04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (2703)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ætla mætti að mikilvæg, alvarleg og sérstæð rök væru færð fyrir því, að borin er fram vantrauststillaga á Alþingi á einstakan ráðherra.

Nú hefur hv. þm. gefizt þess kostur að hlýða á mál flm. þeirrar vantrauststillögu. sem hér hefur verið til umr., og landsmönnum hefur jafnframt gefizt þess kostur að hlýða á málflutning allan hér á Alþ., og þá jafnframt röksemdir og greinargerð þess, sem vantraustinu var stefnt gegn, hæstv. menntmrh.

Þingmenn vissu frá öndverðu, að bak við flutning þessarar vantrauststillögu var engin alvara, hvað þá röksemdir, og hefur það greinilega komið fram í þessum umr. Umr. hafa vissulega staðfest þetta glögglega, en þessar umr. hafa á hinn bóginn leitt ótvírætt í ljós, hversu traustum fótum hæstv. menntmrh. stendur gagnvart þeim einstökum ásökunum, sem að honum hefur verið beint, og að ráðh. hefur boðað þingheimi og alþjóð trausta og farsæla heildarstefnu í menningar- og menntamálum þjóðarinnar, sem hann þegar hefur mótað og stefnir að í starfi sínu sem menntmrh.

Ég tel fullvíst, að landsmenn hafi hlýtt með athygli á þann boðskap, sem hæstv. menntmrh. hafði að flytja um viðhorf sitt til menningar- og menntamálanna og skólamálanna sérstaklega, og því verði almennt fagnað, að á þeim málum er tekið jafntraustum tökum og fram kom í ræðu ráðh. Ég held, að almenningur telji sízt vanþörf skeleggrar forustu þessara mála. Víða er mikilla umbóta þörf, og hefur menntmrh. þegar beitt sér fyrir mikilvægum lagfæringum varðandi skólakerfið, eins og hann vék að, og mun m. a. leggja till. um þær fyrir þetta þing í lagafrv.

Ég tel raunar, að vantrauststillagan hafi verið útrætt mál þegar eftir ræðu menntmrh., og það vakti sérstaka athygli, að þegar fyrsti flm. talaði á eftir menntmrh., þá hafði hann í raun og veru ekkert, varla nokkurt orð, að segja um þær röksemdir og þær varnir, sem hæstv. menntmrh. hafði fram flutt. Mun Þjóðvfl. af öllum þessum málatilbúningi uppskera lítinn sóma, og fer þá eins og til var stofnað.

Einstökum ásökunum um tiltekin embættisverk menntmrh. hefur hann öllum svarað lið fyrir lið. Enginn fótur er fyrir því, að ráðh. hafi í minnsta máta misbeitt ráðherravaldi sínu. Ákvarðanir sínar um örfáar umdeildar embættisveitingar, einar fjórar af á fjórða hundrað, hefur ráðh. rökstutt til hlítar og þar á meðal með ótvíræðum og sterkum dómum annarra og hlutlausra aðila um hæfni þeirra, sem embættin voru veitt.

Að öðru leyti hafa umr. andstæðinganna hér í kvöld einkennzt af karpi um almenn stjórnmál eða önnur mál, lítt eða ekkert skyld stjórn Bjarna Benediktssonar á menntamálum þjóðarinnar. Aðalefni fyrri ræðu. fyrsta flm. vantrauststillögunnar var lestur úr dagblöðum bæjarins í september- og októbermánuði. Gils Guðmundsson er kunnur að því að vera nokkuð glöggur grúskari, og honum tókst ekkert illa að taka upp þessar blaðagreinar, en það var út af fyrir sig ekki merkileg ræða. Síðari ræðan var, eins og ég sagði, ekkert, engar athugasemdir um málsvörn ráðherrans, og má veita því sérstaka athygli. Aðrir ræðumenn hafa litið vikið að efni þessarar till. Aðalræðumaður kommúnistaflokksins sagðist ekki líta á till. sem vantraust á menntmrh., heldur á stjórnina, ræddi svo í sínu máli fyrst og fremst um varnarmálin, kyrrstöðuna í atvinnulífi þjóðarinnar, sem hann sagði alls staðar vera yfirvofandi. Átakanlegastur var þó kafli ræðumannsins um hið geigvænlega síldarleysi fyrir norðan. Sennilega hefur þetta verið óvart, að vekja einmitt athygli á erfiðleikum síldarleysisins, því að væntanlega ætlast ekki þessi hv. þm. eða aðrir þm. kommúnistafl. til þess, að hlustendur áliti, að síldarleysið sé skipulagt af ríkisstjórninni.

Það var mikið blygðunarleysi af hv. 4. landsk., Brynjólfi Bjarnasyni, að nefna alveg sérstaklega tvær stöðuveitingar, sem báðar vöktu reginhneyksli í ráðherratíð hans, þ. e. þegar veitt var skólastjórastaðan við Austurbæjarskólann og í Neskaupstað. En ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að hann segist hafa stutt sig í embættisveitingu sinni á skólastjórastöðunni við Austurbæjarbarnaskólann við umsagnir kennaranna og sagði orðrétt: „sem töldu engan annan koma til greina“ en kommúnistann, sem veitt var staðan.

Ég bið hv. þm. og hlustendur að taka eftir þessu. Hversu mikið mark er nú takandi á umsögnum manna, sem eru slíkar? Þessir menn töldu engan annan koma til greina. Þó er vitað, að meðal umsækjenda var Gísli Jónasson, hinn ágætasti skólamaður, sem verið hafði yfirkennari um langan tíma og gegnir nú með mestu prýði skólastjórastarfi hér við Langholtsskólann. Þetta sannar vissulega, hversu ráðherra þarf að dæma sjálfstætt um umsagnir þeirra, sem í það og það skiptið mæla með hinum einstöku mönnum, sem um stöðurnar sækja.

Varðandi það, að hv. 4. landsk. kvartaði undan því, að kommúnistar væru settir hjá við stöðuveitingar, þá langar mig til að nota tækifærið til að segja mína persónulegu skoðun á því, að þeir, sem setja þjónustu sína við pólitíska stefnu ofar skyldunni við opinbera trúnaðarstöðu, og það gera allir flokksbundnir kommúnistar, eiga ekkert erindi í trúnaðarstarfið, og það á að varast að veita þeim það.

Þm. talaði af mikilli skinhelgi og þóttist hafa verið ákaflega réttlátur í öllum embættaveitingum sinum, þó að vitað sé t. d., að þessi þm. reyndi, meðan hann var ráðherra, að troða kommúnistum alls staðar í skólanefndarformennsku, hversu lélegir sem þeir voru, og vakti það hneyksli í sýslum og hreppum landsins.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, talaði mikið um ýmsar almennar greinar stjórnmálanna, og get ég ekki eytt tímanum í kvöld til að víkja að því, en um íbúðabyggingarnar, sem hann vék að í báðum ræðum sínum, vil ég segja þetta. Hann kvartaði undan lánsfjárskortinum og ásakaði ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki bætt úr honum. Það er vitað, að það er á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar að ráða fram úr þeim vandamálum til frambúðar. Að því hefur verið unnið af hálfu hæstv. ríkisstj., og það standa vonir til, að á þessu þingi verði einmitt í fyrsta skipti lagðar fram till., sem vænta má að einhverjar varanlegar úrbætur felist í í þessu máli.

Þegar hv. þm. sagði, að menn þyrftu nú að búa við byggingarefnisskort í landinu, þá er furða, að menn skuli segja annað eins í þingsölunum, þegar vitað er, að innflutningur byggingarefnis til landsins hefur aldrei verið meiri en á þessu ári og byggingar aldrei meiri. Ég hygg, að það muni vera um 1000 íbúðir í byggingu í Reykjavík og um 1400 í Reykjavík og nágrenni, og er það kannske nærri helmingi meira en mest hefur verið á undanförnum árum.

Hitt er svo annað mál, að þegar fyrsta stjórn Alþfl., undir forsæti formanns Alþfl., tók við völdum hér á árunum, þá var í raun og veru gerð tilraun til að banna að byggja með þeim ströngu fjárfestingartakmörkunum, sem þá voru settar á í þjóðfélaginu. Þessum manni ferst því allra sízt að tala um þessi mál, en vegna þess, hvað þau eru viðurhlutamikil og snerta marga, þótti mér rétt að víkja nánar að þeim.

Ég vil segja um ræðu formanns Framsfl., hv. þm. Str., að hún var mikil traustsyfirlýsing fyrir Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn. Hann líkti þeim við hina gömlu Rómverja, en hjá þeim er að finna eitt merkasta stjórnartímabil í fornöldinni, og mega sjálfstæðismenn vel við una þá samlíkingu.

Það var mikil blekking í samanburðinum á kosningatölum fyrr og nú hjá hv. þm. Hann vitnaði í hundraðstölu sjálfstæðismanna við síðustu kosningar og taldi hana minni en áður. Það er vitað, að það var gerð tilraun í síðustu kosningum til þess að sundra röðum sjálfstæðismanna, og það kemur fram í hundraðstölunni, en þessi tilraun til sundrunar er nú, eins og allir vita, úr sögunni.

Annars gaf hv. form. Framsfl. ýmsar afar merkilegar yfirlýsingar, sem ekki er tími til að ræða hér nú, en verður munað eftir. Og fyrir bændur landsins hlýtur ræða formanns Framsfl. að vekja mikla furðu. Framsfl. telur sig fyrst og fremst bændaflokk. Formaðurinn telur það svo bezta úrræðið að biðla til allra annarra flokka um samstarf en Sjálfstfl., sem hefur þó engu minna bændafylgi en Framsfl. og er og hefur ævinlega verið hinn ótrauðasti málsvari bænda. Ég hygg, að bændum landsins muni áreiðanlega verða slíkar yfirlýsingar nokkurt umhugsunarefni í nótt og kannske næstu nætur og e. t. v. lengur, ef formaður Framsfl. óskar eftir.

Það var svo broslegt að öðru leyti að heyra það, að form. Framsfl., sem er nú af flestum með réttu talinn mesti íhaldsflokkur þessa lands, skyldi eyða miklu af ræðutíma sínum í að flytja bölbænir um íhaldið.

En ánægjulegust var þó spá formanns Framsfl. um úrslit næstu kosninga. En þar sagði hann orðrétt, að andstæðingar Sjálfstfl. gætu ekki unnið á, þeir gætu ekki unnið á, nema þeir stæðu allir saman. Og ég veit, að hv. hlustendur fara nokkuð nærri um það, eftir umræðurnar hér í kvöld, hversu vel þeim gengur að standa saman.

Því er ekki hægt að neita, að umr., þó að þær beinlínis hafi ekki snúizt um feril núverandi hæstv. menntmrh., hafa samt snúizt allverulega um Bjarna Benediktsson. Hann hefur nú í nær 8 ár átt sæti í ríkisstjórn Íslands. Í stjórnartíð sinni hefur hann veitt forstöðu hinum veigamestu ráðuneytum, utanrrn., dómsmrn. og nú menntmrn. Löngu áður en Bjarni Benediktsson varð utanrrh. og tók þannig við forustu þeirra mála, mun enginn annar Íslendingur hafa haft meiri áhrif á framkvæmd og mótun þeirra mála, enda jafnan kvaddur til ráðuneytis, þegar mestan vanda ber að höndum. Vita þeir það bezt, sem áður höfðu forustu málanna í ráðherrastóli, og þori ég ótrauður að skírskota í þessu efni til tveggja form. andstæðra stjórnmálaflokka, Hermanns Jónassonar, form. Framsfl., og Stefáns Jóh. Stefánssonar, fyrrverandi form. Alþfl., sem báðir eiga hlut að máli.

Í síðasta áfanga sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar var Bjarni Benediktsson í fremstu víglínu, og tel ég á engan hallað, þótt sagt sé, að enginn einn hafi lagt drýgri skerf að málum við endurreisn lýðveldis á Íslandi. Á fyrstu árum lýðveldisins féll það í skaut form. Sjálfstfl., Ólafs Thors forsrh., og Bjarna Benediktssonar að veita utanríkismálunum forstöðu sem utanrrh. Þá voru tímar gerbyltinga og umróts í lok geigvænlegrar heimsstyrjaldar og margvíslegur vandi búinn hinni minnstu þjóð, ekki sízt eftir að hið kalda strið kommúnismans og stríðsógnir hans einkenndu samskipti þjóðanna.

Það var alltaf flokkur manna, sem vantreysti Bjarna Benediktssyni sem utanrrh., en hverjir voru það? Það voru fulltrúar þeirra afla, sem grafa undan íslenzkri þjóðmenningu og sjálfstæði, kommúnistarnir, fulltrúar upplausnaraflanna í þjóðlífinu, — þeir, sem ekki treystu Bjarna Benediktssyni til að bregðast hinum íslenzka málstað og láta stjórnast í viðkvæmustu málum þjóðarinnar að fyrirlagi erlendrar stefnu.

Segja má, að af ekki ólíkum toga sé vantraust það spunnið, sem nú er hér til umr. Ég hygg, að hvorugur þm. Þjóðvfl., Gils Guðmundsson eða Bergur Sigurbjörnsson, sem vantrauststillöguna flytja, vantreysti því, að Bjarni Benediktsson sé einmitt fyrir flestra hluta sakir sérlega hæfur maður til þess að veita menntamálum þjóðarinnar forustu. En þeir treysta hins vegar því, að enda þótt svo sé, megi samt takast að koma illu til leiðar, vegna þess að allmikið hafa verið skiptar skoðanir manna um einar fjórar embættaveitingar ráðherrans af á fjórða hundrað kennarastöðum, sem hann hefur veitt á þessu hausti. Þetta er meira en hæpinn grundvöllur til vantrausts af hálfu þeirra, sem sjálfir telja sig vera að boða nýtt siðgæði í opinberu lífi. Og hún verður nokkuð væmin, skinhelgi Gils Guðmundssonar, um siðgæði þeirra þjóðvarnarmanna, þegar slíkt er haft í huga.

Eðli málsins samkvæmt ráða hin ólíkustu persónulegu sjónarmið, kunningsskapur og tilfinningar manna almennt afstöðu þeirra til þess, hver hreppa eigi stöðu eða embætti, sem margir sækja um.

Varðandi aðstöðu ráðherrans vil ég árétta það, sem fram hefur komið í þessum umr. og ekki verður um deilt. Hann hefur vald til þess að veita embætti. Tillögurétt hafa aðrir aðilar, eða umsagnarrétt um þá, sem sækja. Ráðherranum er ekki aðeins heimilt að fylgja ekki umsögn annarra, honum er líka skylt að gera sér sjálfstæða grein fyrir, að hve miklu leyti sé réttmætt að láta umsagnir annarra ráða ákvörðun ráðherrans um embættisveitinguna.

Ég bið hv. þm. og virðulega hlustendur að veita athygli, að mönnum skilst betur þessi síðasti þáttur málsins, þegar tekið er ákveðið dæmi. Við veitingu skólastjórastöðunnar í Hafnarfirði er umsögn námsstjóra á þá leið, að hann mælir með öðrum af tveim umsækjendum sem fyrsta manni, af því að hann hefur starfað á námsstjórnarsvæði hans og hann þekkir þess vegna til starfa hans af eigin reynslu. Hinn setur hann í annað sæti vegna lofsamlegra afspurna af störfum hans sem kennara á Akureyri og skólastjóra í Hrísey. Hér orkar ekki tvímælis, að ráðh. ber embættisskylda til að afla sér frekari vitneskju um annan umsækjandann, þar sem eigin reynslu og þekkingu námsstjórans á manninum þraut.

Þetta gerir ráðherrann og fær þá hin beztu meðmæli hins ágætasta skólamanns, sem einmitt hafði verið námsstjóri fyrir norðan, Snorra Sigfússonar, og þekkti þannig af eigin raun þann umsækjanda, sem hinn námsstjórinn þekkti ekki. Fyrir þessu gerði hæstv. menntmrh. grein í sinni ræðu.

Eins og ég sagði áður, geta menn úr öllum flokkum af ýmsum ástæðum haft mismunandi skoðanir á því, hver hér skyldi hreppa stöðuna. En enginn maður úr neinum flokki getur með minnsta rétti haldið því fram, að menntmrh. hafi misbeitt veitingarvaldinu.

Hæstv. menntmrh. hefur ekki afsakað sig með gerðum annarra. Ásakanir þm. Þjóðvfl., Glls Guðmundssonar og Bergs Sigurbjörnssonar, um þetta eru algerlega út í hött, og var auðséð, að þessa kafla úr ræðum þeirra hafa þeir samið, áður en þeir heyrðu ræðu hæstv. ráðh. Ráðherrann hefur afdráttarlaust rökstutt sínar gerðir, en hann hefur jafnhliða bent á, að allar hinar fjórar umdeildu stöður hafa fyrirrennarar hans í ráðherrastóli áður veitt með minni stuðningi af umsögnum þeirra, sem tillögurétt höfðu, en hann sjálfur. En á engan hátt gerði hann tilraun til þess að afsaka sjálfan sig með því, heldur færði glögg rök fyrir því, vegna hvers hann hefði tekið þá afstöðu, sem hann tók.

Mér þykir mjög sennilegt, að meðráðherrar Bjarna Benediktssonar vildu gjarnan kjósa sér hlutskipti hans í þessum umr. Alls staðar sjá andstæðingarnir Bjarna Benediktsson, eins og fram hefur komið í umr. Bjarni hefur alla tauma íslenzkra, stjórnmála í sinni hendi, segja þeir. Bjarni réð mestu um myndun núverandi ríkisstjórnar. Bjarni er áhrifamestur um stefnuna í utanríkismálunum. Bjarni lét framsóknarmenn beygja sig undir dómsmálastjórn sina, og myndin af Bjarna er mynd ríkisstjórnarinnar, og svona mætti lengi telja. Hæstv. menntmrh. hefur ekki aðeins borið af sér sakir, heldur hafa umræðurnar í kvöld óhjákvæmilega beint sjónum almennings að stjórnsemi þessa ráðherra á sviði skólamálanna og þeirri mótuðu stefnu, sem hann hefur markað í menningarmálunum.

Ráðherrann ræddi ýtarlega um skólakerfið og annmarka þess, sem þyrfti að lagfæra. Hann gerði grein fyrir því, að hann hefði undirbúið víðtæka löggjöf um fjármál skólanna, sem mikill glundroði hefur ríkt um. Hann ræddi um nauðsyn þess að umbæta námsskrá skólanna með það fyrir augum að draga úr ítroðslunni, er skapar námsleiða, en fer á snið við raunhæfan, nauðsynlegan lærdóm og þroska. Ráðherrann lagði áherzlu á, að frjálslyndi og frelsi fengi að njóta sín í listum og æðri menningu þjóðarinnar.

Ég leyfi mér að lokum að árétta þann almenna boðskap, sem hæstv. menntmrh. flutti, að byggja skólafræðsluna á hinni fornu menningu okkar Íslendinga, þekkingunni á íslenzkum fræðum og kristinni trú. Ég þykist þess fullviss, að allur þorri manna, sem á börn og unglinga í skólum landsins, muni taka undir þessi orð menntmrh.:

„Við verðum að setja gróður og vöxt í stað eitrunar og eyðileggingar, uppbyggingu í stað niðurrifs. Við verðum að sjá um, að skólarnir geri sitt til, að sem flestir unglinganna verði nýtir menn, með því að kenna þeim frá barnæsku það, er íslenzku þjóðinni hefur reynzt bezt, okkar fornu tungu og bókmenntir ásamt kristinni trú. Við verðum að sannfæra alla æskumenn um, að engum nýtum manni er ofaukið í íslenzku þjóðfélagi.“

Þetta voru orð hæstv. menntmrh., og mér þykir jafnlíklegt, að hv. þm. muni sama sinnis, eins og ég geri ráð fyrir, að almenningur sé, og taki undir þessa almennu stefnu, og því verði örugglega felld sú vantrauststillaga, sem nú hefur verið hér rædd.