20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (2584)

148. mál, nýjar atvinnugreinar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Við fyrri umr. þessarar þáltill. ræddi ég nokkuð um ýmis atriði, sem kæmu til greina og hlyti að verða að athuga í sambandi við þá hugmynd, sem kæmi fram í till. Ég tók það fyrst og fremst fram, að það gæti vitanlega ekki orðið neinn ágreiningur um það innan Alþ., að mikilvægt væri að hrinda áleiðis því efni, sem megintilgangur till. fjallaði um, en það var að nýta sem bezt auðlindir landsins. Jafnframt því sem vert væri að íhuga mjög vandlega, hvort rétt væri að stofna slíka nefnd og þá með hvaða verkefni, benti ég á, að nauðsynlegt væri að taka til greina ýmis atriði og hafa til hliðsjónar ýmis sjónarmið, sem ekki var alls kostar hægt að sjá af till. sjálfri, hvort n. væri ætlað að vinna að eða ekki. Það kom einnig fram í tillögum til breytinga frá öðrum hv. þm. hér þá, að þeir höfðu einnig nokkrar hugleiðingar um verkefni n., þannig að ljóst var, að till. væri ekki nægilega ýtarleg, til þess að hægt væri að samþykkja hana í því formi, þó að hún væri góð, svo langt sem hún náði. Ástæðan til þess, að ég stend hér upp nú, er ekki til þess að ræða einstök atriði þessa máls, heldur aðeins vegna hins, að ég benti á nokkur atriði við upphafsumræðu málsins, sem ég taldi að þyrfti að íhuga í sambandi við till. Tel ég, að eins og till. er nú úr garði gerð og með þeirri breytingu, sem fjvn. hefur á henni gert, séu miklar horfur á, að athugun sú, sem till. gerir ráð fyrir, og sú nefndarskipun, sem þar er um rætt, gæti orðið til þess að leggja grundvöll í senn að bættri afkomu og betri skipan þeirra atvinnugreina, sem nú eru í landinu, og einnig að hagnýtingu þeirra annarra auðlinda, sem enn eru ónotaðar. Ég get tekið undir hina ágætu og glöggu framsöguræðu, sem hv. frsm. fjvn. hér flutti og túlkaði mjög vel þau sjónarmið, sem fram komu í fjvn. í sambandi við þetta mál.

Það voru sérstaklega þrjú atriði, sem ég benti á hér við fyrri umr. málsins, sem taka þyrfti til greina og hafa hliðsjón af í sambandi við afgreiðslu þess. Það var í fyrsta lagi það, að nauðsyn bæri til, að ekki eingöngu væri n. ætlað að koma með hugmyndir og vísbendingar um stofnsetningu nýrra fyrirtækja, heldur væri jafnframt brýn nauðsyn með hliðsjón af þeim fjármagnsskorti, sem við eigum við að stríða, að n. gerði sér grein fyrir því, hvaða möguleikar væru til að hrinda þessum fyrirtækjum í framkvæmd, vegna þess að vissulega eru uppi margvíslegar till. og hugmyndir um ýmiss konar umbætur í þjóðfélaginu, eflingu atvinnuveganna og önnur atriði í sambandi við það, sem æskilegt væri og nauðsynlegt væri að koma í framkvæmd, en ekki hefur verið hægt að hraða sem skyldi vegna skorts á fé til framkvæmdanna. Og af því leiðir, að ef á að verða raunverulegt gagn af starfi n. sem þessarar, þá er tvímælalaust nauðsynlegt um leið, að n. geri sér grein fyrir því, hvernig fjár mætti afla til framkvæmdanna, jafnframt því sem hún hlýtur að verða að athuga mjög vandlega hina þjóðhagslegu þýðingu þeirra og þá, ef um mjög margar till. til framkvæmda er að ræða, að gera sér einnig nokkra grein fyrir því, hvað æskilegast er að sitji í fyrirrúmi af þeim framkvæmdum. Þetta er mikilvægt, til þess að till. n. sem þessarar verði ekki aðeins pappírsplagg, því að að því er harla lítið gagn, þó að það geti að vísu orðið til leiðbeiningar síðar meir. En ef raunverulegt gagn á að verða af starfinu, þá er nauðsynlegt að sameina þetta tvennt, tillögurnar og leiðirnar til þess að hrinda till. í framkvæmd. Það var, eins og hv. fjvn. benti á, ekki aðeins hugmynd n., að hér verði unnið að því að koma upp nýjum atvinnugreinum, heldur einnig hitt, að rannsaka sem bezt, hversu þær atvinnugreinar, sem nú eru í landinu, verði bezt efldar, og reynt að haga till. um framkvæmdir þannig, að ekki verði um óeðlilega röskun að ræða. Þær atvinnugreinar, sem nú eru stundaðar og e. t. v. ekki snerta beinlínis till. eins og hún var, þ. e. a. s. landbúnaður og sjávarútvegur, — það er vitanlega hin mesta nauðsyn fyrir okkur, að reynt verði að byggja undir þessa atvinnuvegi og efla þá, jafnhliða því sem vitanlega verður svo að leggja áherzlu á eflingu iðnaðarins, en það er einmitt sú hliðin, sem gera má ráð fyrir að helzt kæmi til greina í sambandi við nýtingu náttúruauðlindanna.

Við vitum það, að vel geta komið til greina ýmiss konar fyrirtæki hérlendis, sem í senn kosta geysimikið fé og jafnframt þurfa mjög mikið vinnuafl, og það er nokkurn veginn öruggt, að í okkar landi eru miklir möguleikar til þess að koma upp ýmiss konar atvinnugreinum. Það eru margvíslegar auðlindir, sem hægt er að hagnýta, og það svo margvíslegar, að gera má fyllilega ráð fyrir því, að íhuga verði vandlega í sambandi við úrlausn málsins, að ekki verði um of röskun í þjóðfélaginu, sem verði hættuleg, og að við reisum okkur ekki þann hurðarás um öxl, að við höfum ekki á hverjum tíma nægilegt vinnuafl til þess að starfrækja undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Allt þetta verðum við vitanlega að hafa í huga, og það er eins og hv. frsm. n. sagði, að hér er um að ræða geysivíðtækt viðfangsefni og vitanlega mikil nauðsyn, að hin margvíslegustu sjónarmið, sem hér koma til greina, verði rækilega í huga höfð af þeirri nefnd, sem kjörin verður samkv. þessari till.

Ég benti á í ræðu minni við fyrri umr. málsins einnig, að mjög mikil nauðsyn væri á því að samræma starfsemi þeirra rannsóknarstofnana í þágu atvinnuveganna, sem nú vinna að till. um nýtingu náttúruauðæfa og hafa unnið um árabil, og hefur n. orðið sammála um, að það væri eðlilegt, að það væri einmitt gert af þeirri mþn., sem gert er ráð fyrir að kosin verði.

Þá vildi ég í þriðja lagi taka undir eitt atriði í ræðu hv. frsm. n., sem ég einnig minntist á í ræðu minni við fyrri umr. málsins, en það er það atriði, að reynt verði að hafa hliðsjón af því í sambandi við störf þessarar n., að ekki verði um að ræða óeðlilega röskun jafnvægis í landinu. Ef reynslan sýnir, að æskilegt sé þjóðhagslega og fært að setja upp stórt atvinnufyrirtæki eða iðjuver til vinnslu á einhverjum jarðefnum eða nýtingar á öðrum náttúruauðæfum landsins, verður vitanlega að staðsetja það fyrirtæki þar, sem frá þjóðhagslegu sjónarmiði og ýmissa aðstæðna vegna er eðlilegast að það standi. Hins vegar getur vitanlega svo verið málum háttað, að komið geti til greina fleiri staðir en einn um staðsetningu slíkra fyrirtækja, og þá verður að leggja á það áherzlu að reyna, eftir því sem kostur er, að dreifa fyrirtækjunum á þann veg, að þau geti stuðlað að sem mestu jafnvægi í byggðum landsins.

Við vitum það, að víða er við ýmiss konar atvinnuörðugleika að stríða í landinu, ef hver einstakur staður er tekinn út af fyrir sig, enda þótt segja megi, að full atvinna sé, ef landið er tekið í heild. Þarna er um vandamál að ræða, sem nauðsynlegt er að sérstakur gaumur sé gefinn, og hefur raunar það verið gert áður og lýst vilja Alþingis í því efni með samþykkt tillögu um að gera ráðstafanir og láta fram fara athuganir á því, hversu jafnvægi í byggðum landsins yrði bezt tryggt. Þetta sjónarmið þarf einnig að hafa í huga og til leiðbeiningar við starf þessarar nefndar.

Ég vil svo að lokum aðeins taka undir það, sem þeir hv. ræðumenn hafa sagt, sem hér hafa talað, að þess er að vænta og vona, að sem beztur árangur geti orðið af starfi þessarar n., og að henni takist að leysa farsællega það mikilvæga verkefni, sem henni er fengið með till. eins og hún nú liggur hér fyrir til afgreiðslu.