07.12.1954
Sameinað þing: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (2731)

116. mál, raflýsing vegarins milli Hafnafjarðar og Reykjavíkur

Flm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Þessi till. til þál. á þskj. 219 er um raflýsingu vegarins milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ég býst við, að allir hv. alþm., sem komið hafa til Hafnarfjarðar, hafi veitt eftirtekt þeirri feiknaumferð, sem er um veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Rafveita Hafnarfjarðar hefur látið lýsa upp veginn frá Hafnarfirði að Álftanesvegi, en þar tekur við Garðahreppur, og eru hreppamörk hans norðan við Kópavog. Strjálbýlt er í Garðahreppi, nema nokkur byggð er nú komin í kringum Hraunsholt og svo innan Vífilsstaðavegar, í svonefndu Silfurtúni, en þaðan að Kópavogi er aðeins einn bær, Arnarnes, sem er spölkorn frá veginum. Við Kópavogslæk eru syðri takmörk Kópavogshrepps, en norðurmörk hreppsins eru við Fossvogslæk. Þar tekur við bæjarland Reykjavíkur.

Í þáltill. er farið fram á, að hæstv. ríkisstj. sjái um að raflýsa þjóðveginn, þar sem hann liggur í gegnum lönd áðurtalinna tveggja hreppa, en þeir eru þarna meðfram veginum á orkuveitusvæði Reykjavíkur. Hæstv. ríkisstj. mundi því fara þá leið að leita samninga við rafmagnsveitu Rvíkur um að lýsa þjóðveginn á á að gizka 6 km vegarlengd.

Vér flm. þessarar till. til þál. erum að sjálfsögðu nákunnugir umferðinni á þessum vegi og hvílík feiknahætta stafar af því, hversu vegurinn er illa eða óupplýstur, en við lýsingu hans mundi stórlega draga úr slysahættu, sem að sjálfsögðu er mest og verst, þegar rigning er og myrkur.

Nokkur reynsla er fyrir því, hvers konar ljósker eru heppilegust til slíkrar lýsingar, en það hefur mjög mikla þýðingu, að þau séu rétt valin, og mun rafmagnsstjóri Rvíkur vera allra manna færastur til þess að gefa ráð þar að lútandi.

Til sönnunar því, hve umferðin er geysimikil, hef ég fengið nokkuð upplýst um það frá lögreglunni í Hafnarfirði, sem lét s.l. sumar telja bíla þá, er um veginn fóru frá Hafnarfirði, og þá flestir til Reykjavíkur, en það reyndust vera 150–200 bílar á klukkustund í þær 14 stundir, sem talið var daglega. En umferðin var miklu lengur en þessar 14 stundir, ævinlega einhver umferð á öllum tímum sólarhringsins, og hún er jafnvel meiri stundum enn síðar, því að frá kl. 9–12 á kvöldin er oft mjög mikil umferð. Um tölu farþega er ekki svo auðvelt að segja nákvæmlega, en á einu ári eru líkur til að tala þeirra, sem fara um veginn, sé um 1 millj. og 500 þús., og þar er átt við ferðina aðra leiðina, en meginhlutinn er farþegar úr Hafnarfirði og héðan og þaðan af Reykjanesskaga, og þá ekki síður af Keflavíkurflugvelli, frá og til, að ógleymdum þeim miklu vöruflutningum, sem fara um þennan veg, þar sem mjög mikið af vörum til Hafnarfjarðar er flutt frá Reykjavik og einnig nokkuð frá Hafnarfirði, að ógleymdum öllum þeim geysivöruflutningum, sem eru frá og til Suðurnesja.

Vér flm. treystum hæstv. ríkisstj. til þess að koma þessu máli heilu í höfn hið allra fyrsta, því að það getur varðað miklu, að það dragist ekki.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, að till. sé vísað til hv. fjvn.