28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (2726)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Gunnar M. Magnúss:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera hér stutta athugasemd út af ræðu frsm. meiri hl. hv. allshn. hérna seinast, þegar málið var á dagskrá, 3. þm. Reykv. (Gripið fram í: Umr. um málið er lokið.) Það stendur nú á dagskrá frh. umr. og atkvgr. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að umr. er lokið, það er aðeins atkvgr. eftir.) Stendur ekki í dagskránni framhald umr.? (Forseti: Nei, það er aðeins atkvgr., sem eftir er, og hv. þm. á því aðeins kost á því að ræða um atkvæðagreiðsluna.) Ja — það er viðvíkjandi atkvgr., sem fram fer hér á eftir um þetta mál. Hv. 3. þm. Reykv. lét liggja að því, að ég væri kominn út á aðra braut í seinni ræðu minni og þar af leiðandi þyrfti ekki að taka tillit til þess, sem ég hefði lagt til, að aðbúð fanga yrði rannsökuð á tvennan hátt, fyrst og fremst viðvíkjandi húsakynnunum og því næst viðvíkjandi þeirri meðferð, sem þeir fá þar innan dyra. En til þess að leiðrétta þetta, vil ég aðeins benda hv. 3. þm. Reykv. á það, að ég minntist á þessi atriði á þremur stöðum í frumræðu minni. Hann hefur annaðhvort ekki verið inni í deildinni, ellegar ekki heyrt það, eða þá gleymt því í þriðja lagi. Í fyrsta lagi orðaði ég það svo, að ég legði til, „að aðbúð fanga yrði rannsökuð og að hinu leytinu aðbúð lögreglunnar og aðstaða hennar til fyrrgreindra starfa og athafna“. Og seinni sagði ég, eða gerði fyrirspurn: „Hafa lögreglumenn fengið kennslu eða lærdóm í því að umgangast menningarlega handtekna menn, sjúka menn, særða að metnaði, særða á líkama og sái?“ Og á þessum grundvelli taldi ég að till. væri í tvennu lagi, um það, að aðbúð fanga yrði rannsökuð bæði viðvíkjandi húsakynnunum og svo meðferðinni þar innan dyra.