04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (2695)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. flm. þá sæmd, sem þeir sýna mér með flutningi þessarar till., og er ég þó ekki því óvanur, að andstæðingarnir festi augu á mér öðrum fremur.

Á dögunum, þegar einn fremsti stjórnmálamaður heimsins, sem nú er uppi, Adenauer kanzlari Þýzkalands, kom til Íslands, birti Þjóðviljinn forustugrein, og varð af henni ekki annað ráðið en að erindi Adenauers hingað væri fyrst og fremst það að tala við mig um okkar sameiginlegu áhugamál.

Auðvitað kom Adenauer ekki hingað til að hitta neinn einstakling, heldur til að heimsækja land og þjóð, og tóku þeir á móti honum, sem til slíks eru settir. En leiðarahöfundur Þjóðviljans hefur auðsjáanlega talið, að kanzlarinn væri einn af lesendum þess blaðs, og það, sem jafnósennilegt er, að hann legði trúnað á það, sem í því stendur, því að þar sagði nokkrum dögum áður, föstudaginn 22. okt. s.l., orðrétt á þessa leið:

„Bjarni heitir maður Benediktsson. Hann er maður lágur vexti og ekki fagurlimaður. Bjarni er undirhyggjumaður mikill og krókarefur, líkt og Njáll forðum, misvitur nokkuð, en þó forvitri um margt. Bjarni er könguló íslenzkra stjórnmála, hefur ofið net sitt yfir bil það, er aðskilur flokkana þrjá, situr sjálfur í miðju þess og hefur alla þræði í hendi sér.“

Svo mörg eru þau orð.

Eftir þessari kenningu er naumast við því að búast, að aðrir íslenzkir stjórnmálamenn séu virtir viðtals en ég. Að vísu verður að segja eins og er, að Adenauer fylgdi að sjálfsögðu ekki þessu boði Þjóðviljans, en fyrir mig er það þó bót í máli, að flm. þeirrar till., sem hér er til umræðu, gera það því dyggilegar. Samkvæmt henni eiga athafnir mínar sem menntmrh. að skera sig svo úr öðrum stjórnarframkvæmdum, að Alþ. eigi alveg sérstaklega þeirra vegna að taka sig til og lýsa vantrausti á mig. Þegar hugleidd eru hin sterku lýsingarorð, sem andstæðingarnir nota um núverandi stjórn og athafnir hennar í utanríkismálum, atvinnumálum, fjármálum og flestu öðru, þá mætti ætla, að það hlyti að vera býsna geigvænlegt, sem gæfi efni til að verða tekið út úr með þessum hætti og gert að ástæðu til sérstaks vantrausts. Eftir því, sem nú er látið, eiga þessi ósköp að vera fólgin í nokkrum embættaveitingum mínum og þó raunar öllu frekar því, eftir því sem fram kom hjá flm., að ég hafi ekki látið nokkra kennara ráða sjálfa, hverjir ættu að vera prófdómendur hjá þeim og fylgjast með þeirra gerðum og meðferð á nemendum, heldur farið eftir landslögum og látið almannavaldið sjálft skipa þessa eftirlitsmenn á kennarana. Þetta er nú orðin meginuppistaðan í þessum vantraustsflutningi, og þarf ekki frekar um þá fjarstæðu að ræða.

En hvernig er þá embættaveitingum mínum varið?

Á síðastliðnu sumri og hausti hef ég sjálfsagt ráðstafað nálægt 300 stöðum kennara og skólastjóra. Af öllum þessum embættaveitingum hef ég ekki heyrt neina gagnrýni nema í mesta lagi um 5 stöður, og nefndi þó Gils Guðmundsson hér í framsögu sinni áðan ekki nema 3 af 300.

Um enga af þessum stöðum er því haldið fram, að ég hafi ekki haft vald til að ráðstafa henni eins og ég.gerði. Hinu hefur verið hreyft, að ég hafi ekki fylgt tillögum þeirra aðila sumra, sem tillögurétt áttu um stöðuveitinguna. Þetta er rétt. En ef það væri skylda að fylgja ætíð tillögum þeirra, sem slíkan tillögurétt eiga, væri veitingarvaldið vitanlega ekki hjá ráðherranum, heldur hinum, sem tillöguréttinn á. Það, að ráðherra hefur samkvæmt skýlausum ákvæðum laga ákvörðunarvaldið, fær honum bæði rétt og skyldu til að kanna hvert mál sjálfur og veita stöðuna eftir því, sem hans eigin sannfæring segir til um, en ekki einhverra annarra. Ef hann bregzt þessari skyldu sinni, hefur hann sýnt, að hann er ekki hæfur til að gegna því mikilsverða embætti, sem honum hefur verið veitt. Nafn hans er þá ekki annað en stimpill, sem aðrir geta sett á sínar gerðir þeim til staðfestingar. Ég hef aldrei verið slíkt verkfæri í annarra höndum og vona, að ég verði það seint.

Það er rétt hjá Þjóðviljanum, að ég er ekki svo fagurlimaður, að mér henti að vera skrautfjöður á annarra fati. Hitt er heldur, að mér beri að beita því viti, sem mér hefur verið gefið, þó að því fari fjarri, að ég eigi skilið þá lýsingu Þjóðviljans, að ég sé forvitri sem Njáll, enda má þar eitthvað milli vera.

Því hefur að vísu verið hreyft og kom fram hjá Gils Guðmundssyni áðan, að ég hafi fyrir 18 árum ásamt öðrum háskólakennurum vítt það, að brotið var gegn tillögum háskóladeildar um veitingu embættis, þegar höfð voru að engu ákvæði háskólareglugerðarinnar, sem heimiluðu deild að ákveða samkeppnispróf. Ég skal ekki rekja þá deilu. Hún skiptir ekki máli lengur, því að 1942 voru samkvæmt till. háskólans sjálfs settar reglur um embættaveitingar, þar sem ákveðið var, að þessar stöður mætti ekki veita öðrum en þeim, sem þar til skipuð dómnefnd hefði talið hæfa. Með þessu taldi háskólinn það tryggt, er mestu máli skiptir, að einungis hæfir menn hlytu stöðurnar, og lét sér að öðru leyti nægja umsagnarrétt um skipun þeirra og hefur ekki síðan gert tillögur um breytingu á því ákvæði, að veitingarvaldið skuli haldast hjá ráðh. og forseta.

Það verður þess vegna ekki um það deilt, að ég hafi í senn lagalegan og siðferðislegan rétt til að ráðstafa þeim stöðum, sem deilur standa nú um, og skyldu til að gera þetta eftir minni eigin beztu vitund, eftir að hafa athugað öll málsatvik, þar á meðal till. aðila, eftir því sem við á.

En er það þá óvanalegt, að ráðh. ráðstafi stöðum ofan í till. þeirra, sem tillögurétt eiga? Um það þarf ekki að fara í grafgötur. Við skulum aðeins líta á þær stöður, sem um er deilt nú, en þær skilst mér vera þessar: Ein kennarastaða við háskólann, skólastjórastöður við barnaskólana í Hafnarfirði og á Akranesi og skólastjórastaða við gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hv. tillögumaður nefndi að vísu einungis þrjár af þessum stöðum, en að þeirri fjórðu hefur einnig verið fundið í blöðum, og er því rétt að telja hana með.

Þegar dósentsstaða í guðfræði var veitt af ráðherra næst á undan því, er ég veitti Þóri Þórðarsyni, var það veiting dr. Björns Þórðarsonar á embætti Sigurbjörns Einarssonar gegn eindregnum tillögum allrar guðfræðideildarinnar. Sú veiting sætti að vísu gagnrýni, m. a. hér á Alþingi, og þ. á m. af mér, en sú gagnrýni kom af því, að ekki var notað hið einstaka tækifæri, sem þá gafst til að bæta úr ranglætinu, sem séra Björn Magnússon varð fyrir á sínum tíma, þegar að engu voru höfð úrslit samkeppnisprófs, sem hann varð hlutskarpastur í. Engin slík almenn gagnrýni utan háskólans varð hins vegar síðar, þegar Eysteinn Jónsson veitti Jóhanni Sæmundssyni prófessorsembætti við læknadeild gegn tillögum þeirrar deildar. Hvor tveggja þessi veiting var heimil að lögum, vegna þess að báðir höfðu mennirnir verið taldir hæfir af dómnefnd. Munurinn frá því, er dr. Björn Þórðarson ráðstafaði dósentsembættinu 1944 og nú, er sá, auk þess sem hvorugur umsækjandinn átti nú slíkan rétt til uppreisnar sem séra Björn Magnússon á sinum tíma, að nú var deildin klofin í till. sinum, þar sem tveir af þremur í guðfræðideildinni lögðu til, að annar en Þórir fengi embættið, og einn mælti ákveðið með honum, en báðir umsækjendurnir voru taldir hæfir af dómnefnd. Voru því till. deildarinnar að þessu sinni alls ekki einhlítar og ráðherra því enn skyldara en ella að gera upp sinn eigin hug og ákveða það, sem hann taldi rétt.

Þegar Hermann Jónasson veitti Hannibal Valdimarssyni skólastjóraembættið á Ísafirði, var það að vísu samkv. tillögum fræðslumálastjóra, en aðeins tveggja af fimm skólanefndarmönnum. Á sama veg veitti Einar Arnórsson barnaskólastjóraembættið á Akranesi Friðríki Hjartar samkv. tillögu fræðslumálastjóra og gegn till. skólanefndarinnar á Akranesi, og Jónas Jónsson veitti Guðjóni Guðjónssyni skólastjóraembættið í Hafnarfirði gegn tillögum fræðslumálastjóra og fjögurra af fimm skólanefndarmönnum.

Þessi dæmi, sem einmitt eru um sömu embættin og ég hef nú veitt og að er fundið, að ég hafi ekki fylgt tillögum annarra um, sýna að fyrirrennarar mínir um aldarfjórðungsbil hafa ekki talið sig bundna af tillögum ráðgjafaraðilanna. Væri það einkennileg tilviljun, ef veiting þessara embætta væri undantekning. Auðvitað er hér ekki um neina undantekningu að ræða, því að það er altítt, að ráðherra beiti því valdi, sem honum er fengið. Það fær þess vegna engan veginn staðizt, að ég brjóti á móti venju, þegar ég fer eftir sannfæringu minni en ekki annarra um veitingu embættanna. Ég geri þá einmitt hið sama sem allir fyrirrennarar mínir hafa talið sér rétt og skylt að gera.

En af hverju valdi ég þessa umsækjendur, eins og ég gerði, og hafnaði hinum? Þar er því til að svara, að þegar eitt embætti á að veita, verður það aðeins veitt einum manni. Þó að hinir umsækjendurnir fái það ekki, felst engin fordæming á þeim í því. Þeir kunna engu að síður að allra áliti að vera mestu ágætismenn. Stöðuveitingin hlýtur eðli málsins samkvæmt ætíð að vera meira eða minna komin undir persónulegu mati þess, sem stöðuna veitir, þó að honum að sjálfsögðu beri skylda til að afla sér sem beztra gagna um alla umsækjendur og meta þau og vega, áður en hann tekur ákvörðun sína. Um stöðuveitingar, sérstaklega í skólamálum, hafa engar þær reglur myndazt, er geti orðið til leiðbeiningar, hvað þá til úrslitaákvörðunar fyrir ráðherra.

Um þær stöður, sem á mig er deilt fyrir veitingu þeirra, er það að segja, að ég tók ekki Þóri Þórðarson fram yfir Guðmund Sveinsson vegna þess, að ég geri lítið úr vísindamennsku Guðmundar Sveinssonar. Um hana tel ég báða umsækjendur nú ámóta, enda taldi dómnefnd þá báða hæfa, — dómnefnd, þar sem biskup Íslands, fyrrverandi kennari í þessum fræðum, átti sæti ásamt vígslubiskupi séra Bjarna Jónssyni og prófessor við háskólann, Magnúsi Má Lárussyni. Ég valdi Þóri af því, að ég tel feril hans með slíkum ágætum, að nokkurn veginn einsdæmi sé. Hann hefur nú í samfleytt 10 ár verið við nám í 4 löndum, Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Bandaríkjunum, til undirbúnings því kennarastarfi, sem hann hefur nú hlotið. Þegar hann var í guðfræðideildinni hér, gerðist hann hvatamaður þess, að stofnað yrði félag allra guðfræðistúdenta til að brúa það bil, sem orðið var innan deildarinnar vegna ólíkra guðfræðikenninga. Þegar hann var við nám í Árósum, kusu félagar hans þar hann fyrir forustumann sinn. Hef ég og séð bréf frá einum prófessora hans þar, sem fer um hann mjög lofsamlegum orðum og telur hann framúrskarandi til að gegna kennarastöðu í fræðum sinum. Hið sama var við hinn stóra guðfræðiháskóla í Chicago. Þar var Þórir kjörinn forustumaður nemenda deildarinnar og var sendur á alþjóðaþing sem fulltrúi stofnunarinnar og gerður aðstoðarkennari, enda hlaut hann tvo vetur hinn hæsta styrk, sem þar er veittur vegna námsafreka. Kennarar Þóris þar vestra hafa sýnt honum sérstakan trúnað og veittu honum eindregin meðmæli til stöðunnar hér. Ég hefði talið það þjóðarskaða, ef slíkur maður hefði ílenzt erlendis og tekið þar kennarastöðu, svo sem honum stóðu opnar dyr til. Ég sem dvalið hef við stóra erlenda háskóla, veit, að áreiðanlega eru það ekki nema einstakir afbragðsmenn, sem hvarvetna í framandi löndum geta sér svo gott orð sem Þórir Þórðarson hefur gert, og ættu allir góðir menn að fagna því, að honum hefur nú gefizt færi að hverfa heim til föðurlands síns.

Ef Þórir Þórðarson reynist í störfum sínum slíkur afbragðsmaður sem hann hefur sýnt sig vera á námsárum sínum, þá mun hér lengi minnzt sem dæmis um sérstaka þröngsýni og ofstæki í íslenzkum stjórnmálum, að mér skuli fundið það til áfellis að hafa skipað slíkan mann í stöðu við háskólann.

Í skólastjórastöðuna á Ísafirði mælti að vísu meiri hluti fræðsluráðs með öðrum manni en þeim, er ég veitti, en hann studdu 2 af 5 fræðsluráðsmönnum og bæði fræðslumálastjóri og námsstjóri. Auk þess hafði hann umsögn þeirra, er þekktu til fyrri kennslustarfa hans, þar á meðal Hervalds Björnssonar skólastjóra í Borgarnesi, sem segir um Guðjón Kristinsson, er stöðuna hlaut:

„Hann hefur reynzt hinn ágætasti kennari, röskur í starfi og áhugasamur, stjórnsamur, stundvís með afbrigðum og frábærlega reglusamur í hvívetna.“

Bjarni Bjarnason skólastjóri á Laugarvatni segir um Guðjón:

„Guðjón Kristinsson kennari, sem nú sækir um skólastjórastöðu við gagnfræðaskólann á Ísafirði, er að minni skoðun gæddur ágætum hæfileikum til slíkra starfa. Hann hefur talsverða reynslu frá Laugarvatni í daglegri stjórn, hann er óvenjulega fjölhæfur kennari, fjörugur og dugmikill í kennslustundum og vinsæll.“

Um Njál Guðmundsson, er settur var skólastjóri á Akranesi, er það að segja, að meiri hluti fræðsluráðs mælti raunar með öðrum og námsstjóri og fræðslumálastjóri tóku undir þau meðmæli. 2 af 5 skólanefndarmönnum á Akranesi mæltu hins vegar með Njáli. Af hálfu sumra þeirra, er ekki mæltu með Njáll, kom fram, að þeir þekktu ekki til kennslu hans. En mér þykir meira um vert skoðun, sem byggð er á þekkingu, en það, sem sagt er í skjóli vanþekkingar. Og hvað segja þeir, sem til Njáls þekkja? Hér eru ummæli Gísla Jónassonar skólastjóra Langholtsskóla, eins fremsta skólamanns á Íslandi. Hann segir um Njál:

„Hann hefur reynzt ágætur kennari, reglusamur, stundvís, samvizkusamur og prúðmenni í framkomu, bæði gagnvart nemendum, samkennurum sínum og öðru starfsfólki skólans. Hann hefur náð mjög góðum árangri í kennslu sinni, enda mjög vinsæll af nemendum sínum.“ Þetta eru ummæli hins ágæta manns Gísla Jónassonar.

Jón Auðuns formaður Reykjavíkurdeildar Rauðakross Íslands, dómprófastur, segir um Njál :

„Hann hafði á hendi trúnaðarstarf við barnaheimili Rauðakrossins í Laugarási í sumar. Hann leysti það starf sitt þannig af hendi, að stjórn Reykjavíkurdeildar Rauðakross Íslands var sérlega ánægð með það. Samstarf hans við forstöðukonuna og annað starfsfólk fór honum með afbrigðum vel úr hendi, og allt viðmót hans við 120 barna hóp var til fyrirmyndar, bæði um alúð hans við börnin og stjórnsemi. Af þeim kynnum, sem ég hef af starfi hans í sumar, hlýt ég að gefa honum beztu meðmæli mín, og tel ég hann ágætum hæfileikum búinn, bæði um stjórnsemi, háttprýði og alúð í starfi, sem aflaði honum mikilla vinsælda, bæði meðal samstarfsfólksins og barnanna í Laugarási.“

Þetta eru ummæli Jóns Auðuns, eftir að hann hafði haft náið samstarf við Njál Guðmundsson.

Um skólastjórann í Hafnarfirði er það að segja, að meiri hluti fræðsluráðs lagði með öðrum manni en stöðuna hlaut, og fræðslumálastjóri og námsstjóri hölluðust frekar á þá sveif, þó að þeir teldu Einar Þorvaldsson, er ég setti í stöðuna, einnig vel hæfan. 2 af 5 fræðsluráðsmönnum mæltu með Einari, og Snorri Sigfússon fyrrum námsstjóri, sem gerþekkir hann, segir svo:

„Einar M. Þorvaldsson er að mínum dómi mjög góður og farsæll kennari, glöggur vel, skapþýður, prúðmannlegur, stjórnsamur og drengur góður. Bar Hríseyjarskólinn undir stjórn Einars glöggt vitni um þessa kosti skólastjórans. Hin síðustu ár hefur Einar verið kennari við barnaskólann á Akureyri og reynzt þar mjög vel. Að öllu samanlögðu tel ég mig geta mælt hið bezta með honum til kennarastarfs og skólastjórnar.“

Þessi ummæli Snorra eru studd af umsögn Hannesar J. Magnússonar skólastjóra á Akureyri, en hann segir:

„Hr. Einar M. Þorvaldsson hefur verið kennari við barnaskóla Akureyrar sex undanfarin ár og reynzt í alla staði hinn prýðilegasti starfsmaður. Hann er úrvals kennari, stjórnsamur og duglegur og hið mesta prúðmenni, enda vinsæll bæði af nemendum, kennurum og foreldrum.“

Af því, sem ég hef nú sagt, er nógsamlega ljóst, að í embættaveitingum mínum felst engin ástæða til vantrausts. Ef till. um það er ekki einungis flutt sem pólitískur hrekkur í hinni lítt uppbyggilegu innbyrðis baráttu andstæðinga Sjálfstfl., væri þó frekar viðlit að halda því fram, að hún byggðist á ósamþykki við skoðanir mínar um stjórn menntamálanna almennt, enda er till. flutt örfáum dögum eftir að ég setti á fjölmennum fundi fram skoðanir mínar um þessi efni, og má því sennilega líta á till. sem svar við þeim. Er því rétt, að ég rifji þær nú upp í meginatriðum, svo að þingheimi gefist færi á að dæma um, hvort þær séu svo skaðsamlegar, að þær gefi efni til vantrausts.

Ég skal fúslega viðurkenna, að menntamálin eru ekki síður þýðingarmikil en hin hreinu hagsmunamál, sem oftast og mest er rætt um á vettvangi íslenzkra stjórnmála, því að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði og hingað til hefur það aldrei verið stolt okkar Íslendinga, að við værum auðug þjóð, sem hefði farnazt vel á veraldarinnar vísu, heldur hitt, að við værum menntaþjóð, — þjóð, sem hefði í innri menningu sinni átt styrk til að lifa af ótrúlega örðugleika. Við höfum talið okkur til gildis, að forfeður okkar áttu þann andlega þrótt, sem ekki aðeins gerði að verkum, að þjóðin lifði af þessar hörmungar, heldur að hún samdi og varðveitti sumt það, sem er með því bezta í heimsbókmenntunum, þó að fjarri fari því, að enn njóti þau afrek slíkrar viðurkenningar sem skyldi og við höfum talið okkur sjálfum trú um. Eftir því sem hagur okkar verður betri, megum við ekki láta þessa prýði okkar falla í gleymskunnar dá, heldur einmitt halda henni hærra á lofti en nokkru sinni áður með því hver um sig að leggja af mörkum svo sem hann bezt má þjóðinni til heilla.

Magnús Jónsson prófessor lét eitt sinn um mælt eitthvað á þá leið, að sökum fámennis væri fátt, sem við gætum keppt við aðrar þjóðir í, og þó væri það eitt: Það að láta hvern einstakan Íslending verða betur menntaðan en hver einstakur annarrar þjóðar maður er. Hygg ég, að flestir Íslendingar séu sammála um, að þetta sé í senn eftirsóknarvert og framkvæmanlegt.

Enginn efi er á, að bókleg þekking hefur lengstum verið útbreiddari á Íslandi en í flestum eða öllum öðrum löndum. Áður fyrr veittu heimilin að langmestu leyti þessa fræðslu. Nú er öldin orðin önnur í því efni sem öðrum.

Fólksflutningarnir úr sveitunum hafa gert það að verkum, að þar er ekki vinnuafl aflögu til að annast slíka fræðslu til fullnustu, og heimilishættir í bæjunum hafa aldrei verið til þess lagaðir. Þess vegna hefur verið komið upp hinu víðtæka skólakerfi, er við eigum nú við að búa.

Ýmsir segja, að við höfum allt of mikið af skólum og skólaskyldan sé of löng, enda eru háværar raddir um, að endurskoða þurfi fræðslulögin. Sannleikurinn er þó sá, að fræðslulögin, sem sett voru 1946, eru naumast enn komin að öllu leyti í framkvæmd. Er því ærið hæpið þegar af þeirri ástæðu, að enn sé tími til kominn að endurskoða þau í heild. Löggjöfin er og sveigjanlegri en ýmsir virðast ætla.

Menn tala um allt of langa skólaskyldu og miða þá við, að hún sé hvarvetna frá 7–15 ára. Sannleikurinn er hins vegar sá, að ef héraðsbúar sjálfir óska eftir, þá þarf skólaskylda hvergi að vera lengri en frá 10–14 ára, enda mun láta nærri, að ¼ hluti unglinga landsins eigi enn við að búa skólaskyldu til 14 ára aldurs. Ef einhverjum héruðum virðist þessi skólaskyldutími reynast illa og vera of langur, þá er hægurinn hjá að breyta til að nýju, en hvergi hef ég vitað til, að slíkt væri nefnt, hvað þá heldur meira.

Ég hygg, að flestir geti fallizt á, að ekki sé óeðlilegt, að skólaskylda sé skemmri í sveitum en í bæjum, þó að ekki sé nema af því einu, að í bæjunum er ærið erfitt að fá annað verkefni handa börnunum en að ganga í skóla. Heimilin geta bókstaflega ekki annazt þau allan daginn, og um börn og fullorðna á það við, að iðjuleysið er undirrót alls ills.

Sumir einstakir þættir fræðslulaganna þurfa hins vegar breytingar við. T. d. eru ákvæðin um fjármál skólanna nú bæði óglögg og ófullnægjandi. Sveitarfélögum hefur verið gefin von um rífleg framlög ríkisins til skólabygginga, sem þau ekki hafa fengið. Mun láta nærri, að sú vangreiðsla ríkisins sé nú hér um bil 14 millj. kr. Þessu þarf að breyta. Ég hef einmitt í undirbúningi víðtæka löggjöf um fjármál þeirra skóla, sem reknir eru í sameiningu af ríki og sveitarfélögum, og vonast til þess að geta lagt frv. um hana fyrir Alþ., áður en langt um líður. Ef sú löggjöf nær fram að ganga í höfuðdráttum, eins og ég mun leggja til, mun hún verulega bæta hag sveitarfélaganna frá því, sem verið hefur, og stuðla að því, að öll þessi mál komist í fastari skorður en þau hafa verið í undanfarandi ár. En áreiðanlegt er, að framkvæmdir í þessum efnum þarf að samhæfa betur en gert hefur verið, og væri hægt að færa um það mörg dæmi, ef tími væri til, sem nú er ekki. Aðeins skal þess getið, að forða verður fjölda sveitarfélaga úr þeim vanda, sem þau eru komin í vegna vangreiðslna ríkisins, og leysa þarf brýna þörf sumra héraðsskólanna á endurbótum, jafnframt því sem taka verður afleiðingunum af því, að ekki er sama nauðsyn og í fyrstu var fyrir alla þá skóla, vegna þess að fræðslulögin hafa opnað leið til skólahalds víðar en þá var. Að lausn þessara mála þarf að ganga af raunsæi og alvöru.

Annað atriði, sem mikla þýðingu hefur, er setning námsskrár fyrir skólana. Fyrirrennari minn, Björn Ólafsson, skipaði nefnd með ágætum mönnum til þess að leysa þetta starf af hendi. Nefndin skilaði áliti í sumar, og síðan hefur það álit verið til endurskoðunar hjá ýmsum aðilum, er ætla má að hafi á því sérstaka þekkingu. Enginn efi er á því, að margt í tillögum nefndarinnar er athyglisvert, og þó er ég fljótt á litið ekki viss um, að með þeim verði leystur nema lítill hluti þess vanda, sem okkur er á höndum.

Ein réttmætasta aðfinningin við núverandi fræðslukerfi er einmitt sú, að nú sé troðið í unglingana margvíslegum fróðleik, en þó skorti þá vitneskju um sumt það, sem sjálfsagt sé að allir viti. Afleiðing allrar ítroðslunnar verði svo annars vegar námsleiði, en hins vegar andúð á að sinna sumum þeim undirstöðustörfum. sem ekki verður hjá komizt að vinna, ef vel á að fara í þjóðfélaginu. Enginn efi er á, að of mikið er til í þessari aðfinningu, og þó er sjálfsagt auðveldara að benda á gallann en að bæta úr honum. Mér dylst þó ekki, að sem stendur er reynt að kenna óþroskuðum börnum og unglingum of margt, sem ekki er líklegt að haldist í minni þeirra eða verði þeim til verulegs þroska.

Áður gat ég um það, sem við öll vitum, hverja þýðingu hin forna menning hefur haft fyrir okkar íslenzku þjóð. En í hverju var þessi forna menning fólgin? Hún var fyrst og fremst snúin úr tveim þáttum, þekkingunni á íslenzkum fræðum og kristinni trú. Þetta tvennt hefur verið okkar haldreipi í aldalöngum erfiðleikum, og þetta tvennt á að vera uppistaðan í fræðslu æskulýðsins, meðan við viljum halda manndómi og íslenzkri þjóðmenningu við á Íslandi. Ef þetta tvennt er fyrir hendi, höfum við gert það, sem í okkar valdi stendur, til þess að æskumaðurinn verði góður Íslendingur og góður og nýtur maður.

Ýmisleg fleiri fræðsla þarf til að koma, en þetta skiptir mestu máli, og fjöldi annars fróðleiks má ekki draga athygli okkar frá þessum meginatriðum. Við verðum hér sem ella að hafa í huga, að meira skiptir, að mikið sé gert heldur en margt.

Um einstaka skóla endist mér ekki tími til að ræða. Þess má aðeins geta, að háskólinn hefur undir forustu Alexanders Jóhannessonar, Ólafs Lárussonar og fleiri ágætra manna tekið undursamlegum þroska. Ég hef lagt til, að hann yrði enn efldur með því að verja nokkru fé til að gefa sérstaklega efnilegum ungum vísindamönnum kost á að starfa að rannsóknum við skólann, m. a. til að koma í veg fyrir, að þeir hverfi fyrir fullt og allt úr landi að loknu námi erlendis, eins og nú eru of mikil brögð að. Á hinn bóginn þarf svo að auka eftirlit með því, að allur sá mikli fjöldi, sem fær styrk til margvíslegs náms erlendis, verji fé sínu og tíma svo sem til var ætlazt.

Svo fljótt sem nægu fé hefur verið safnað, þarf að hefjast handa um byggingu menntaskóla í Reykjavík og kennaraskóla, og hef ég lagt áherzlu á að fá sem allra mestar fjárveitingar í þessu skyni.

Þá hef ég ákveðið, að lögin um matsveinaskólann skuli koma til framkvæmda, og verður það væntanlega nú eftir áramótin.

Skólamálin eru auðvitað mikill hluti menningar- og menntamála í landi okkar, en þó aðeins hluti þeirra. Margt fleira kemur til greina. Af hálfu ríkisins má þar t. d. nefna styrk til bókasafna, og hef ég látið semja mikinn lagabálk um almenningsbókasöfn, sem verið er að prenta, og vona ég, að sú réttarbót nái fram að ganga í vetur.

Þá kem ég að þeim hluta umræðuefnisins, sem ríkið á að minni skoðun einungis að styrkja og efla, en alls ekki að stjórna, en það eru sjálfar listirnar, svo sem hinar æðri bókmenntir, myndlist, tónlist og að nokkru leiklist. Flestum Íslendingum er það viðhorf til listanna, að ríkið eigi að stjórna þeim og segja listamönnunum fyrir verkum, svo framandi, að óþarft kynni að virðast að eyða orðum að því. En því fer þó fjarri, að allir séu um þetta sammála.

Hún er t. d. með vissu sönn, sagan um það, þegar háttsettur Rússi, sem hlustað hafði með undrun á kafla úr Atómstöð Halldórs Kiljans Laxness, spurði Íslending: „Af hverju leyfið þið manninum að skrifa svona?“

Þarna mættust tveir ólíkir heimar. Rússinn, vanur hinu kommúnistíska þjóðfélagi, taldi sjálfsagt, að rithöfundarnir mættu ekki skrifa nema það, sem þeir hefðu leyfi valdhafanna til. Íslendingurinn kom aftur á móti úr þjóðfélagi, þar sem rithöfundunum er ekki aðeins leyft að skrifa það, sem þá sjálfa lystir, heldur eru þeim greidd há laun úr ríkissjóði, þó að þeir verji verulegum hluta orku sinnar til að níða leynt og ljóst þá, sem þjóðin hefur sýnt mest traust.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvort þjóðfélagið sé andlega sterkara, hið risavaxna, kommúnistíska einræðisríki, sem kúgar listamennina innan endimarka sinna til þjónustu við sig og kaupir erlenda menn til að rita um sig skrum og skjall, eða hið litla, frjálsa íslenzka þjóðfélag, sem lætur hvern listamann um að þjóna sinni eigin lund og skeytir engu um skoðanir hans, lof eða last, ef honum er gefin sköpunargáfa listamannsins, sem sannast sagt á þó ærið oft lítið skylt við stjórnmálaþroska.

Þessu get ég ekki svarað á annan veg en þann, að það lof, sem fæst fyrir kúgun eða kaup, er lítils virði, og það þjóðfélag, sem þorir og þolir að verðlauna það, sem vel er gert, þótt því fylgi gagnrýni og illkvittni, er ekki svo veikt sem virðast kann.

Mér er því nær að halda, að við Íslendingar höfum í þessu valið þann kostinn, sem viturlegri er.

Friðrik mikli vissi áreiðanlega, hvað hann fór, er hann sagði: „Ég leyfi þegnum mínum að segja það, sem þeim sýnist, og þeir leyfa mér að gera það, sem mér sýnist.“

Íslenzka þjóðin hugsar á sama veg. Við erum frábitnir öllu einræði í meðferð listamálefna okkar sem í öðrum efnum. Á sama stendur, hvort það er menningarnefnd frá Rússlandi, sem telur engan íslenzkan málara gjaldgengan nema Eyjólf Eyfells, eða íslenzkir abstraktmálarar, sem telja allt annað úrelt en sína einkennilega löguðu fleti. Íslendingum verður aldrei talin trú um, að Jóhannes Kjarval túlki ekki með afbrigðum vel íslenzka náttúru, þó að hann máli ekki beinar línur eða þótt hann skreyti íslenzkt landslag með hugardjásnum sínum. Allur almenningur á Íslandi vill fá að dæma um þessi málefni sjálfur og ekki lúta forsögn annarra um, hvað honum eigi að líka og að líka ekki. Jafnframt vilja menn gjarnan styrkja listamenn sína til að gera hinar ólíkustu tilraunir og telja einmitt, að upp úr allri leitinni og óvissunni kunni að spretta eitthvað, ef til vill ómetanlegt, sem enginn sá fyrir.

Stefna okkar sjálfstæðismanna er í þessum efnum sem öðrum sú að styrkja menn til að fara eigin götur, hvort sem það er í bókmenntum, tónlist eða myndlist, enda hef ég lagt til, að listamannastyrkir yrðu hækkaðir á fjárlögum, m. a. til samræmis við hækkað verðlag, frá því að sú upphæð var ákveðin síðast.

Þegar á allt þetta er litið, er harla einkennilegt að heyra, þegar úr sumum áttum er sungið um það, að ofboðslegri skoðanakúgun sé haldið uppi hér á landi af hálfu okkar sjálfstæðismanna, og væl í þá átt heyrðist frá flm. hér í kvöld, og Þjóðviljinn kveður meira að segja svo sterkt að orði, að „frjálslyndir, róttækir“ æskumenn séu hættir að sækja kennaraskólann vegna ofsókna minna. Nú veit ég að vísu, að allur almenningur telur, að sízt mundi skaða, þótt sumir þeir, sem Þjóðviljinn kallar „frjálslynda og róttæka“, hefðu minni áhrif í menntamálum en þeir undanfarið hafa haft, en það þarf sannarlega meira til en það, að ég fari eftir landslögum um stöðuveitingar til að eyða eitri kommúnismans úr íslenzkum skólum.

Auðvitað er nauðsynlegt hér sem ella, að sá, sem forusta er falin, þori að taka á sig ábyrgð og gera það, sem hann telur rétt, þótt hann viti, að öllum líki ekki og árásir muni fylgja, en þetta er aðeins lítið af því, sem gera þarf.

Við verðum að setja gróður og vöxt í stað eitrunar og eyðileggingar, uppbyggingu í stað niðurrifs. Við verðum að sjá um, að skólarnir geti gert sitt til, að sem flestir unglinganna verði nýtir menn, með því að kenna þeim frá barnæsku það, er íslenzku þjóðinni hefur reynzt bezt, okkar fornu tungu og bókmenntir ásamt kristinni trú. Við verðum að sannfæra alla æskumenn um, að engum nýtum manni er ofaukið í íslenzku þjóðfélagi. Við Íslendingar erum of fámennir og fátækir til þess, að við höfum efni á, að nokkurt mannsefni fari í súginn. Enginn veit, hvaðan sá kemur, sem með hugkvæmni og þreki hvetur þjóðina til áður óþekktra dáða og afreka. Þess vegna skulum við af fremsta megni greiða fyrir því, að allir, sem einhver dugur er í, eigi þess kost að ryðja sér braut til mennta og menningar.

Þessi er sú stefna, sem ég mun í meginatriðum fylgja meðan ég er menntmrh., og mun ég ekki láta orðaskak né aðkast andstæðinga minna hrekja mig af þeirri braut.

Hitt er vitað, að ég gegni stöðu minni ekki lengur en Alþ. kveður á um, og munu menn nú skjótlega heyra dóm þess. Hver sem hann verður, fagna ég því, að till. þessi hefur orðið til þess, að unnt er að ræða málin í almennings áheyrn, svo að alþjóð, sem úrslitaráðin hefur, getur milliliðalaust gert sér grein fyrir, hvort stefna mín í menntamálum er rétt eða röng.