjórnin, sem á að hafa forgöngu um það, hvort útgerðarmenn bjóða saman öll skip sín á erlendum markaði til vátryggingar og geta með því sparað eitthvert fé, því að þeim ber auðvitað að hafa um það alla forgöngu sjálfum, þó að ég segi hins vegar, að ég hef ekki haft mikla trú á, að það geti út af fyrir sig valdið því, að við fengjum bætur í þessum efnum. Eftir minni þekkingu á því hygg ég, að stór vátryggingarfyrirtæki eins og Lloyds í London muni ekki lækka kjörin, hvort heldur eru boðnir fram í einn lagi 15 togarar eða 30 til vátryggingar.

Ég árétta enn, að útreikningar hv. þm. um tekjur af bílaskattinum eru rangar eftir þeim upplýsingum, sem innflutningsskrifstofan getur okkur. Ég hef skriflega frá henni fengið þær upplýsingar, að gjaldið af innfluttum bílum —þetta togaragjald, sem kallað er — muni nema 29 millj. og 500 þús. á báðum árunum 1954 og 1955, en útgjöldin, miðað við 2000 kr. á dag, muni nema 39 milljónum. Það er þess vegna augljóst, að þó að bílainnflutningur verði meiri en n. gerði ráð fyrir, þegar hún gaf frá sér þessa skriflegu umsögn, þá er full þörf fyrir þær tekjur. Ég skal sundurliða, að það er búizt við, að útgjöldin verði á þessu ári 12 millj. úr þessum uppbótarsjóði, en á árinn 1955 munn þau verða 1.7 millj., en sem sagt tekjurnar um 30 millj.

Þá vil ég enn upplýsa, að þær upplýsingar, sem hv. þm. gaf varðandi dýrtíðarsjóðsgjaldið, eru á misskilningi byggðar. Sá misskilningur stafar af því, að dýrtíðarsjóðsgjaldið hefur aldrei verið tekið af sendiferðabílunum. Og nefndin heldur því fast fram enn að athuguðu máli, að það sé ekki ástæða til að ætla, að það gjald mundi nema meiru en ég áðan nefndi, svona rúmum 2 millj. kr.

Ég sé ekki, að ég þurfi að árétta fleira í þessu. Í aðalefnum sýnist mér að mínar tölur standi óhraktar, ég þurfi þess vegna ekki að leita upplýsinga hjá hv. 11. landsk. um þetta og frekar það gagnstæða, að hann ætti að kynna sér nánar þær tölur, sem ég hef nefnt, og mundi þá kannske standa fastari fótum í þekkingu sinni á málinu og því betur að vígi í umræðunum um það.

Hv. þm. bauðst til að taka aftur sínar till., ef hér væri ekki um endanlega afgreiðslu málsins að ræða. Ég vil ekki gefa nein fyrirheit um það, að það eigi að fara að taka þetta mál upp til endurnýjaðrar yfirvegunar. Þetta er eins og öll önnur mál, sem við fjöllum um, að engin lausn er það, sem við köllum endanlega lausn á málinn. Það getur vel verið, að ef kringumstæður breyttust þannig, að það væri talið, að togaraútgerðin þyrfti ekki þennan styrk, sem hún hefur nú fengið fyrirheit um, þá væri ástæða til að breyta því. Og það er ekki hægt að gera mig neitt spaugilegan með því að segja, að breytt aflaverð, breytt aflamagn og betri tíð geti skapað aðra og betri afkomu fyrir togarana. Ég er búinn að vera meira og minna við togaraútgerð riðinn og hef fylgzt með henni frá því að hún hófst hér á landi, og ég hef oft séð mjög snöggar breytingar í þessum efnum. Það má kannske segja, að það séu ekki miklar líkur til, að stórbreytingar verði á næstunni, en það skyldi enginn staðhæfa um of í þeim efnum. Við skulum taka lítið dæmi. Það var sent skip til að leita að karfamiðum með aðstoð hins opinbera. togarinn Jón Þorláksson. Hann fann ný mið, og þessi nýju mið urðu þess valdandi, að aflinn glæddist ákaflega mikið. Það er tilgangur okkar í ríkisstj. að halda áfram slíkri leit í vaxandi mæli. Við gerum ráð fyrir að geta varið til þess á næsta ári 700 þús. kr. og jafnvel fyllilega það, et í það færi. Það getur vel verið, að sú leit gæti borið þann árangur, að hún gæti að verulegu leyti bætt hag útgerðarinnar. Ég nefni þarna aðeins eitt dæmi af ýmsum, sem geta valdið breyttri aðstöðu fyrir útgerðina.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo komnu máli og endurtek það, að ég legg meiri áherzlu á, að málið geti orðið afgreitt, heldur en hitt, að hrekja hvert minni háttar atriði, sem fram kynni að koma.