20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

156. mál, samvinnunefnd

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. — Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagðist ekki minnast þess, að það hafi komið fyrir, að Alþ. hefði með lögum fyrirskipað hækkun á launum verkamanna. Þetta mun nú sennilega vera rétt hjá honum. En ég vil minna hv. þm. á það, að hingað til hefur hvorki hann né ég talið það vera hlutverk Alþ. að kveða almennt nákvæmlega á um það, hvað stéttir þjóðfélagsins ættu að hafa í tímakaup. Ég er hræddur um, að minn hv. vinur, 2. þm. Reykv., yrði eitthvað öðruvísi á svipinn en hann er nú frá degi til dags, prúður og glaðlegur maður, ef núverandi stjórnarflokkar ætluðu að fara að setja lög um það, hvað kaupið ætti að vera á Íslandi. Það er þess vegna gersamlega út í bláinn mælt, sem hv. þm. sagði um þetta efni.

Á hitt vil ég benda, sem allir hv. þm. vita, að á hverju einasta Alþ. miðast mikill hluti löggjafarstarfsins við það að bæta aðstöðu þjóðarinnar, verkamanna og annarra, á marga vegu. Fyrir því Alþ., sem nú starfar, liggur fjöldi frumvarpa, sem einmitt miða að þessu. Síðast í gær var hér afgreitt við 2. umr. frv. frá ríkisstj., sem miðar að því að greiða nokkuð fram úr þeim vandræðum, sem mest eru hjá öllum almenningi í landinu og sérstaklega láglaunafólki, þ. e. a. s. húsnæðisvandræðunum.

Ég vil segja það, að þó að í þessu felist ekki kauphækkun, lög um það, að tímakaupið skuli hækka um 1 krónu eða 2 krónur, þá felur þetta frv. engu að síður í sér stórkostlega kjarabót fyrir almenning í landinu. (HV: Er það vaxtahækkunin?) Hv. 3. landsk. spyr, hvort það sé vaxtahækkunin. Nei, það er ekki vaxtahækkunin; það er það, að almenningur á að geta átt kost á því að fá allt að 100 þús. kr. lán út á íbúð í staðinn fyrir 25 þús. kr. og 30 þús. kr. á íbúð, eins og nokkrir menn í landinu hafa getað fengið á undanförnum árum.

Ég skal ekki fara að kappræða við hv. þm. um þetta og misnota þar með trúnað hæstv. forseta. En ég vil að lokum segja það, að hv. 2. þm. Reykv. vitnaði hér í danska setningu eftir góðan danskan rithöfund, að „Vorherre“ væri oftast í „lommen på de store“.

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja, hvort það hvarflaði nú ekki að a. m. k. einstaka hv. þm., að hv. 2. þm. Reykv. kynni einhvern tíma að hafa smokrazt niður í vasa á „de store“. Það hefur nefnilega heyrzt, að það væru til einhverjir „stórir“, sem það henti að hv. 2. þm. Reykv. lenti niðri í vasanum á. Og þetta er ekki mín einkaskoðun; þetta er skoðun mikils meiri hluta okkar þjóðar.