15.12.1954
Efri deild: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá var í lok síðasta Alþ. skipuð n., sem skyldi athuga hag togaraútgerðarinnar og gera till. til úrbóta fyrir útveginn, ef n. teldi að rannsökuðu máli til þess ástæðu. Þessi n. vann sitt starf vel og dyggilega og skilaði allýtarlegu áliti um rannsóknir sínar ásamt till. í höfuðefnum til ríkisstj., ef ég man rétt, í ásústmánuði s.l. ríkisstj. fjallaði um málið einnig á nokkuð stuttum tíma, enda stóðu sakir þannig, að togararnir voru bundnir í höfn og ekki talið líklegt, að útgerð þeirra mundi hefjast að nýju, nema einhver úrræði yrðu fundin til þess að bæta hag þeirra.

Ríkisstj. gaf svo út brbl., þar sem í meginefnum var farið eftir þeim leiðbeiningum, sem n., sem um málið fjallaði, hafði gefið.

Ég sé nú ekki ástæðu til að rekja þetta nál. ýtarlega, þar sem ég veit, að öllum eða a.m.k. flestum hv. þdm. er í aðalefnum kunnugt um þær upplýsingar, sem n. gaf, og þær till., sem hún gerir. Meginefni málsins var, að n. taldi, að samkvæmt fengnum reikningum frá togurum, endurskoðuðum af þar til hæfum opinberum endurskoðanda og rannsökuðum af sjálfum nefndarmönnunum, mundi vera nauðsynlegt að bæta hag skipanna um 900–950 þús. kr. á ári. Ætlað var, að þessar bætur fengjust sumpart með framlagi úr ríkissjóði, en sumpart með hækkuðu afurðaverði og lækkuðum tilkostnaði. Mig minnir, að það væri um 250 þús., sem síðari liðurinn átti að gefa, þ.e.a.s. lækkaður tilkostnaður og hækkað afurðaverð, en a.m.k. milli 600 og 700 þús. fengjust þá af almannafé með einum eða öðrum hætti. Og ríkisstj. hné að því ráði að ákveða að leggja innflutningstoll á bíla til þess að standa undir þeim hluta kostnaðarins, sem átti að greiðast af opinberu fé, og gaf út um þetta brbl., sem hér eru nú til umr. nokkuð breytt, en þó ekki í aðalefnum, í meðferðinni í hv. Nd.

Ég vil leiða athygli hv. þdm. að því, að nokkuð skortir á, að þeirri hlið hagsmunamála útvegsins hafi enn fengizt framgengt, sem átti að tryggja með hækkuðu afurðaverði og lækkuðum tilkostnaði, og hefur þó hækkun afurðaverðsins nú náðst fram, sumpart fyrir atbeina ríkisstj., sem nokkurn veginn, held ég, jafngildir því, sem gert var ráð fyrir í till. n. eða athugunum n. Hins vegar hefur gengið miður með niðurfærslu kostnaðar, enda verð ég fyrir mitt leyti að segja, að ég hafði ekki mikla trú á, að sú hliðin mundi gefa útgerðinni mikið í aðra hönd. Þeir liðir allir, sem þar var um að ræða, námu ekki meiru til samans en 165 þús., að ég hygg, og af því átti niðurfærsla á olíu að nema 30 þús. Sú niðurfærsla hefur nú þegar fengizt og var raunar fengin, þegar nál. var samið, þannig, að olíufélögin höfðu endurgreitt viðskiptamönnum sínum eitthvað svipaða upphæð, án þess að sú greiðsla hefði komið fram í útgjaldaáætluninni, sem lögð var til grundvallar, þegar rannsóknin fór fram. Aðrir liðir voru niðurfærsla á vátryggingargjöldum, sem ríkisstj. getur engu um ráðið, einnig niðurfærsla á farmgjöldum á hraðfrystum fiski, sem átti að koma sérstaklega til framdráttar togaraútgerðinni og ríkisstj. illa getur skipt sér mikið af. Til jafnvægis við þetta vil ég þá einnig skýra frá því, að í nál. var gert ráð fyrir og falið inni í þeim 950 þús. kr., sem talið var að þyrfti að bæta hverju skipi, fyrningarkostnaði, sem nemur 250 þús. kr. á hvert skip. Það er náttúrlega alveg rétt, að þegar er að ræða um útgerðina með langt árabil fyrir augum, þá er hún sem allur annar atvinnurekstur óheilbrigð, geti hún ekki af sínum eigin tekjum fyrnt sín framleiðslutæki og þannig safnað sér í sjóði til að endurnýja þau, þegar þau eru úr sér gengin og ekki lengur nothæf. En ég sagði það í Nd. og get vel sagt það hér, að ég er í vafa um, hvort ég sem útgerðarmaður hefði þorað að bera það fram á þessu stigi málsins, að ríkisframlag kæmi til móts við fyrningarkostnað, og vil ég þá sjá, hvort aukin reynsla, e.t.v. meira aflamagn eða breytt verðiag gæti ekki bætt svo aðstöðuna, að ekki þyrfti að fara fram á, að slík gjöld væru greidd af opinberu fé: En það sýnir a.m.k. hug n., sem að þessu máli starfaði, annars vegar og ríkisstj. hins vegar, að þessi till. var fram borin og samþ. af ríkisstj. og tekin upp í brbl. Það sýnir hug þessara aðila til útgerðarinnar, að hann hefur sízt verið kaldur, að slík málsmeðferð var viðhöfð, og tek ég þetta sérstaklega fram vegna þess, að nokkuð hefur verið deilt á ríkisstj. í meðferð málsins í Nd. fyrir, að hún hafi ekki nógsamlega tekið til greina þarfir útgerðarinnar við lausn þessa máls. Af þeim sökum hafa einstakir menn og jafnvel úr n., sem um þetta mál fjallaði, borið fram till. um aukinn styrk útgerðinni til handa, eins og hv. þm. hafa séð af þeim brtt., sem fluttar voru í Nd. við frv.

Ég hef leyft mér að halda því fram í Nd., að þegar slík rannsókn hefur farið fram fyrir atbeina ríkisstj. og innt af hendi af hinum hæfustu mönnum og þ. á m. af þremur alþm., sem allir eru gerkunnugir útgerð, — á ég þar við hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), hv. 5. landsk. (EmJ) og hv. 11. landsk. (LJós), — og þegar bornar hafa verið fram tillögur til úrlausnar af þessum mönnum, þá er ekki að vænta, að ríkisstj. geti án undangenginnar nýrrar rannsóknar lagt til grundvallar eitthvað allt annað fyrir sínum till. heldur en þessir mætu menn lögðu til. Og ég tel, að ríkisstj. geti ekki verið lögð undir ámæli fyrir skort á vilja til þess að bæta úr örðugleikum útgerðarinnar, þegar hún í öllum aðalefnum hefur fylgt till. þessara manna, þó að hún vilji ekki nú beita sér fyrir nýjum og auknum uppbótum útgerðinni til handa eingöngu vegna þess, að útgerðarmenn hafa nú borið fram óskir um slíkar bætur og e.t.v. fært nokkur rök fyrir, að þeirra sé þörf.

Ég hef leyft mér í Nd. að leiða athygli að því, að alveg eins og þessir mætu menn töldu í ágústmánuði, þegar þeir fluttu þær till., að árlegt framlag eða árlegar úrbætur að upphæð 950 þús. á skip mundu nægja, en að nú er hins vegar talið, að þessi upphæð þurfi að hækka, kannske um hálfa milljón, þá geti vel svo farið, að eftir nokkra mánuði sé orðin ný breyting í þessum etnum og þá á hinn veginn, til bóta, svo að jafnvei þyrfti ekki eins miklar uppbætur og frv. fer fram á, hvað þá meiri.

Um þetta má að sjálfsögðu að eilífu deila. Ég get ekki neitað því, að mér er kunnugt um afkomu ýmissa skipa, sem er það bágborin, að þær bætur, sem hér er farið fram á, nægja ekki í bili, sérstaklega ekki eins og afkoman hefur verið á þessu ári. En mér er líka kunnugt um skip, sem hafa svo góða afkomu, að þau þyrftu engar bætur.

Ríkisstj. sá sér samt ekki fært að leggja inn á þá braut að flytja till. um, að þeir fengju bætur, sem minnst öfluðu, en hinir, sem bezt öfluðu og sízt þyrftu bótanna við af þeim ástæðum, fengju engar bætur, einfaldlega vegna þess, að með þeim hætti mætti segja, að málinu væri teflt inn í þann farveg, að þeir, sem raunverulega bera ábyrgðina, útgerðarmaðurinn og sjómennirnir, þyrftu ekki að leggja sitt lið fram eða mikið af mörkum, af því að ríkið borgaði það, sem þeir ekki borguðu, ríkið greiddi það, sem þeim kynni að hafa láðst að inna af hendi með góðri stjórn á sjó og landi. Það er auðvitað braut, sem er hættulegt að leggja inn á, þegar sagt er við menn: Aflið þið lítið eða mikið, ettir því sem ykkur fellur bezt, stjórnið ykkar fyrirtæki vel eða illa, eftir því sem ykkur hentar, því að ríkið sér um, að það skuli ekki að neinu leyti ganga út yfir ykkur. Það fá allir jafnt, hinir réttlátu og hinir ranglátu, í þeim efnum.

Nú hefur nokkur ágreiningur verið um það, hver útgjöld leiði af þessu frv. eins og það nú liggur fyrir og hverra tekna sé von af þeim tekjustofnum, sem fengnir hafa verið þeim sjóði, sem á að standa undir útgjöldunum. Ég vil aðeins upplýsa, að innflutningsskrifstofa ríkisins hefur getið ríkisstj, þá skýrslu, að ætla megi, að þessi bílaskattur muni gefa af sér á árunum 1954 og 1955 tæpar 30 millj. Gjöldin, sem líklegt er að leiði af þessum ákvæðum, eru hins vegar á sama tíma 39 millj., á þessu ári 42 millj. og næsta ári 21 millj., ef miðað er við 2 þús. kr. á dag á skip í uppbætur úr þessum sjóði og útgerðardagarnir eru ætlaðir 315, sem kann nú að vera nokkuð mikið í lagt.

Ég tel þess vegna, að það séu fremur líkur til, að sjóðnum verði fjár vant, þó að uppbæturnar séu ekki hækkaðar frá því, sem nú er, heldur en hitt, að óhætt sé að hlaða á hann meiri kvöðum að óbreyttum tekjum. Ég játa að sönnu, að enginn er bær um á þessu stigi málsins að úrskurða með neinni vissu, hver bílainnflutningurinn verður á næsta ári, og þar af leiðandi heldur ekki, hverjar tekjur verða af þeim innflutningi og tollinum, sem á honum hvílir. Ég viðurkenni einnig, að nokkuð kann að mega lækka þessa tölu, 39 millj., sem ég nefndi, útgjaldahliðina, út frá því sjónarmiði, að útgerðardagarnir verði færri en þetta. En tæplega geri ég nú ráð fyrir, að sú lækkun mundi nema meira en 1–3 millj. kr. í hæsta lagi, og er auðvitað ekki æskilegt, að sú lækkun kæmi fram, því að það æskilegasta er, að útgerðardagarnir séu sem flestir. Með því verður atvinnan mest, og þjóðarbúið fær þá mestar tekjur.

Það kom til greina við málsmeðferðina í Nd., að sett yrði inn í frv. ákvæði um, að dýrtíðarsjóðsgjald af bílum væri einnig látið falla til þessa sjóðs, og sá, sem hélt fastast á því, hv. 11. landsk., ætlaði, að með því móti fengi sjóðurinn 12 millj. kr. tekjur, ef væri miðað við bæði árin 1954 og 1955. Ég leiddi hins vegar rök að því þar og tel ástæðu til að upplýsa það hér, að sá útreikningur er á misskilningi byggður, og misskilningurinn stafar af því, að þetta dýrtíðarsjóðsgjald hefur aldrei verið tekið af sendiferðabílum, sem eru mjög verulegur hluti af innflutningi þeirra bila, sem hér um ræðir, og auk þess hefur verið heimild í l. og notuð undanfarin ár að geta eftir dýrtíðarsjóðsgjaldið til atvinnubílstjóra. Tekjur af því ákvæði að óbreyttri framkvæmd þess yrðu þess vegna ekki 6 millj. kr. á ári, eins og hv. 11. landsk. hélt fram í sinni fyrri ræðu í Nd. við 2. umr. málsins að það mundi verða, heldur eru líkur til, að tekjurnar yrðu rúmar 2 millj. kr. á ári. Það breytir þess vegna ekki miklu um möguleikana til að hækka, ef menn vildu það, framlagið til hvers togara, þó að dýrtíðarsjóðsgjaldið væri látið falla sjóðnum. Skal ég í því sambandi aðeins minna á, að till., sem fram kom í Nd. um að hækka um 1000 kr. daguppbæturnar til hvers togara, mundi kosta sjóðinn um 13 millj. í viðbót við þær kvaðir, sem á honum hvíla, að óbreyttu því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég er meðal þeirra manna, sem mundu njóta góðs af hækkuðu framlagi til togaranna, en eins og ég sagði í Nd., er ég einnig meðal þeirra, sem eiga að bera ábyrgð á því, ef þetta framlag er hækkað, að afla þá tekna til þess að standa undir þeim útgjaldaauka. Ég hef því þurft eins og aðrir þm. að velja á milli þess, hvort ég vil leggja nýja skatta á almenning nú, áður en frekari rannsókn hefur farið fram á aðstöðunni, eða hins vegar láta standa við þær aðgerðir, sem ríkisstj. gerði að fengnum till. hæfustu manna og staðfesta á í þessu frv. Ég hef valið þann kostinn að taka ekki á mig ábyrgð tillagna um aukna skatta á alþýðu manna, fyrr en fyrir liggur, að það sé alveg óumflýjanleg nauðsyn. Ég tel ekki, að menn megi haga aðgerðum sínum í slíku máli út frá því, að upplýsingar liggja fyrir í ágústmánuði, sem þá voru ekki vefengdar af dómbærustu mönnum, en nú er talið að standist ekki vegna nýrrar reynslu nokkurra mánaða. Ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að hugsanlegt er, að eftir nokkra mánuði sé komin enn ný reynsla, sem telur ekki svo mikilla bóta þörf sem hér er farið fram á, hvað þá meiri. Ég tel ekki, að menn megi í þessum efnum fara eftir því, hvaða kröfur eru bornar fram frá degi til dags. Hér er um svo miklar kvaðir að ræða á almannafé, að það verður að hafa alla varfærni í þessum efnum. Ég tel mér þess vegna ekki fært að mæla með öðru eða meiru í bili eða að óbreyttum kringumstæðum heldur en hér er mælt með.

Ég var spurður um það í Nd., hvort ríkisstj. vildi gefa fyrirheit um, að þegar þing kemur saman eftir þinghléið muni hún bera fram einhverjar nýjar till. til úrbóta í þessum efnum. Ég 1ýsti því yfir, að ég treysti mér ekki til að gefa neitt fyrirheit um það.

Ég viðurkenni það, að þessi meðferð málsins, sem hér er við höfð, og þessi ákvæði, sem hér eru fram borin, þó að staðfest verði, er ekki endilega endanleg afgreiðsla þessa máls, frekar en önnur frv., sem hér eru borin fram, þurfa að vera endanleg afgreiðsla þeirra mála, sem þau fjalla um. Breyttar kringumstæður geta kallað á breyttar aðgerðir, og ég játa fúslega, að það dýrasta fyrir þjóðfélagið er, að þessi stórvirku framleiðslutæki liggi óvirk, bundin í höfn. En ég segi það einnig, að ég vil reiða mig á það, að svo ágæt stétt sem útgerðarmennirnir eru geri ekki leik að því og geri það ekki fyrr en í fulla hnefana að leiða böl atvinnuleysisins yfir landslýðinn með því að binda við hafnargarðinn þessi stórvirkustu framleiðslutæki landsmanna. Ég geri útgerðarmönnum engar getsakir í þessum efnum, og ég játa fullkomlega, að mér er kunnugt um þrengingar þeirra. Það, sem úr sker, er bara þetta, að það er ekki hægt að mínum dómi, rétt eftir að slík rannsókn hefur farið fram, að láta sem ekkert hafi skeð í málinu og að það eigi að hafa úrslitagildi fyrir ákvarðanir Alþ., þó að haustmánuðirnir hafi verið útgerðarmönnum vonbrigði, því að viðhorfið gæti breytzt aftur á vormánuðunum.

Ef menn vilja hækka framlögin til styrktar útgerðinni, þá verða þeir að vera reiðubúnir að ákveða, í hvaða formi almenningur á að borga þann styrk. Menn verða að gera sér það ljóst, að það rignir ekki manna og ekki gulli af himnum ofan í greipar okkar hér á þinginu eða í hirzlur ríkissjóðs. Peningarnir, sem við erum að útbýta, eru þjóðarinnar eign, og við verðum að gera okkur fulla grein fyrir því, á hvaða hluta þjóðarinnar og í hvaða formi á að leggja þá skatta, sem þörf verður á, ef styrkurinn til útgerðarinnar verður hækkaður umfram það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég játa svo fúslega, að þau fáu orð, sem ég hef sagt hér, þótt of mörg séu kannske, eru ekki fullnægjandi eða tæmandi upplýsingar um þetta mikla mál. Þau geta þó verið til nokkurrar leiðbeiningar, a.m.k. þær tölur, sem ég hef nefnt hér. En ég leyfi mér að hafa þessi orð ekki fleiri í trausti þess, að hv. þdm. séu málinu allmjög kunnugir í höfuðatriðum.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. sjútvn.