15.12.1954
Efri deild: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki flytja langa ræðu um þetta. Hitt vil ég segja, að mér finnst nú mjög miður, að hæstv. ráðh. skuli ekki geta neitt sagt um sitt álit á því, hvort þessar ráðstafanir hafa nokkra þýðingu eða enga, en það var í raun og veru hans niðurstaða, hans svar. Hann sagði, að reyndin yrði að skera úr um það, hvort togaraeigendur vildu gera út og hvort þeir gætu fengið rekstrarfé. Ég get satt að segja ekki hugsað mér, að hæstv. ráðh. beri fram slíkt frv. sem þetta án þess að hafa gert sér nokkra hugmynd um af eigin mati og eftir viðræður við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, hvort það mundi hafa nokkra þýðingu eða ekki. Ég skil vel og er alveg sammála hans sjónarmiði, að það megi ekki taka einhliða til greina, vera of talhlýðnir, eins og hann orðaði það, við kröfuharða menn og segja já við öllum kröfum, sem þeir gera. En hæstv. ráðh. verður þó sjálfur að hafa metið þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, og nota sér sinn sérstaka kunnugleika og sambönd við togaraeigendur á landinn, þannig að hann geti gert sér hugmynd um, hvort nokkra þýðingu hefur að samþykkja þetta frv. Ef togararnir liggja og hreyfa síg ekki, þá er það þýðingarlaust. Ég trúi því ekki, satt að segja, að hæstv. ráðh. hafi ekki myndað sér rökstudda skoðun í því efni, hvort þetta dugi eða ekki. Ég meina ekki hvert einasta skip í togaraflotanum, en í heild sinni, þannig að togaraflotinn haldi áfram rekstri eftir áramótin.

Hæstv. ráðh. sagði, að mætir nefndarmenn hefðu gert till., sem svo ríkisstj. hefði gert að sínum. Það er rétt að því er snertir þá styrki, sem hér er um að ræða. Hins vegar hefur þess ekki verið gætt af hálfu ríkisstj. í þeim öðrum atriðum, sem n. benti á, að lækka tilkostnaðinn og hækka verð afurðanna að öðru en því, að hann segir, að stjórnin hafi átt hlut að máli um að fá fram þá verðhækkun á fiskinum, sem hann hér nefndi og gerði ráð fyrir að gæti numið um 150 þús. kr. á togara, að mér skildist á seinni ræðu hans.

Um lækkun olíuverðsins er mér með öllu ókunnugt. Það eru alveg nýjar upplýsingar fyrir mig. Ég veit ekki til, að það hafi orðið nein lækkun á olíuverði. Hitt veit ég, að eitt félag hér hefur borgað út eins konar ágóðahlut eða bónus til þeirra, sem eru hluthafar í félaginu og hafa viðskipti við það, en eftir því sem ég bezt veit, er sá bónus borgaður út í skuldabréfum, sem eiga að greiðast annaðhvort eftir 30 ár eða á 30 árum, svo að það eru náttúrlega ekki handbærir peningar. Og það gildir ekki fyrir togarana alla. Það er eingöngu fyrir þá, sem eru bæði viðskiptamenn og félagsmenn í þessu félagi. Hversu miklu þessi bónus nemur, veit ég ekki, en mér er ekki kunnugt um breytingar á olíuverðinu að öðru leyti.

Ríkisstj. hefur til þess heimild að setja hámarksverð á olíur og hámarksverð á flutningsgjöld, og ég vildi mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hefði athugað nú þegar og gert sér grein fyrir því, hvort fært væri að beita þessum ákvæðum eða fá fram breytingar með samningum, svo að ekki þyrfti til þess að koma að nota þessi ákvæði.

Ég skal játa það að því er vinnslustöðvarnar snertir, að það er ekki gert í svip að afla fjár til þess. Í sumum tilfellum væri kannske hægt að ná samningum um kaup á vinnslustöðvum, sem fyrir eru, ef að því væri snúið af fullum vilja, og í sumum tilfellum hægt að komast af með að fá lán hér innanlands. Hæstv. ráðh. segir, að honum sé kunnugt um, að togaraeigendur hafi snúið sér til Framkvæmdabankans í þessu efni. En ef ríkisstj. telur ástæðu til þess að gera þetta mál að sínu, er ekki óeðillegt, að hún eigi þar hlut að máli í viðræðum við bankana, bæði þann banka og aðra, í sambandi við stofnun eða kaup á slíkum fyrirtækjum.