11.05.1955
Sameinað þing: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

200. mál, leit að fiskimiðum fyrir Norðurlandi og Austfjörðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég gat ekki verið við fyrri umr. þessa máls, en ég get tekið undir það, sem hér kom fram hjá hæstv. forsrh., að ég er einn af þeim, sem urðu heldur hissa, þegar ég sá þessa þáltill. Það liggur sem sagt fyrir, að Alþ. hefur gert samþykkt um málið, þar sem ríkisstj. hefur verið falið að annast þetta verk. Ég hafði hér tvívegis áður flutt till. um það, að efnt yrði til skipulegrar fiskileitar á djúpmiðum í kringum landið, og árangurinn af þessum till. mínum var m. a. sá, að fjvn. tók mína till. í síðara skiptið, sem ég flutti hana, ásamt till. frá hv. þm. Borgf. (PO) og sameinaði þær í eina till., og þetta var samþ. á Alþ. En það hafði gerzt meira í þessu máli en aðeins það að veita hér formlega samþykki til þess að annast þetta verk. Á seinni hluta s.l. sumars hóf ríkisstj. framkvæmdir í þessum málum. Þá var efnt til fiskimiðaleitar við Austur-Grænland og togari tekinn á leigu, og þar var leitað eftir fiskimiðum, sem bar ágætan árangur. Um þetta leyti ræddi ég um þessi mál við hæstv. forsrh., sem lofaði þá, að það yrði einnig framkvæmd leit fyrir Austurlandi og Suðausturlandi samkv. dómi þeirra manna, sem þarna þekktu bezt til. Í framhaldi af þessu og samkvæmt ráðleggingum hans ræddi ég við fiskimálastjóra, Davíð Ólafsson, um framkvæmdir í málinu, en hann hafði einmitt gefið sig að þessum málum fyrir hönd ríkisstj. Ég ræddi einnig við dr. Hermann Einarsson, þann fiskifræðing, sem hafði farið í fyrri leitir með botnvörpuskipum í þessu skyni, og lýsti hann yfir því, að það mundi ekki standa á honum að fara með skipinu. Enn fremur var það svo vitað, að hafinn var undirbúningur að því að breyta fiskirannsóknarskipi ríkisins og varðskipi, Ægi, þannig, að hann yrði allvel útbúinn að togveiðarfærum til þess að geta framkvæmt leitina, og þetta hefur allt saman legið fyrir.

Ég fyrir mitt leyti hafði eftir þessum undirtektum öllum tilkynnt það alveg hiklaust í blaði, sem ég stend að að gefa út í mínum fjórðungi, að þessi fiskimiðarannsókn fyrir Austurlandi yrði framkvæmd og að fyrir lægju skýlaus loforð um það. Við höfum ekki efazt um, að þetta mundi verða gert. Nú kemur hins vegar fram þáltill. hér um það að skora á ríkisstj. að láta gera þetta. Það er út af fyrir sig gott og blessað mál, og ekki skal ég vera á móti því, að þessi fyrri samþykkt Alþ. sé endurtekin hér og enn á ný skorað á ríkisstj. að gera það, sem hún hefur tvímælalaust lofað að láta gera og mér er kunnugt um að hún hefur hafið undirbúning að.

Ég tel fyrir mitt leyti, að það sé von til þess, að eitthvað kunni út úr þessu að koma, málið er búið að hafa sinn eðlilega undirbúning og sinn eðlilega gang. Nú hefur það jafnvel fengizt hér fram í þessum umr. til viðbótar, að hæstv. fjmrh. er farinn að lofa peningum í þessu skyni til viðbótar við það fé, sem til þessa var beinlínis veitt á fjárl., sem voru 300 þús. kr., og þá skal maður vona, að eitthvað kunni út úr þessu að koma.

Ég skal svo ekki rekja það frekar, sem ég hef gert hér áður, hvernig þessi mál annars liggja við. En það er skoðun flestra togaraskipstjóra, að það sé aðkallandi mál að leita hér á djúpmiðunum í kringum landið, einkum á svæðinu suður fyrir land og norður undir Langanes, þar séu miklar líkur til þess, að finna megi ný karfamið, sem yrðu hagstæð fyrir fiskveiðaflotann.

Ég vil svo vona, að þessi till. verði samþ. aðeins sem ítrekun á málinu, en annað getur hún ekki þýtt.