20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (2606)

156. mál, samvinnunefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. (SB) lýsti því hér yfir, að það væri ekki hans skoðun, að Alþ. ætti að skipta sér af kaupgjaldsmálum verkamanna. En hans flokkur, Sjálfstfl., hefur þrisvar sinnum, á meðan ég hef átt sæti hér á Alþ., með lögum ákveðið, hvaða kaup verkamönnum skyldi greitt, 1939, 1942 og 1947, þannig að hv. þm. N-Ísf. virðist vera búinn að gleyma gerðum Sjálfstfl. og allra þm. hans, þegar hann mælir þessi orð. Öll þessi afskipti Sjálfstfl. af kaupgjaldi verkamanna hér á Alþ. hafa miðað í þá áttina að rýra kaupgjaldið, að banna hækkun á kaupgjaldi, að svipta verkamenn ekki aðeins kaupgjaldi, heldur meira að segja réttinum til þess að reyna að hækka kaupgjald. Og í einum af þessum lögum var svo hart að kveðið, að það lá við, ef verkföll yrðu gerð, að sjóðir verkalýðsfélaganna yrðu gerðir upptækir og forustumenn verkalýðsfélaganna settir í fangelsi; það voru gerðardómslögin í janúar 1942. Þannig höfum við aldrei, sósíalistar, þurft að taka hér afstöðu til annarra frv. frá hálfu Sjálfstfl. eða þeirra, sem með honum hafa staðið, en þeirra, sem hafa miðað í þá átt að rýra kaupgjald verkamanna. Það eru þau einu afskipti af kaupgjaldinu, sem Sjálfstfl. hefur verið reiðubúinn til þess að hafa hér á Alþingi.

Hitt, að gera ráðstafanir á einn eða annan hátt til þess að hækka kaupgjald verkamanna, höfum við verið reiðubúnir til að gera, þó að það væri ekki í því formi að hafa afskipti af samningum á milli atvinnurekenda og verkamanna. Það hefur verið hægt að gera slíkt með ýmsu öðru formi. Orlofið er ráðstöfun, sem raunverulega þýðir kaupgjaldshækkun fyrir verkamenn, en ákaflega vel er hægt að fyrirskipa með lögum og var gert hér á Alþ., að vísu eftir að verkamenn höfðu knúið fram, að slíkt skyldi framkvæmt, í samningum á milli atvinnurekenda og verkamanna.

Sömuleiðis hefur verið möguleiki nú í 7 ár fyrir Sjálfstfl. til að samþ. okkar frv., sem Alþfl.- og Sósfl.-þingmenn nú flytja saman um atvinnuleysistryggingar, sem líka hefðu raunverulega þýtt, þegar til lengdar lét, batnandi lífskjör og þar með það, sem jafngildir kauphækkun fyrir verkamenn.

Hér á Alþ. hafa líka legið fyrir ár eftir ár till. um vökulög. Og meira að segja, ef Alþ. hefði á sínum tíma samþykkt frumvörpin um vökulögin, sem lágu fyrir bæði frá Alþfl. og Sósfl., þá hefði verið afstýrt einni harðvítugustu og lengstu kaupdeilu á togurunum, sem var eitt sumarið fyrir nokkrum árum. Þannig hefur Alþ. og þar með Sjálfstfl. haft tækifæri til þess að leggja lið sitt að því að bæta þannig kjör verkamanna, þó að ekki væri með því, sem mér virðist nú hv. þm. N-Ísf. vera á móti, að skipta sér af samningum á milli verkamanna og atvinnurekenda, nema þá að það væri til þess að hjálpa atvinnurekendum á móti verkamönnum. Það er það eina, sem Sjálfstfl. hefur gert með slíkum afskiptum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. N-Ísf. var að minnast á að núna gengi fyrir sig hérna á þinginu, vil ég bara minna hann á, að hér höfum við nú dag eftir dag staðið í deilum vegna þess, að það er verið að svipta verkamenn réttindum, sem þeir eru búnir að hafa í 25 ár. Það er verið að hækka vextina til byggingarsjóðs verkamannabústaðanna, sem hafa þó staðið óbreyttir í 25 ár, og þegar svo samtímis er verið að hækka alla vexti til íbúðarhúsabygginga upp í 7% á þeim almenna markaði, þá er það sannarlega ekki dæmi til þess að nefna um, að Alþ. sé að gera eitthvað fyrir verkamenn.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. N-Ísf. sagði síðast, þá er það nú ekkert nýtt. Ég vil aðeins minna hann á í því sambandi, að ég flutti fyrir eitthvað 10–11 árum nokkrar tillögur viðvíkjandi atvinnulífinu og hvað við gætum gert og ráðstafanir m. a. um að taka allmikla sjóði, sem Ísland ætti, til þess að kaupa atvinnutæki. Hvert var svar þeirra manna, sem hugsa eins og hv. þm. N-Ísf. lýsti? Svar þeirra var, að þessi ráð, nýsköpunin svokallaða, væru Lokaráð við þjóðfélagið, væru banaráð kommúnista við lýðræðið, ætluð til þess að grafa grundvöllinn undan öllu heilbrigðu þjóðlífi, vegna þess að það eina, sem ætti að gera þá í þjóðfélaginu, væri að lækka kaup verkamanna. Svona var tekið í þær tillögur, sem ég bar fram 1944. Svona var rætt um þær þá um sumarið í aðalblaði atvinnurekendanna hér í Reykjavík, sem nú eru æstastir í þessari deilu, Vísi.

Ég held þess vegna, að hv. þm. N-Ísf. og hans félagar ættu að tala gætilega um, að allt það, sem ég eða við sósíalistarnir minnumst á, væri úthugsað einvörðungu frá sjónarmiði Rússa eða annarra slíkra. Nýsköpunin var stimpluð þannig í upphafi, og hluti af Sjálfstfl. vildi ekki vera með henni, ekki einu sinni styðja stjórn síns eigin formanns vegna þess. Svona var óttinn; svona var grýlan. Við þurfum að losna við þessa grýlu úr okkar þjóðlífi. Og hv. þm. N-Ísf. gerði meira að segja ef til vill atvinnurekendunum — og þeim einum virðist nú Morgunblaðið vilja þjóna — greiða með því að fara að reyna að koma þeim sjálfum í skilning um þetta.