15.12.1954
Efri deild: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umræðurnar úr hófi. — Ég vil út af því síðasta, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, aðeins segja frá því, að ríkisstj. hefur áhuga á því að aðstoða útgerðarmenn eins og hún getur við að koma upp vinnslustöðvum og vill gjarnan beita þeim áhrifum, sem hún gæti haft bæði á Framkvæmdabankann og aðra í þeim efnum.

Út af hinu, sem hv. þm. fann að við mig, að ég gæti ekki svarað því, hvort þessar ráðstafanir hindruðu stöðvun útgerðarinnar, vil ég aðeins segja það, að ég vil ekki taka að mér fyrir hönd ríkissjóðs að gerast aðill til samninga við útgerðarmenn um það, hvað mikið við þurfum að borga þeim úr ríkissjóði til þess að gera út. Mér dettur ekki í hug að vera hér með fullyrðingar um það, að útgerðarmenn kunni ekki að stöðva útgerðina, annaðhvort af ásetningi eða af þörf. Mér er ekki nægilega kunnugt um það. En mér er kunnugt um hitt, að ég treysti mér ekki sem sjútvmrh. og ríkisstj. treystir sér ekki í heild sem ríkisstj. til að bera nú fram till. um annan eða meiri styrk til handa útgerðinni en sú mþn., sem var skipuð til þess að fjalla um þetta mál, í aðaletnum gerði að sínum tillögum, einfaldlega vegna þess að ég get ekki bent á, hvaðan á að fá peningana. Menn verða að skilja það, að ef á að senda mig út af örkinni til þess að þjarka við útgerðarmenn, þangað til þeir ábyrgjast, að togararnir stöðvist ekki undir neinum kringumstæðum, gæti sú för orðið dýr. Ef menn senda mig út af örkinni. í þessu skyni, þá verða menn að vera reiðubúnir að taka afleiðingum af þeim viðræðum með nýjum sköttum. Við höfum gert tillögur um skatta í því skyni að standa undir frv. eins og það er. Ég er ekki bær um að benda á nýjar leiðir til meiri útgjalda í þessu skyni, og við það verður að standa. Ég vil láta útgerðina horfast í augu við það, hvort hún vill þiggja þann atbeina, sem ríkisvaldið með þessu vill veita henni, eða hvort hún vill það ekki. Og það verður í þessum efnum sem öðrum að taka því, sem að höndum ber, og snúast við þeim nýju viðhorfum, þegar þau skapast í þjóðlífinu.