23.02.1955
Sameinað þing: 38. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

154. mál, minning Jóns Þorkelssonar skólameistara

Flm. (Gunnar M. Magnúss):

Herra forseti. Ég hef flutt till. til þál. um minningu Jóns Þorkelssonar skólameistara. Er þar gert ráð fyrir, að Alþ. kjósi fimm manna nefnd, einn mann frá hverjum þingflokki, til þess að gera till. um, á hvern hátt Jóns Þorkelssonar, „föður íslenzkrar alþýðufræðslu“, verði maklegast og virðulegast minnzt á 200. ártíð hans að 4 árum liðnum, 5. maí 1959.

Ég hygg, að segja megi með réttu, að það sé ekki vonum fyrr, að fram komi hér á Alþ. till. um, að eitthvað markvisst sé gert til þess að heiðra minningu þessa mæta manns. „Faðir íslenzkrar alþýðufræðslu“, það eru orðin, sem þjóðin hefur tengt við nafn hans. „Faðir Reykjavíkur“ er heiti, sem annar ágætur maður hefur hlotið. „Listaskáldið góða“ er einkunn, sem allir þekkja, hverjum hlotnazt hefur. Bak við slíkar nafngiftir er mikil saga, þótt hún sé orðfá. Hún segir þó, að slíkir menn hafi gefið þjóðinni meira en orð fá lýst.

Jón Þorkelsson, faðir íslenzkrar alþýðufræðslu, hefur í tvennum skilningi rennt stoðum undir alþýðumenninguna og alla menningu þjóðarinnar.

Skömmu fyrir dauða sinn arfleiddi hann fátæk og munaðarlaus börn í Kjalarnesþingi að öllum eigum sínum, löndum og lausum aurum. Er það hin stærsta gjöf, sem enn hefur verið gefin börnum á Íslandi. Af því fé er Thorkilliisjóðurinn stofnaður. Að hinu leytinu varði hann öllu lífi sínu til þess að lyfta þjóðinni úr hnipri fáfræði og skuggum umkomuleysis upp í birtu þekkingar og menningar.

Jón Þorkelsson var Suðurnesjamaður, fæddur 1697 í Innri-Njarðvík. Úr Skálholtsskóla brautskráðist hann 18 ára, efstur í skólanum. Vakti hinn gáfaði piltur mikla athygli, hvar sem hann fór, og virtist honum opin leið til lærdóms og frama. Tvítugur að aldri settist hann í Kaupmannahafnarháskóla og las síðan eitt ár við háskólann í Kiel. Eftir 10 ára dvöl erlendis var hann orðinn einn mesti lærdómsmaður þjóðarinnar og talinn hið mesta latínuskáld hennar. Hann hafði lagt stund á margs konar fræði, málfræði, guðfræði, mælskufræði. stærðfræði, grasafræði, læknisfræði og þjóðréttarvísindi. Hann ritaði um landafræði Íslands í erlend landfræðirit og leiðrétti þar með ranghermi ýmissa erlendra höfunda um land og þjóð. Segir Þorvaldur Thoroddsen, að Jón hafi hrakið margar skröksögur eldri höfunda og eigi fyrir það þakkir skilið. Þá var skoðun Jóns á þjóðréttarstöðu landsins hin markverðasta, því að hann hélt því fram, að „landið lúti konungi alleina“. Jóni Sigurðssyni þótti lífsstarf Jóns Þorkelssonar hið markverðasta og skoðanir hans og tillögur hinar athyglisverðustu.

Jón Þorkelsson varð skólameistari í Skálholti 1728 og þjónaði því embætti í 9 ár af dugnaði og alúð og „röggsemi í lærdómi og lifnaði“. Hann ferðaðist ásamt Lúðvík Harboe, síðar Sjálandsbiskupi, um landið árin 1741–45 til þess að rannsaka menntunarástand landsmanna. Var þá prófuð lestrarkunnátta í öllum sveitum landsins. Eftir rannsókn þeirra voru að undirlagi Jóns gefnar út margar og merkar tilskipanir til þess að bæta úr hinu bágborna menningarástandi, sem var í flestum héruðum.

Þrjú dæmi skulu nefnd frá þessari rannsókn. Í fjölmennasta söfnuði á Íslandi. Gaulverjabæ og Stokkseyri, voru 970 manns, þar af var 721 ólæs, en aðeins 249 læsir. Í þeirri sókn sem Reykjavík er í og hefur verið í, þ. e. Vík á Seltjarnarnesi, Nes og Laugarnes. voru 484 manns, þar af voru 333 ólæsir, en 151 læs. Í Hrunasókn var ástandið einna verst, þar voru 205 manns og 180 ólæsir af þeim.

Svo bar til, að biskupslaust var bæði á Hólum og í Skálholti um þær mundir, er Jón Þorkelsson og Harboe ferðuðust hér um. Þeir réðu því, hverjir voru settir á biskupsstólana. Og það sýnir mjög áhuga þeirra fyrir uppfræðslunni, að í Skálholti varð biskup Ólafur Gíslason, maður ekki háskólagenginn, en naut þess, að hann hafði sýnt áhuga fyrir uppfræðslu barna í söfnuðum sinum. Þá voru gefnar út tilskipanir um fermingu og kristindómsfræðslu 1744, Ponti-lærdómskverið prentað í fyrsta sinn, ný tilskipan um húsvitjanir presta 1746, og 1745, síðasta rannsóknarár þeirra, er stofnaður fyrsti barnaskóli á Íslandi, í Vestmannaeyjum.

Jón Þorkelsson gerði skrá yfir umbótatillögur sínar. Hann taldi nauðsynlegt, að stofnaðir yrðu opinberir barnaskólar. Hann bar fram till. um afnám brennivíns og „hegning fyrir vanbrúkun þess og fyrir ofdrykkju“. Hann setti fram hugmyndina um háskóla hér á landi, þar eð hann lagði til, að stofnaður yrði framhaldsskóli fyrir embættismannaefni landsins. Hafði hann Hítardal í huga sem stað fyrir prestaskóla og framhaldsskóla fyrir stúdenta. Hann átti upptökin að hugmyndinni um landlæknisembættið, um drykkjumannahæli, um styrk til stúdenta til háskólanáms, um tvo vígslubiskupa í landinu, til þess að biskupsefni þyrfti ekki að fara utan til vígslu.

Þá skal ég með nokkrum orðum minnast á gjöf Jóns til alþýðumenningarinnar, Thorkilliisjóðinn. Jón átti miklar eignir og gaf þær allar til uppeldismálanna. Hann átti 8 jarðir hálfar eða meira. Sjóðsstofnunin á Íslandi var afgjaldið af jörðunum. Hann átti allmikið bókasafn, og eftir hann lágu nokkur þúsund dalir á vöxtum í Kaupmannahöfn. Gjöf Jóns Þorkelssonar hleypti lífi í hugmyndina að skóla fyrir æskulýðinn. Lögðu ýmsir mætir menn skerf til málanna og tillögur í því sambandi. Má þar til nefna Magnús amtmann Gíslason, Einar Jónsson, fyrrum skólameistara, og Finn biskup Jónsson. Þá var árið 1791 stofnaður hinn markverðasti skóli, kostaður að öllu af gjöf Jóns Þorkelssonar; það var Hausastaðaskólinn á Álftanesi, heimavistarskóli fyrir börn. Sá skóli starfaði á hinum erfiðustu tímum, en var þó skært ljós í því myrkri, sem grúfði yfir fyrir og eftir aldamótin 1800. Þannig var komið málum veturinn 1804–05, að skólalaust var á Íslandi að undanteknum Hausastaðaskóla með 12 börnum í heimavist. Hólaskóli og Skálholtsskóli voru báðir lagðir niður og sameinaðir Reykjavíkurskóla, þ. e. Hólavallaskóla, en hann varð að hætta sökum margs konar niðurníðslu, og þá er það skóli Jóns Þorkelssonar, sem brúar bilið, svo að ekki er aldeyða í skólahaldi, en Bessastaðaskóli var svo stofnaður haustið eftir, 1805.

Mikill bókaskortur og pappírsskortur var í landinu á árunum 181o–16, og 1812 lagðist Hausastaðaskólinn niður eftir 21 árs starf, og var nú aftur barnaskólalaust í landinu. En 1830 kemur gjöf Jóns Þorkelssonar að notum, þegar stofnaður er fyrsti barnaskóli í Reykjavík með styrk úr Thorkilliisjóði. Það var einkaskóli. Þegar styrkurinn úr Thorkilliisjóði var tekinn af skólanum 1848, lagðist hann niður sökum fjárskorts.

Árangurinn af starfi Jóns Þorkelssonar á þessum sviðum hafði undraverð áhrif til þess að lyfta undir menningu þjóðarinnar. Tilskipanir þeirra Harboes náðu tilgangi sínum. Prestar lögðu meiri rækt við uppfræðsluna en fyrr. Biskuparnir, þeir feðgar Finnur Jónsson og Hannes, sonur hans, fylgdu tilskipununum fram af dugnaði miklum, og svo hafði lestrarkunnáttu fólks fleygt fram, að 30 árum eftir dauða Jóns Þorkelssonar mátti svo kalla, að þjóðin væri orðin allæs. Skal aðeins nefnt eitt dæmi um þetta til samanburðar við það, sem ég nefndi hér fyrr. Árið 1787 var Reykjavík, Nes og Seltjarnarnes annar fjölmennasti söfnuður landsins með um 700 manns. Þar af voru þá aðeins 40 ólæsir, en þar höfðu verið 333 ólæsir af 484 manns, sem voru í sókninni 30 árum áður.

Thorkilliisjóðurinn hefur orðið fyrir ýmsum áföllum og ekki ávaxtazt eðlilega. Árið 1770 var hann 4170 ríkisdalir og 1783 5700. Árið 1812, sama ár og Hausastaðaskólinn var lagður niður, átti sjóðurinn ytra 8878 ríkisdali, og árið 1839 var sjóðurinn alls 12360 ríkisdalir. Magnús Stephensen getur þess í „Eftirmælum 18. aldar“, að sjóðurinn hafi ekki ávaxtazt eðlilega og stafi þetta af óhappi, sem „gjafarans skenkur á fyrstu árum eftir dauða hans rataði í utanlands, hvar hann var á rentu settur“. Sjóðurinn varð þó fyrir enn meira áfalli, þegar Danmerkurríki varð gjaldþrota í lok Napoleonsstyrjaldanna, enda komst hann þá niður í 68 ríkisdali. En á næstu áratugum safnaðist í hann allmikið fé, og 1839 var hann orðinn rúmlega 12300 dalir, eins og fyrr getur. Sjóðnum hefur frá 1855 verið stjórnað hér á landi.

Það er ekki ætlunin að rekja hér sögu sjóðsins, en minna má þó á, að nauðsynlegt er að athuga, hvort sjóðurinn hefur þjónað markmiði gefandans og á hvern hátt hann getur bezt gegnt sínu veglega hlutverki. Það, sem gert hefur verið til þess að minnast Jóns Þorkelssonar til þessa dags, má segja, að hann hafi kostað sjálfur. Ævisaga hans, er kom út 1909, var kostuð af Thorkilliisjóðnum. Hvað hefur svo annað verið gert til þess að minnast maklega og virðulega þessa ágæta Íslendings? Mér er ekki kunnugt um það. En hins vegar hefur nú á síðustu missirum verið nokkuð rætt og ritað um störf Jóns Þorkelssonar og talið tilhlýðilegt að minnast hans á 200. ártíð hans að 4 árum liðnum, svo sem ég hef bent á í grg. En hver hefur eða á að hafa framtak til þess að minnast föður alþýðufræðslunnar á Íslandi? Er það ekki einmitt hið virðulega Alþingi, sem engum meðal þjóðarinnar má gleyma, en öllum á að þjóna?

Í trausti þess, að hv. alþm. hafi þennan skilning, hef ég borið fram þáltill. um minningu Jóns Þorkelssonar og vænti þess, að hún fái brautargengi.