11.05.1955
Sameinað þing: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

200. mál, leit að fiskimiðum fyrir Norðurlandi og Austfjörðum

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur, þegar þessi till. var til fyrri umr. hér. Mér kemur hún dálítið undarlega fyrir sjónir. Till. er um það, að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að fram fari skipulögð leit að nýjum togaramiðum fyrir norðan land og austan og kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Nú er það svo, að ríkisstj. hefur til umráða í þessu skyni nokkurt fé, og það er víst hálfur mánuður eða um það bil síðan hæstv. fjmrh. benti mér á þessa þörf og mæltist sérstaklega til, að ég, sem fer með valdið f. h. ríkisstj. í þessum efnum, hlutaðist til um, að slík leit færi fram. Hann tjáði mér, að skipstjórinn á botnvörpungnum Austfirðingi, sem er aflamaður og mætur skipstjóri, hefði lagt mjög mikla áherzlu á, að þessi leit væri framkvæmd, og talið, að það mundi verða til úrbóta fyrir togaraútgerðina á Austurlandi. Ég tjáði fjmrh., að mér væri ljúft að verða við þessari ósk, og hélt ég þá sannast sagna, að málinu væri til lykta ráðið.

Mér hafði um svipað leyti borizt símskeyti frá Vestmannaeyjum, þar sem Vestmanneyingar fóru fram á, að leitað væri að fiskimiðum á þeirra fiskislóðum, og ég held, að tveimur dögum eftir að sú beiðni kom, hafi Ægir verið kominn þangað í slíka leit. Hún bar einhvern árangur og vonandi meiri í framtíðinni.

Þessi till. er frá mínu sjónarmiði meinlaus og gagnslaus. Það er það góð samvinna innan ríkisstj., að þegar fjmrh. fer fram á slíkt sem hér er mælzt til í þáltill. og færir fyrir þau rök, sem hann gerði, þá er það alveg sjálfsagt, eins og ég tjáði honum, að taka það til greina. Það er þess vegna óþarfi að flytja um það þáltill. nokkrum dögum eftir að þetta er afráðið milli hans og mín.

Ég hef séð einnig í einhverjum af blöðunum, að þetta þykir mikið merkismál, og ég tel, að það sé mikil nauðsyn á, þjóðarnauðsyn, að svona áríðandi samtöl, sem fara á milli fjmrh. og mín um þjóðþrifamálin, birtist í blöðunum sem fregnir af því, hvað margt þarft og ágætt ríkisstj. aðhefst.

Mér fannst rétt að láta þessa getið hér, um leið og þessi till. fær afgreiðslu, að hún er að því leyti meinlaus og gagnslaus, að hún hefði orðið framkvæmd af minni hendi, vegna þess að fjmrh. hæstv. benti mér á nauðsynina og færði fyrir henni rök, og get ég þar af leiðandi ekki haft neitt á móti till., en hún er málinu að því leyti óviðkomandi, að það hefði siglt heilt í höfn, hvað sem henni leið.