04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (2697)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eitt af grundvallaratriðum í stjórnarskipun hins íslenzka lýðveldis er það, að ríkisstj. beri ábyrgð gagnvart Alþingi. Meiri hl. á Alþ. getur hvenær sem er vikið ríkisstj. frá völdum með því að samþykkja vantraust á stjórnina. Þeim meiri hl. þings, sem slíkt vantraust samþykkir, ber þá að mynda nýja stj. í stað hinnar, sem vikið er frá. Slíkt vantraust er borið fram með þeim rökum, að stjórnarstefnan í heild sé óheillavænleg fyrir þjóðina, stjórnin öll þurfi að víkja og önnur að taka við stjórnartaumum, til þess að stefnubreyting fáist fram. Með till. þeirri, sem hér er til umr., er farin önnur leið. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á núverandi menntamálaráðherra.“

Svo hugumstórir eru ekki þm. Þjóðvfl., að þeir flytji vantraust á ríkisstj. í heild. Svo mikil reisn er ekki á stjórnarandstöðu þess flokks. Till. þessi á að vera vottur þess, að einum ráðh. sé vantreyst af Þjóðvfl. Fimm ráðherrar eru þar undanskildir. Þeim er þá ekki vantreyst af þjóðvarnarmönnum. Meðal þeirra, er trausts njóta, eru allir ráðherrar Framsfl. Framsóknarflokkurinn má vel við una og ráðherrar hans að fá þann dóm frá andstæðingum.

Þessi till. sýnir, að flm. hennar beina vantraustinu ekki að stjórnarstefnunni í heild. Hún ber þess vott, að flm. till. telja sér óhægt um vik að ráðast gegn ríkisstj. með rökstuddri gagnrýni á stjórnarstefnuna. Vantrauststill. þessari er ekki heldur beint gegn Sjálfstfl. Áhrif Sjálfstfl. í stj. landsins eiga að haldast, þótt þessi till. yrði samþykkt. Því er ekki svo farið, að þingmenn Þjóðvfl. láti það í ljós með till. þessari, að þeir vantreysti Ólafi Thors til að skipa forsæti í ríkisstj. Hann á að verða áfram forsrh., þótt hv. þingmenn féllust á þessa till. Og Ingólfur Jónsson viðskmrh. má óáreittur sitja í ráðherrastól, að dómi Þjóðvfl. Og þótt svo færi, að hæstv. menntmrh. segði af sér, þá eru engar líkur til þess, að hæstv. forsrh. tæki Gils eða Berg í sæti hans. Stjórnarstefnan í heild mundi haldast óbreytt, áhrif Sjálfstfl. í ríkisstj. vera söm og áður. Má þá öllum ljóst vera, að hér er harla léttvæg málefnabarátta á ferðum.

En till. sem þessi er í samræmi við annan málflutning þjóðvarnarmanna. Hún er spegilmynd af þjóðmálastarfi Þjóðvfl. Þegar hinir stærri flokkar, sem fara með stjórn landsins, eru með löggjafarstarfi að finna lausn á og hrinda í framkvæmd hinum stærstu umbótamálum til hagsbóta fyrir almenning, þá sýna þjóðvarnarmenn viðhorf sitt til þeirra mála á eftirminnilegan hátt. Þegar Framsfl. beitti sér fyrir því á Alþ. sumarið 1942, að hafizt yrði handa um undirbúning heildarlöggjafar um raforkumál, sem leiddi til þess, að raforkulögin voru sett og framkvæmdir í raforkumálum stórauknar, þá gerði núverandi form. Þjóðvfl. grein fyrir hugsjónum sínum og afstöðu til þess mikilvæga máls í blaði, sem hann var þá ritstjóri að og reyndi að útbreiða með þjóðinni. Hann birti þá hugsjónir sínar með þessum orðum:

„Raflýsing fátæktarinnar. Forustumenn landbúnaðarins á Íslandi ætla ekki að láta sér nægja að steypa köld og rök steinhús utan um fátæktina á óbyggilegustu stöðum landsins, því að nú á að raflýsa fátæktina. Forustumenn dreifbýlisins lýsa því yfir, að nú eigi að raflýsa allt dreifbýlið. Tugum milljóna skuli nú varið af sameiginlegu fé landsmanna til að lýsa upp fátæktina og skapa hinum úrelta landbúnaði sams konar birtu og Reykvíkingar eiga við að búa.“

Og form. Þjóðvfl. hefur stigið feti framar en þetta. Alkunnugt er orðið geip þjóðvarnarmanna um föðurlandsást og hina sönnu sonu ættjarðarinnar, eins og þeir telja sjálfa sig. Þjóðvfl. lætur sig ekki muna um minna, svo sem sjá má á blaði hans, en að vitna til Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, rétt eins og þjóðvarnarmenn séu sérstakir arftakar þeirra sökum mikilla verðleika og hollustu við föðurlandið. Hve mikil skinhelgi þetta er, sést m. a. á því, að áratugum saman á 19. öldinni var það meginþáttur í frelsisbaráttu þjóðarinnar að endurreisa Alþingi og auka veg þess og völd. En form. Þjóðvfl. hefur leyft sér að fella dóm um löggjafarsamkomu þjóðarinnar og birta hann opinberlega í blaði. Sá dómur er þannig:

„Loddaraleikur ábyrgðarleysisins er fullkominn, þegar ábyrgðinni hefur verið velt yfir á marklausa samkundu, er kafnað hefur undir hinu virðulega heiti Alþingi.“

Flutningur þessarar till. og fleira úr sömu átt bendir til þess, að virðing Alþ. muni ekki vaxa við stofnun Þjóðvfl. Flokkurinn hefur raunar getið sér lítinn orðstír. Atkvæði þingmanna Þjóðvfl. ráða ekki úrslitum mála hér á þingi: Eftir Þjóðvfl. liggur ekkert löggjafarstarf, engar framkvæmdir í landinu, ekkert nema nöldur um það, sem gert er af öðrum flokkum til framfara.

Fáar meginreglur eru þó alveg án undantekninga, og svo er um þessa. Einu sinni hefur þingmönnum Þjóðvfl. gefizt kostur á að ráða úrslitum máls á Alþingi. Á síðasta þingi beittu sjálfstæðismenn sér fyrir því, að sett voru ný lög um brunatryggingar húsa í Reykjavík. Vildu sjálfstæðismenn lögfesta sérstöðu Reykjavík til handa í þeim efnum og veita bæjarstjórn Reykjavíkur heimild til þess að taka að sér tryggingarnar að meira eða minna leyti. Flutt var brtt. við málið um það, að önnur sveitar- og bæjarfélög skyldu fá sama rétt og Reykjavík í þessu efni. Brtt. þessi kom til atkvæða í Nd. Alþingis 26. marz s.l. og var þá samþykkt. Þingmenn Þjóðvfl. greiddu þá atkv. gagnstætt Sjálfstfl. Svo leið hálfur mánuður. Þjóðvfl. gafst tækifæri til að sýna staðfestu sína og þrek í málafylgju gegn sjálfstæðismönnum. Málið fór til Ed. Sjálfstæðisflokknum tókst þar að breyta því í það form, sem flokkurinn kaus helzt. Hinn 12. apríl s.l. vor kom málið til lokaafgreiðslu í Nd. Þá var flutt að nýju sama till. með nákvæmlega sama orðalagi, er áður var samþykkt í deildinni. Allir þm. höfðu þá sömu skoðun á málinu og áður og greiddu atkv. sem fyrr, nema þingmenn Þjóðvfl. Það réð úrslitum. Brtt. var þá felld. Málið var lögfest eins og Sjálfstfl, beitti sér fyrir. Þegar sýnt var, að þingmenn Þjóðvfl. gætu ráðið úrslitum máls, þá varð þeim ekki skotaskuld úr því að skipta um skoðun í skyndi til þess að geta veitt Sjálfstfl. þjónustu með auðmýkt og komið fram vilja þess hæstv. ráðh., sem vantrauststillögu þessari er nú beint að.

Till. þessi ber það með sér, að flutningur hennar er af sama toga spunninn og önnur málefnabarátta Þjóðvfl. Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni. Og till. sýnir fleira en enn er talið. Hún sýnir það, að eigin orð þjóðvarnarmanna eiga við um þá sjálfa. „Loddaraleikur ábyrgðarleysisins er fullkominn“ hjá flokki, er kafnað hefur undir hinu virðulega heiti: Þjóðvarnarflokkur Íslands.

Þó að þessi vantrauststill. sýni býsna skoplega mynd af Þjóðvfl., þá ætti hún að verða þjóðinni íhugunarefni. Allt starf Þjóðvfl. innan þings og utan virðist stefna að því að skapa klofning og glundroða. Fylgi Sjálfstfl. fer minnkandi í hlutfalli við kjósendafjölda í landinu. En þó að fylgi Sjálfstfl. minnki í hlutfalli við kjósendafjölda, þá minnka ekki áhrif flokksins. Það er vegna þess, hve þeir flokkar, sem eru í andstöðu við hann, eru margir og sundraðir. Allt starf Þjóðvfl. stefnir að því og miðast við það að sundra andstæðingum Sjálfstfl. enn meira en orðið er og efla með því áhrif og völd sjálfstæðismanna. Það er því ekki aðeins í sambandi við brunatryggingar í Reykjavík, að Þjóðvfl. er auðsveipt hjú, heldur reynist hann Sjálfstfl. í hvívetna hin bezta hjálparhella, þó að vantrauststill. þessi sé nú höfð að yfirvarpi. Málefnabarátta af þessu tagi ætti að færa almenningi heim sanninn um það, að sjálfsagt er að gefa Þjóðvfl. algert frí frá störfum við fyrsta tækifæri. Það yrði sannarlega áhrifaríkara fyrir fólkið, sem hefur kastað atkvæðum á Þjóðvfl., að vinna að áhugamálum sínum innan annarra flokka. Flutningur þessarar till. ætti því að verða kjósendum í landinu viðvörun, bending um það, hvaða hlutverki Þjóðvfl. gegnir á sviði íslenzkra stjórnmála, áminning um það, að af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

Skoðanafrelsi, málfrelsi og prentfrelsi eru hornsteinar lýðræðis, hin helgustu mannréttindi, sem sérhverjum Íslendingi eru tryggð með stjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis. Framsfl. hefur aldrei mælzt undan opinberum umræðum í blöðum og á fundum um þau mál, sem á baugi eru með þjóðinni hverju sinni, hvort sem um er að ræða stefnumál flokka eða stjórnarathafnir einstakra ráðherra. Og Framsfl. mun ekki framvegis mælast undan slíkum umræðum. Blöð flokksins skýra stefnu flokkanna og ágreiningsmálin hispurslaust, og benda á margt, sem betur mætti fara, þar á meðal um einstakar stjórnarathafnir ráðherra, þó að flokkurinn sé í samstarfi í ríkisstjórn. Og svo mikið frjálsræði og frjálslyndi ríkir við blöð Framsfl., að sjálfsagt þykir að ljá þar rúm aðsendum greinum, þó að þar séu settar fram skoðanir um almenn mál, sem falla ekki öllum vel í geð.

Samkvæmt skólalöggjöfinni eiga skólanefndir að láta auglýsa lausar kennara- og skólastjórastöður, taka á móti umsóknum og láta fræðslumálastjórninni í té rökstutt álit á umsækjendum, ásamt tillögum um, hver skuli valinn. Skylt er skólanefnd að leita álits skólastjóra um umsækjendur, er velja á kennara, en álits námsstjóra, ef velja á skólastjóra. Mat svo margra manna á að vera til tryggingar því, að valið fari eftir hæfni umsækjenda og reynslu í starfi. Þó að veitingarvaldið sé í höndum ráðherra, er það andi skólalaganna, að farið sé eftir tillögum skólanefnda, þegar embætti eru veitt við skóla landsins. Sé út af því brugðið, brýtur það í bága við anda fræðslulaganna og skapar varhugavert fordæmi. Er ekki óeðlilegt, að á slíkt sé bent í blöðunum. Mistökum í þessum efnum hlýtur ávallt að verða gaumur gefinn, m. a. af kennarastétt landsins.

Störf Alþingis eru mikilvæg og áhrifarík fyrir þjóðarheildina. Á Alþingi er fjallað um fjárhagsmál þjóðarinnar, kveðið á um fjölþættar framkvæmdir í landinu á vegum ríkisins, og afskipti þings og stjórnar af hvers konar atvinnumálum fara stöðugt vaxandi. Því meiri vonir standa til þess, að gifta fylgi störfum Alþingis og farsæld fyrir alþjóð, ef meiri hluti þingmanna gengur til samstarfs um ákveðna stjórnarstefnu. Framsfl. hefur ekki látið köpuryrði þjóðvarnarmanna hafa áhrif á störf sín eða stefnu um það, að steypt sé hús utan um fátæktina, um það, að nú eigi að raflýsa fátæktina, og önnur af sama toga. Framsfl. vinnur að framförum og farsæld þjóðarinnar með löggjafarstarfi og í ríkisstjórn, og hann vill leggja því fólki lið í lífsbaráttunni, sem vinnur nauðsynleg störf hörðum höndum hvar sem er í landinu. Eftir síðustu kosningar gerði Framsfl. málefnasamning við Sjálfstfl., og er nú unnið að því að festa í lög og framkvæma það, sem um var samið. Í þessu samstarfi vinnur Framsfl. að því m. a., að fjárhagskerfi þjóðfélagsins sé traust og að miklum framkvæmdum í raforkumálum og á fleiri sviðum, blátt áfram með það fyrir augum að veita því fólki, sem vinnur þjóðnýt störf úti í byggðum landsins, sams konar birtu og Reykvíkingar eiga við að búa. Þingmenn flokksins og miðstjórn munu meta það á hverjum tíma, hvernig horfir með stjórnarstefnuna í heild og framkvæmd hennar, og ákveða eftir því, hvenær þessu stjórnarsamstarfi skuli slitið. Flokkurinn mun enn sem fyrr fylgja þeirri reglu að láta málefnin ráða.