04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2696)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég mun segja fá orð um vantraustið sjálft. Flestum mun skiljast, að Framsfl. hlýtur að ákveða það sjálfur, hvenær hann álítur, að núverandi stjórnarsamstarfi eigi að slíta, og mun ekki láta aðra flokka segja sér þar fyrir verkum, hvorki með vantrausti né á annan hátt.

Samþykkt vantrausts á einn ráðherra, úr hvaða flokki sem hann væri, er sama og vantraust á alla ríkisstjórnina og mundi leiða til falls hennar allrar. Þetta kom greinilega fram í þeirri síðustu ræðu, sem var flutt hér, og var réttilega fram tekið.

Um embættaveitingar núverandi hæstv. menntmrh. vil ég segja þetta: Ráðh. hafa fylgt nokkuð mismunandi reglum um embættaveitingar fyrr og síðar. Þeir hafa stundum og oft af réttlætanlegum ástæðum veitt embætti gegn umsögn og till. þeirra, sem að lögum hafa átt að segja til um það, hver væri hæfastur. En ef það er gert að reglu að veita embætti einatt þeim umsækjanda, sem er öruggastur flokksmaður ráðherrans, hvað sem hæfni hans líður, samanborið við aðra umsækjendur, þá mun þess skammt að bíða, að aðrir, sem ráða yfir störfum, telji sig neydda til þess að beita sömu vinnuaðferðum. Ég tel rétt, að þjóðin geri sér það ljóst, að þessi er afleiðingin, ef þessum vinnuaðferðum er beitt.

Að öðru leyti vil ég nota þetta tækifæri til að gera nokkra grein fyrir aðstöðunni í íslenzkum stjórnmálum, sérstaklega vegna þess, í hvaða tilgangi þetta vantraust er borið fram.

Árið 1938 gerðist sá afdrifaríki atburður í stjórnmálum hér á landi, að nokkrir menn klufu Alþfl. og gengu til samfylkingar, sem svo var nefnd, með kommúnistum. Við það dró svo mjög úr styrk Alþfl., að hann og Framsfl. hafa aldrei síðan átt meiri hluta saman á Alþ. og því aldrei síðan getað myndað meirihlutastjórn. Samfylkingin endaði með því, að fjölmennur hópur Alþýðuflokksmanna innlimaðist í kommúnistaflokkinn. Með þessum hætti varð kommúnistaflokkurinn óvenjulega stór og hefur verið það síðan, þótt hann fari ört minnkandi, eins og síðustu kosningar til Alþ. og bæjarstjórna sýndu.

Hin sanna og um leið óhugnanlega mynd af stjórnmálaástandinu á Íslandi er þessi: Í landinu er stór kommúnistaflokkur, sem hér eins og með öðrum lýðræðisþjóðum gerir sig óhæfan til stjórnarsamstarfs vegna annarlegra sjónarmiða í utanríkismálum. Í annan stað er hér jafnaðarmannaflokkur, sem síðan 1938 hefur verið miklu fámennari og veikari en í nokkru öðru nálægu og sambærilegu landi. Í þriðja lagi er hér flokkur, sem hefur ekki aðeins klofið sig frá öllu samstarfi við vinstri flokkana, heldur haldið uppi æðisgegnum árásum á þá fyrir það, að þeir vilja ekki láta hið ameríska varnarlið fara úr landi nú þegar. Þetta hefur skapað hinum íslenzka íhaldsflokki, sem gengur undir dulnefninu Sjálfstfl., stöðvunarvald í íslenzkum stjórnmálum, þannig að það hefur ekki verið unnt að mynda ríkisstjórn, er hefði meiri hluta þm. sér að baki, nema Sjálfstfl. taki þátt í henni og styðji hana.

Framsfl. er frjálslyndur flokkur umbóta- og samvinnumanna í landinu. Fylgi hans er traust með þjóðinni, sem gleggst má sjá af því, að þrátt fyrir ýmis áföll hafði hann við seinustu kosningar, sem voru honum óhagstæðar, sama hundraðshluta kjósenda og hann hafði 1934. Hann hefur því einatt bætt við sig hlutfallslega þeirri fjölgun kjósenda, sem orðið hefur í landinu.

Ef til væri í landinu jafnaðarmannaflokkur eitthvað í áttina við það, sem er með öllum nálægum lýðræðisþjóðum, hefði sá flokkur ásamt Framsfl. yfirgnæfandi meiri hl. á Alþ. og gætu þeir haft samstarf um ríkisstjórn svipað því, sem lengi hefur verið í Svíþjóð og víðar.

Eins og vitað er, hefur Sjálfstfl. mun meiri völd í landinu á seinustu árum en hann hafði fyrir hálfum öðrum áratug. Ýmsa hef ég heyrt álasa kjósendum fyrir það að styðja þennan flokk í vaxandi mæli. Þetta er ómakleg ásökun að verulegu leyti. Hagskýrslurnar sanna það, að í kosningunum árið 1933 hafði Sjálfstfl. 48% allra kjósenda, 1934 42.3%, 1937 39.5%, 1942 38.5%, 1946 39.5% og 1953 37.1%. Á þessum árum hefur fylgi Sjálfstfl. með þjóðinni hrakað jafnt og þétt, eða á framantöldu tímabili um 10.9 %.

Hvað veldur þá þeirri öfugþróun, að flokkur, sem tapar fylgi með þjóðinni, eykur völd sín hjá sömu þjóð? Deildu og drottnaðu er alþekkt stjórnarregla. Með því að kljúfa andstæðinga sína sundur í innbyrðis fjandsamlega flokka og hópa stjórnuðu Rómverjar um langt skeið og eftir að þeim var tekið að hnigna mörgum þjóðum, sem voru þeim margfalt sterkari, ef þær hefðu haft þroska til að standa saman gegn óvini, sem var þeim öllum sameiginlegur.

Sjálfstfl. hefur ekki þurft að hafa mikið fyrir því að sundra andstæðingum sínum. Nóg hefur verið sjálfboðaliða, sem starfað hafa í einfeldni við hliðina á útsendum þjónustumönnum Sjálfstfl. að því að kljúfa í sundur fylkingar vinstri manna, fylkingar íhaldsandstæðinga, niður í litla hópa, sem sóa kröftum í innbyrðis deilur, oft um dægur- eða smámál, í stað þess að gera sameiginlegt átak gegn sameiginlegum andstæðingi.

Á þennan hátt hefur skeð það furðulega í íslenzkum stjórnmálum, að flokkur, sem alltaf er að tapa trausti kjósenda, eykur völd sín í hlutfalli við fylgistapið.

Af þessu koma í ljós hin óvefengjanlegu sannindi, að ýmsir vinstri menn, sem þykjast vera og halda margir, að þeir séu andstæðingar íhaldsins í landinu, eru beztu stuðningsmenn þess. Þess vegna er það alveg rétt hugsað hjá einum gleggsta manni í hópi sjálfstæðismanna, er hann sagði nýlega: „Ef ég ætti næga peninga, skyldi ég leggja þá í að styrkja Þjóðvfl.“ Þessum reynda og greinda manni var það ljóst af reynslu undanfarinna ára, að Sjálfstfl. hafði ekki von um fylgisaukningu meðal kjósenda. Eina vonin til þess að halda völdum var meiri sundrung í hópi andstæðinganna.

Vantraust eins og það, sem hér liggur fyrir, leysir auðvitað ekki neitt. Það er þýðingarlaust með öllu. En ég kem síðar að með örfáum orðum, í hvaða tilgangi það er raunverulega borið fram.

Árið 1949 var ríkissjóður og allt atvinnulíf í landinu á barmi gjaldþrots. Enginn stjórnmálamaður hefur getað bent á nokkra frambærilega leið til þess að taka þá upp nauðsynlega stefnubreytingu í fjármálum og mynda stjórn til að framkvæma hana, nema það samstarf, sem þá var til stofnað undir forustu Framsfl. Þegar svo er ástatt fyrir íslenzku þjóðinni sem var 1949, verða flokkshagsmunir að víkja fyrir þjóðarhagsmunum. Eftir seinustu kosningar var ekki hægt að mynda aðra meirihlutastjórn en þá, sem nú er, og ríkisstj. verðum við þó að hafa.

Vantraustið er táknrænt fyrir vinnubrögð hinna sundruðu, andstæðu og fálmandi íhaldsandstæðinga. Till. á að sýna, hvað þjóðvarnarmenn séu djarfir og einlægir andstæðingar Sjálfstfl. og hve framsóknarmenn séu óeinlægir, því að þrátt fyrir skammirnar um hæstv. menntmrh. styðji þeir hann, er til kastanna kemur. Eins og þið heyrðuð á málfærslunni, er þetta tilgangurinn — eini tilgangur vantraustsins.

En hugsum okkur, að við framsóknarmenn samþ. vantraustið. Til hvers mundi það leiða? Ekki til stjórnar íhaldsandstæðinga. Það er svo vel séð fyrir klofningi þeirra. Afleiðingin af því að samþykkja vantraustið er auðsæ. Forseti Íslands mundi snúa sér til flokkanna og biðja þá að mynda meirihlutastjórn. Og þar sem Framsfl. og Sjálfstfl. vildu ekki vinna saman lengur og möguleikar til að mynda meirihlutastjórn þar með útilokaðir, mundi forsetinn biðja stærsta flokkinn, Sjálfstfl., að mynda hreina flokksstjórn. Eftir kosningar, þótt fram færu, mundi þessi flokksstjórn fara með völd, því að án kosningasamstarfs umbótaflokkanna mundu þeir ekki vinna verulega á í kosningunum. Sjálfstfl. yrði því einráður í ríkisstj., og maðurinn, sem átti að svipta völdum, yrði valdameiri en nokkurn tíma áður. Á þessum vinnubrögðum ætla þjóðvarnarmenn að auka fylgi sitt, en sverta Framsfl. fyrir það að standa gegn þeirri þróun, sem hér er lýst.

En ég skal segja ykkur, umbótamenn og íhaldsandstæðingar, hvernig á að standa að vantrausti á Sjálfstfl. Það er hægt aðeins með einu móti. Það er með því að mynda samstarfsfylkingu allra lýðræðissinnaðra umbótaafla í landinu, vinna sigur í kosningum og taka við af þeirri stjórn, sem á að fella. Þetta er ekki aðeins eina leiðin hér, heldur alls staðar þar, sem þingræði gildir. Þetta er hægt, ef íhaldsandstæðingar standa við orð sín í verki.

Jafnaðarmenn eru klofnir. Með því hafa þeir átt og eiga stóran þátt í því að styrkja völd Sjálfstfl. Sérhver góður jafnaðarmaður hlýtur að láta sér skiljast, að flokkur hans fær ekki aukið traust með þjóðinni fyrr en flokksmenn sýna í verki, að andstaðan við Sjálfstfl. og áhuginn fyrir því að hnekkja völdum hans sé einlægari og sterkari en innbyrðis óvild og andstaða milli jafnaðarmanna sjálfra.

Þjóðvarnarmenn ættu að hugleiða það, að eins og þeir nú starfa efla þeir og tryggja völd Sjálfstfl. og gera sérstefnu sinni í varnarmálum ekkert gagn með því að stofna áhrifalausan smáflokk. Hið eina, sem þjóðvarnarmenn geta gert, ef þeir vilja sigur umbótaaflanna, en ósigur íhaldsaflanna, er að sameinast Framsóknarflokknum og jafnaðarmönnum. Á þennan hátt geta þeir eflt fylkingu umbótamanna með því að vinna með henni að málum.

Að lokum nefni ég þær þúsundir manna, sem ekki eru kommúnistar, en gera sig óvirka ár eftir ár í íslenzkum stjórnmálum með því að kjósa kommúnistaflokkinn. Fjöldi ágætra manna, sem hafa gefizt upp á kommúnistum síðustu árin, hafa gerzt óvirkir með öllu, skipta sér ekkert af stjórnmálum.

Þau eru verst hin þöglu svik, stendur einhvers staðar. Ef þessir menn vilja ósigur íhaldsaflanna í landinu, hvers vegna sameinast þá ekki þessar þúsundir, sem eru óánægðar, eins og þeir, sem nú kjósa með kommúnistum án þess að vera kommúnistar? Hvers vegna starfar þessi hópur ekki með Framsóknarflokknum og jafnaðarmönnum? Samstarf lýðræðissinnaðra umbótaafla með þessum hætti eða öðrum er eina leiðin, sem til er til þess að hnekkja völdum Sjálfstfl., eina vantraustið, sem að gagni kemur. Hitt er ekkert annað en fálm og til þess að sýnast. Þeir, sem ekki vilja í verki styðja þessa einu færu leið, eru því, hvað sem þeir segja og hve oft sem þeir lýsa vantrausti, óheilir, vísvitandi eða óvitandi, í andstöðu sinni við Sjálfstfl. Þegar umbótaöflin í landinu sýna lit á því að vilja fara þessa einu færu leið og þegar Framsfl. neitar samstarfi við þessi samstarfsöfl, þá er kominn réttur tími til að ásaka Framsfl. fyrir íhaldssemi, en fyrr ekki.

En meðan þetta samstarf er ókomið, er eini vegurinn fyrir andstæðinga íhaldsstefnunnar að efla Framsfl., sem hefur verið og er eina trausta brjóstvörnin gegn algerum yfirráðum og yfirdrottnun íhaldsaflanna í landinu.

Meðan umbótaöflin eru sundruð og ekki þess umkomin að taka völdin, skapar samþykkt vantrausts eitt af tvennu: stjórnleysi eða meiri völd Sjálfstfl., sem færi þá einn með ríkisstj. Á þessu stigi telur Framsfl. sig ekki neyddan til að stofna til þess ástands í landinu.

Góðir hlustendur. Þegar önnur umbótaöfl sýna samstarfsvilja, einu leiðina til þess að hnekkja íhaldsöflunum, þá mun ekki standa á Framsfl. Það er að vísu nauðsynlegt að rífa niður fúin hús, en það er ekki hygginna manna háttur að rífa hús, sem notast má við í bráð, áður en líkur eru fyrir því eða vilji til þess að byggja skárra hús í staðinn.