13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

98. mál, Geysir

Pétur Ottesen:

Eins og um getur í nál., leitaði fjvn. umsagnar fræðimanna á þessu sviði, og töldu þeir eðlilegt, að þeirri n., sem falin hefur verið nokkurs konar forsjá Geysis, yrði falið að rannsaka það, sem í till. greinir. (Gripið fram í.) Þeir eru fimm eða sex, ég man nú ekki öll nöfnin, en ég skal láta hæstv. ráðh. þetta í té mjög bráðlega. Af því að ég er ekki frsm. málsins, hef ég ekki öll gögnin hér hjá mér, en hæstv. ráðh. skal fá úr þessu leyst. Í n. eru menn, sem ýmist eru fræðimenn á þessu sviði eða þá alveg sérstaklega áhugasamir um allt, sem snertir náttúru þessa lands, vernd hennar og fegurð.

Geysir er vissulega mjög sérstætt fyrirbæri, og þar sem nokkuð hefur nú dregið úr gosum upp á síðkastið og orðið hefur að gera ráðstafanir til þess, að hann þjónaði sinni fornu náttúru við gosin, þá er að sjálfsögðu fullkomlega athugunarvert, að rannsakað sé, eftir því sem þekking manna nær nú til, hvað hægt væri að gera til þess að vernda þetta merkilega og einstæða náttúrufyrirbæri.

Fjvn. varð þess vegna sammála um að breyta orðalagi till. þannig, að hún yrði orðuð svo, að Alþ. ályktaði að skora á ríkisstj. að fela Geysisnefnd að láta rannsaka, hvað gera megi til þess, að Geysir haldi sérstöðu sinni sem náttúrufyrirbæri, og væntir fjvn. þess, að hv. Alþ. geti verið því samþykkt, að ríkisstj. sé falið að gera þessar ráðstafanir.