20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (2603)

156. mál, samvinnunefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) sagði, sem kom mér til að gera smáathugasemd við það.

Hann minntist á, að þróun þjóðfélagsins hefði gengið í þá átt, að arðskiptingin hefði orðið réttlátari. En ef svo hefði verið, eins og hann virtist líta á, þá mundum við áreiðanlega ekki standa í þeirri hörðu deilu, sem við stöndum í dag.

Fyrir 7 árum, 1947, höfðu verkalýðssamtökin og báðir verkalýðsflokkarnir haft aðstöðu til þess að móta um nokkurt skeið, hver stefna væri tekin í atvinnulífi landsins, og það hafði tekizt að afla allmikilla nýrra atvinnutækja eða a. m. k. gera ráðstafanir til að kaupa þau inn. Hafði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar atvinnurekendum verið gefinn kostur á að eignast þessi tæki með mjög góðum kjörum, og samt höfðu margir þeirra verið tregir til þess, svo tregir, að vegna þess, hve tregir þeir voru, tókst meira að segja verkalýðssamtökunum að fá það fram, að bæjarútgerðir á togurum yrðu miklu meiri en áður höfðu verið. 1947 var ástandið þannig, að verkamenn bjuggu við nokkuð sæmileg lífskjör, og samt sem áður skapaðist á því ári mjög mikill gróði hjá atvinnurekendum, og stóreignir komu fram hjá atvinnurekendum í lok þess árs, þegar eignakönnunin fór fram. Síðan 1947, að svona var ástatt, hafa öll þau tæki, sem ráðstafanir voru gerðar til að kaupa inn í landið á árunum 1945 og 1946, komið í gagnið. Allir togararnir hafa fyrst komið á árunum 1947 og árunum þar á eftir, meginið af hraðfrystihúsunum verið byggt, þjóðarauðurinn stórkostlega aukizt, atvinnutækjunum stórkostlega fjölgað, þjóðarframleiðslan hefur vaxið, þjóðartekjurnar hafa vaxið. En hefur skiptingin á milli stéttanna orðið réttlátari? Nei. Það, sem hefur komið í ljós við þær rannsóknir, sem þegar hafa verið gerðar, er að aðeins hvað sjálfan neyzluvarninginn snertir er afkoma verkamannsins í dag 17% lakari en hún var 1947. Þetta hefur minnkað hans hlutdeild í því að geta keypt neyzluvörurnar, og ef hans aðstaða til þess að borga húsnæði væri þar að auki reiknuð með, þá hefur hans hlutdeild í þjóðfélagsarðinum minnkað miklu meira.

Þess vegna er það svo, að frá 1947 hefur arðskiptingin orðið miklu ranglátari en hún var þá, og þess vegna stöndum við í þessari deilu, sem við stöndum í í dag. Þess vegna er það, sem stundum kemur upp hjá þeim mönnum, eins og skauzt fram í frammíkalli hv. 4. landsk. (GJóh) hér áðan, mönnum, sem hafa verið verkamenn alla sína ævi, mönnum, sem þekkja alla þá baráttu og hafa sjálfir staðið í þeirri baráttu, sem verkalýðurinn hefur staðið í síðustu 40 ár hér á Íslandi, — þess vegna kemur það upp hjá slíkum mönnum, einmitt verkamönnunum sjálfum, að það sé líklega aldrei hægt að fá atvinnurekendur til þess að skilja það, að verkamaðurinn sé verður launanna, að verkamaðurinn, sem skapar auðinn í þjóðfélaginu, eigi fyrst og fremst og í sífellu að fá betri og betri kjör og í sífellu réttlátari og réttlátari hlut af því, sem framleitt er. Það er þetta, að hafa orðið að heyja þessa ægilegu, hörðu baráttu, sem verkalýður Íslands hefur orðið að heyja síðustu 60 ár, frá því að verkalýðshreyfingin hér var mynduð, sem skapar þann hugsunarhátt hjá verkamönnum, að það sé aldrei hægt að komast að samkomulagi við atvinnurekendur nema með því að fara í hart. Og það er vert að muna eftir því, að því miður er ástandið þannig, að verkamenn á Íslandi hafa enn sem komið er aldrei fengið kjarabætur án þess að fara í hart, án þess að fara í meira eða minna löng verkföll. Á einstöku tímum í þjóðfélaginu, eins og t. d. 1944, tekst okkur að ná samningum, án þess að komi til mjög langvarandi verkfalla, og semjum vinnufrið í hálft annað ár.

Þetta væri máske öðruvísi, ef Alþ. hefði sýnt betri skilning á þessum málum. En ástandið hefur verið þannig hér á Alþ., að það hefur komið fyrir þrisvar sinnum á þeim stutta tíma, sem ég hef átt sæti á Alþ., í 17 ár, að Alþ. hefur sett lög um að draga úr þeim réttindum, sem verkamenn hafa haft, hefur með lögum rýrt þau kjör, sem verkamenn voru búnir að vinna sér. En það hefur aldrei komið fyrir, að Alþ. hafi með lögum fyrirskipað að hækka laun verkamanna — aldrei. Og meira að segja höfum við, bæði fulltrúar Alþfl. og Sósfl., ár eftir ár lagt fram frumvörp hér um hækkun á orlofsfénu, sem hefði verið hægt að vera búið að samþykkja margsinnis, en aldrei hafa einu sinni komið úr n. í þinginu. Ég vil segja það, að ef Alþ. hefði eins oft sett lög um að skylda atvinnurekendur til að hækka kaup verkamanna og það hefur gripið inn í til þess að banna kauphækkanir eða rýra launin, þá væri ef til vill hugsunarháttur margra verkamanna öðruvísi, því að þá væri þeirra bitra reynsla ekki sú sama sem hún er nú. Þess vegna var það, að ég var að mæla þessi varnaðarorð til atvinnurekenda, sem ég mælti áðan. Andersen Nexö segir einhvers staðar í sínum fræga róman, Peile Erobreren, skáldsögu verkalýðshreyfingarinnar, — lætur einn gamlan, reyndan verkamann segja: „Vorherre har altid været í lommen på de store“ — þ. e. „Guð almáttugur hefur alltaf verið í vasanum á þeim ríku.“ Og því miður hefur það verið þannig, að Alþ. hefur sýnt sig í því hvað eftir annað að grípa inn í gang málanna til þess að rýra kjör verkamanna, en aldrei til þess að hjálpa þeim. Og núna stöndum við frammi fyrir því, að atvinnurekendur, sem hafa allt sitt vald frá þjóðfélaginu, hafa allt sitt lánsfé frá þjóðfélaginu, hafa sín atvinnutæki að láni frá þjóðfélaginu, fá jafnvel vöruna, sem þeir verzla með, frá ríkisstj., eins og olíuhringarnir, neita að veita þjóðfélaginu þá þjónustu, neita t. d. að láta togara, sem gerðir eru út til að fiska, fá olíu, neita að semja við verkamenn um kauphækkun, sem þeir eiga kröfu á. Það er þessi bitra reynsla, sem skapar þá afstöðu hjá þeim verkamönnum, sem hafa reynslu heils mannsaldurs að baki, sem segir, að þó að við samþykkjum svona góðar tillögur eins og hérna eru, þá sé það víst ekki til neins, af því að atvinnurekendurnir eru alltaf að verða harðvítugri og harðvítugri. Við þurfum að sjá til þess hér á Alþ., að þessi afstaða stóratvinnurekendanna á Íslandi til atvinnulífsins og til vinnandi stétta breytist. Og við skulum nú, ef þeir fara ekki að átta sig, einu sinni grípa þannig inn í, að vinnandi stéttirnar finni það, að meiri hl. Alþ. standi einu sinni með þeim, en ekki með þeim stóru.