13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2616)

55. mál, atvinnumál í Flateyjarhreppi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að mér kom þessi yfirlýsing hv. frsm. ákaflega einkennilega fyrir. Ég hef ekki skilið þetta mál þannig áður, því að ef það er meiningin að afhenda frystihúsið Flateyjarhreppi með áhvílandi skuldum, þá eru þær skuldir miklu meiri en nokkrum manni dytti í hug að kaupa húsið fyrir í dag, og mér hefur aldrei skilizt á hv. form. n., að það hafi verið meiningin. Ég verð að segja það, að ef það er skoðun n. og hæstv. ríkisstj., að ekki megi afhenda húsið á annan hátt, þá er þessi þáltill. einskis virði, því að þá þurfti enga till. út af fyrir sig. Þá var ekkert annað en gera samninga við hæstv. ríkisstj. um að kaupa húsið og yfirtaka allar skuldir. Ég hef einmitt skilið hv. formann n., þegar við höfum rætt um þetta mál, þannig, að hann teldi óviturlegt að afhenda húsið sem gjöf, heldur að það yrði afhent með einhverju sanngjörnu verði. Og í því sambandi hef ég m. a. rætt um það við viðkomandi skrifstofustjóra, að mér þætti ekki ólíklegt, að það yrði samkomulag við hreppsnefndina um að taka að sér húsið með einhverjum áhvílandi skuldum, þó að það séu ekki allar skuldirnar. En sé það skoðun hv. fjvn., að hér beri aðeins að afhenda húsið með öllum áhvílandi skuldum, þá óska ég mjög eftir því, að þessu máli verði frestað og málið tekið út af dagskrá, því að það er vitanlega alveg sama sem að drepa tillöguna. Það er einskis virði að samþ. till. um að heimila ríkisstj. að afhenda þessa eign Flateyjarhreppi, sem hefur ekkert fé til þess að reka eignina, með áhvílandi skuldum, sem munu vera allt að 2 millj. kr. Ég veit, að hv. formaður n. sér, að það er engin lausn á málinu, og kemur mér þessi yfirlýsing mjög einkennilega fyrir sjónir.

Munurinn á orðalaginu í brtt. n. og orðalaginu hjá mér er sá, að ég hef ætlazt til þess, að húsið yrði afhent alveg kvaðalaust, en eftir orðalagi till. nefndarinnar er ljóst, að það er mál á milli hreppsnefndarinnar og hæstv. ríkisstj., með hvaða skilyrðum húsið yrði afhent. En eftir þá yfirlýsingu, sem komið hefur hér frá hv. formanni, óska ég mjög eftir því, að málinu sé frestað. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið hér meira að þessu sinni, en mun ræða um það, þegar það verður tekið næst fyrir. Óska ég, að hæstv. forseti taki það út af dagskrá.