10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

197. mál, niðursuða sjávarafurða til útflutnings

Frsm. (Pétur Ottesen):

Út af ummælum hv. þm. Ísaf. (KJJ) vil ég geta þess, að ég sagði ekki annað en það, að tilraunir þær, sem hefðu verið gerðar, hefðu ekki borið árangur. Þetta styð ég við útflutningsskýrslurnar, sem fyrir liggja og sýna, að á árinu 1951 voru fluttar út niðursuðuvörur fyrir 2 millj. 631 þús. kr., á árinu 1952 fyrir 1 millj. 660 þús. kr., á árinu 1953 fyrir 940 þús. og á árinu 1954 fyrir 814 þús. Þetta sýnir, að það er öfugþróun í þessum atvinnuvegi, að því er snertir útflutning á niðursuðuvörum, og hér þarf þess vegna vissulega að gera nýtt átak, ef við eigum að geta kippt þessu í lag, sem mikla nauðsyn ber til.