13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

98. mál, Geysir

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins geta þess, að ástæðan til þess, að ekki þótti þörf á því að hafa í þessari till. heimild til að verja fé í þessu skyni, var sú, að eftir að málið væri komið í hendur Geysisnefndarinnar, sem á sjálfsagt samkvæmt tilgangi sínum að vinna að því að vernda Geysi, væri ekki ástæða til að halda eftir í till. slíkri heimild. Þó leiðir af sjálfu sér, að e. t. v. þyrfti að greiða einhvern kostnað í þessu sambandi. En ég verð að segja það, að nefndin gerði ekki ráð fyrir svo miklum kostnaði, að ríkisstjórn vor mundi verða sett í mikinn vanda, þó að hún léti af hendi rakna einhverja smáupphæð í þessu skyni. Og ég held, að hæstv. ráðherrar þurfi ekki að kvarta yfir sambúðinni við Alþingi í sambandi við það, þegar þeir hafa nokkuð farið fram yfir sínar heimildir, hæstv. ráðh. þurfi ekki að vera ákaflega kvíðandi eða uggandi um. framtíð ríkisstj., þó að hún léti af hendi rakna nokkrar krónur til þess að vernda þetta merkilega náttúruundur á Íslandi. Ég held því, að það sé alveg óhætt allra hluta vegna að samþykkja tillöguna.