23.02.1955
Sameinað þing: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2575)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er borin fram til þess að stuðla að því, að skipulega verði unnið að undirbúningi til að hagnýta sem bezt auðlindir landsins og gera till. um nýjar atvinnugreinar, enn fremur, eins og segir í till., að athuga möguleika á aukinni tækni í núverandi atvinnugreinum.

Það má sjálfsagt vinna þetta verk með ýmsu móti, og það kunna að vera um það skiptar skoðanir, hvernig eigi að vinna að þessu verki, en þó tel ég, að við nána yfirvegun þessa máls muni naumast verða um það deilt með réttu, að sú leið, sem hér er bent á, sé einna líklegust til árangurs. Þessi vinnubrögð, að skipa sérstaka n. til þess að athuga þessi mál, er ekki ný vinnuaðferð, hvorki hér á landi né með öðrum þjóðum, heldur má segja, að þetta séu hin algengustu vinnubrögð og þau, sem víðast hvar hafa reynzt einna bezt til árangurs. Það hafa verið skipaðar slíkar n. hér, m. a. 1934–35, þá var skipuð hér n., sem gaf út ýtarlegt nál. í bókarformi. Þar var bent á margt nýtt, sem varð til stórra nytja við síðari framkvæmdir.

Þegar menn hugleiða þessi mál, þessar stórframkvæmdir, sem hér bíða úrlausnar, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, sem menn yfirleitt ekki gera sér grein fyrir, að þessi mál þurfa mörg stórfelldan og langvarandi undirbúning og rannsókn, ef á að takast að hrinda þeim í framkvæmd og ekki sízt ef á að takast að hrinda þeim í framkvæmd á þann hátt, sem æskilegast er. Það var t. d. á árunum 1934 og 1935, sem fyrstu hugmyndir komu fram um sementsgerð og áburðarframleiðslu. Að vísu kom stríðið þar inn í og tafði fyrir framkvæmdum. Nýlega er áburðarverksmiðjan komin, en sementsverksmiðjan ekki enn þá, þó að liðin séu tæp tuttugu ár síðan búið var til sement erlendis á rannsóknarstofum þar úr næstum alíslenzku hráefni.

Ég bendi á þetta sem dæmi þess, hve oft þarf langan aðdraganda og mikinn undirbúning til þess að koma verkum í framkvæmd. Það átti fyrst að áliti þeirra sérfróðu manna, sem rannsökuðu þessi mál, að taka sandinn í sementsverksmiðjuna vestur á landi, eins og margir, sem hér eru viðstaddir, muna. En síðar kom í ljós, að þennan sand var að finna hér miklu nær, eða á botni Faxaflóans. Það stóð á því í tvö ár, að erlendir sérfræðingar töldu alls ekki öruggt, að hægt væri að ná sandinum á svo miklu dýpi, og á þeim grundvelli var m. a. neitað um lánsfé til verksins. Eitt af því, sem enn þurfti að gera, var því að fá skip til þess að sýna, að það var framkvæmanlegt að ná sandinum hér af botni Faxaflóa, og nefni ég þetta enn sem eitt dæmi þess, hvað það er margt, sem þarf að athuga, áður en ráðizt er í framkvæmdir.

Það mætti rekja hér fjöldamörg önnur mál, þar sem undirbúningurinn hefur verið langvarandi og framkvæmdir eru nú að byrja. Það er t. d. langt síðan minnzt var á það hér, — milli 10 og 20 ár, — að hafin yrði rannsókn á því að framleiða hér gler, en það hefur ekkert orðið af framkvæmdum milli 10 og 20 ár. Rannsóknir hafa haldið áfram, sumpart í kyrrþey, sumpart hefur ríkið stutt verulega að þessum rannsóknum, og nú er loks komið að því, að verið er að byggja hér verksmiðju til þess að framleiða gler.

Það yrði allt of langt mál að nefna öll þau dæmi, sem tiltæk eru. Ég get þó nefnt einn einasta stað, Krýsuvík. Það er ekki enn þá fullrannsakað, hvernig á að nota hitann þar til þess að framleiða rafmagn. Það hefur verið álitið, að það muni finnast leiðir til þess að framleiða rafmagn þar helmingi ódýrar en virkjanir eru, t. d. núna við Sog. Það er alveg órannsakað mál, hvort hægt er að nota þennan hita. Það hefur verið nokkuð rannsakað, bæði af innlendum og erlendum sérfræðingum, hvort hægt er að nota þennan hita, sem er þarna í Krýsuvík, til þess að vinna að sumu leyti mjög dýran iðnað í sambandi við framleiðslu aluminíums. Verkfræðingar eru ósammála um þetta atriði, og það er ekki rannsakað. Það er órannsakað mál, a. m. k. til fullnustu, því að þar er að minnsta kosti um tvær eða þrjár aðferðir að ræða, hvort hægt er að framleiða allt það salt, sem Íslendingar þurfa, í sambandi við þennan hitagjafa, og er næstum fullvíst, að hægt sé að gera það með góðum árangri, en ekki enn þá fullrannsakað, hvernig það verði gert þannig, að árangur verði sem beztur. Í sambandi við það koma til greina efni, a. m. k. tvö, sem eru uppistaða í verulega stórum iðnaði, og er það einnig algerlega órannsakað mál.

Ég nefni þennan stað sem eitt af dæmunum um það, hve margt er órannsakað og hvað við höfum enn þá unnið óskipulega að því að rannsaka þessi mál. En eins og ég sagði áðan, er ekki fært að telja upp það, sem vinna þarf að, og það er ekki heldur á mínu valdi að gera það og reyndar fárra sjálfsagt annarra, því að margt af því er óþekkt atriði í dag.

Það er ekki heldur ónauðsynlegt að fylgjast með hinni nýju tækni. Það er fróðlegt að sjá t. d., ef rakin er þróunin í fiskiðnaðinum, sérstaklega í frystihúsunum, sem hafizt var aðallega handa um í heimsstyrjöldinni miklu að byggja upp. Það sýnir, hvað þarf stöðugt að vera vakandi í þessum málum, að útlendur maður kom hingað og rannsakaði frystihúsin og frystihúsaiðnaðinn yfirleitt og gaf um það allýtarlega skýrslu, sem var nokkuð umdeild, og það er enginn vafi á því, að það vakti til umhugsunar um nauðsynlegar breytingar á ýmsum sviðum, sem e. t. v. hafa gefið okkur milljónir eða milljónatugi í aðra hönd. Enn fremur hafa bætzt þar í hópinn óneitanlega núna á seinni árum menn, sem hafa sjálfsagt mikla þekkingu á þessum málum og hafa unnið þar þarft verk.

Það var árið 1952, að nokkrir þm. úr Framsfl. komu fram með tillögu þess efnis, að ríkisstj. léti safna saman í eina heild niðurstöðum rannsókna, sem gerðar hafa verið, og reyndi síðan að gera sér grein fyrir, hvaða framkvæmdir ættu að sitja í fyrirrúmi, eftir að lokið væri stórframkvæmdunum, sem hafa staðið yfir að undanförnu. Í þessu mun ekkert hafa verið gert enn þá, og er það ekki alls kostar óeðlilegt, því að það er vitað mál, að ríkisstj. getur ekki unnið þetta verk sjálf, og hún hefur enga eða a. m. k. ekki nægilega starfskrafta til þess að vinna að þessu máli. Þess vegna er nú komið fram með þá till., sem hér liggur fyrir, að skipa sérstaka n. til að vinna verkið. Það er raunverulega reynsla komin á það, eftir að till. frá 1952 var samþ., að verkið verður naumast unnið með öðru móti.

Sumir munu sjálfsagt líta svo á, að hin nýja Iðnaðarmálastofnun eigi að vinna þetta verk. Ég efast ekkert um það, að í þeirri stofnun vinna ýmsir dugandi menn og hæfir sem sérfræðingar. En mér skilst, að meginverk þessarar stofnunar hafi verið og sé enn þá að leiðbeina eldri fyrirtækjum tæknilega og gera útreikninga fyrir einstaka menn og félög á rekstrarhæfni nýrra fyrirtækja og gefa leiðbeiningar viðkomandi því, hvernig þau skuli byggð upp og rekin. Að Iðnaðarmálastofnunin vinni það verk að öllu leyti, sem hér er fyrirhugað af n., kemur að mínu áliti ekki til mála. Það er alveg sjálfsagt, að n. styðjist við starfskrafta Iðnaðarmálastofnunarinnar, eftir því sem unnt er og eftir því sem Iðnaðarmálastofnunin getur unnið það verk, en það er alveg útilokað, að verkið verði unnið í heild af Iðnaðarmálastofnuninni sjálfri.

Það er augljóst mál, að þegar á að vinna að þessu verki, kemur fleira til greina en tæknilegur undirbúningur. Það þarf að vinna jafnframt þeim tæknilega undirbúningi að því að rannsaka, hvaða rekstrarfyrirkomulag á að vera á þeim fyrirtækjum, sem byggja á upp, og það þarf enn fremur að rannsaka, með hvaða hætti á að afla fjármagns til þessara fyrirtækja. Það fléttast þess vegna inn í þessar framkvæmdir ekki aðeins það tæknilega, sem vissulega er stórt og sjálfsagt er að sérfræðingarnir vinni, bæði í Iðnaðarmálastofnuninni og annars staðar, en það fléttast jafnframt inn í þetta tæknilegur undirbúningur, það blandast jafnframt inn í þetta pólitísk atriði, eins og ég sagði áðan, um það, hvernig á að afla fjár til framkvæmdanna og hvernig á að byggja fyrirtækin upp. Ég fer ekki inn á það hér.

Það er eitt atriði, sem Alþ. á algerlega eftir að taka afstöðu til: Á að taka stórlán til þessara framkvæmda, og á ríkið eða hlutafélög eða félög ríkis og einstaklinga að byggja upp þessi fyrirtæki með stórum lántökum erlendis, eða á að gefa einstökum erlendum félögum leyfi til þess að byggja þessi fyrirtæki gegn einhverjum ákveðnum skilmálum, sem eftir er að setja? Þó að mikið sé talað um þessar framkvæmdir í öllum flokkum, þá er hv. Alþ. algerlega varbúið að svara því, á hvern hátt það vill taka við þessum stórframkvæmdum, á hvern hátt á að gera þær. Ég geri ráð fyrir því að vísu, að sú tæknilega hlið málsins verði mikilvæg og erfið, og það þarf ekki aðeins að leita til Iðnaðarmálastofnunarinnar, heldur fjöldamargra annarra stofnana um þau atriði, en ég geri ráð fyrir því, að þau atriði, sem ég var að minnast á í sambandi við rekstrarfyrirkomulagið og fleira, sem ég taldi, verði erfiðari mál viðfangs en jafnvel það tæknilega.

Ég vil jafnframt benda á það, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þetta fyrirkomulag, að kjósa n. til þess að starfa að þessum málum með sérfræðingunum, er alls ekki nýtt hér né erlendis, enda hygg ég, að það séu yfirleitt talin skynsamlegustu vinnubrögðin í dag, þegar unnið er að tæknilegum málum og stórframkvæmdum, að sérfræðingarnir vinni ekki það verk einir, heldur vinni það í samráði og samstarfi við þá menn, sem við stjórnmálin fást.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að nú er það svo alls staðar með þjóðum, sem eru langt komnar, — nægir að benda á Breta í því efni, — og hjá öðrum þjóðum, sem eru stutt á veg komnar, að unnið er kappsamlega að því að gera áætlun um stórframkvæmdir og tæknilegar framfarir á næstu árum til þess að bæta lífskjör þjóðanna. Það er naumast, að ég hygg, þó að ég hafi litla þekkingu á þessu atriði, að ekki sé hjá svo að segja hverri einustu þjóð unnið skipulega að undirbúningi stórframkvæmda og aukinni tækni.

Við höfum rætt mikið um þessi mál, en við erum, eins og ég sagði áðan, óundirbúnir um margt og jafnvel flest, ef til framkvæmda ætti að koma. Af öllum þessum stórframkvæmdum, sem oft er verið að telja upp í blöðunum, er engin framkvæmdin fullkomlega undirbúin, hvorki tæknilega né pólitískt, ef svo mætti að orði kveða.

Þess vegna verðum við nú að hefjast handa og nota tímann, sem við höfum. Talið er, að það muni fara að styttast í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Þar vinnur nú margt Íslendinga, og Íslendingum fjölgar, eins og kunnugt er, um 3000 á hverju ári. Næstu árin, einkum eftir að vinna á Keflavíkurflugvelli hættir, þarf því stórfelldar auknar framkvæmdir og nýjar atvinnugreinar til þess að sjá Íslendingum fyrir nægilegri vinnu og sömu lífskjörum og þeir lifa við í dag, hvað þá heldur auknum og bættum lífskjörum, sem eru þær kröfur, sem flestar þjóðir gera nú í dag, og flestar ríkisstj. gera þá kröfu til sjálfs sín að reyna jafnframt að gera áætlanir um framkvæmdir, sem gætu bætt lífskjörin, frekar en að þau verði lakari en þau eru. Ef við tökum ekki upp skipuleg vinnubrögð í þessa átt, hljótum við að dragast aftur úr, og við hljótum að verða þess varbúnir að taka á málefnunum svo skipulega sem nauðsyn krefur, þegar þess gerist þörf, ef við tökum ekki upp eitthvað svipuð vinnubrögð þessu.

Þetta ætti ekki sízt að vera nauðsynlegt hér í þessu landi, þar sem svo margt er ógert. Framfarir eftir nákvæmlega fyrirframgerðu skipulagi er mál málanna meðal þjóðanna í dag, og það á að vera það einnig og ekki sízt hjá okkar þjóð.

Ég geri ráð fyrir því, að það geti verið deildar skoðanir um það, hvernig þessa n. á að skipa, hvað hún á að vera fjölmenn, og legg ég ekki mikið upp úr því né geri það að ágreiningi, þó að fyrirkomulagi á skipun n. væri að einhverju leyti breytt. Það er vel hægt að hugsa sér 7 manna n. í staðinn fyrir 5 manna n. Það er sjálfsagt hægt að hugsa sér, að flokkarnir tilnefni hver um sig einn mann í n. og síðan ríkisstj. tvo eða þess háttar. En aðalatriðið er ekki það, hvernig frá þessu er gengið, heldur er hitt aðalatriðið, að n. verði skipuð og hefji störf í sambandi við þá sérfræðilegu krafta, sem íslenzka þjóðin ræður yfir.