04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (2743)

31. mál, hagnýting brotajárns

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ak. (JR), sem kosinn var í fjvn. frsm. n., getur ekki mætt hér á fundi sökum veikinda, og vil ég því leyfa mér með örfáum orðum að fylgja till. n. úr hlaði.

Í þáltill. þeirri, sem nál. fjallar um, er lagt til að fela ríkisstj. að láta framkvæma rannsókn á því, hvort ekki muni arðvænlegt að hefja hér á landi hagnýtingu brotajárns, t. d. með því að framleiða úr því steypustyrktarjárn. Fjvn. hefur leitað upplýsinga um þetta efni og m. a. leitað umsagnar þeirra aðila hér á landi, sem kunnugastir eru þessum málum, þ. e. a. s. Landssmiðjunnar og Stálsmiðjunnar h/f. Þær upplýsingar, sem n. hafa borizt frá þessum aðilum, bæði í bréfum og viðtölum, benda ótvírætt í þá átt, að ekki muni vera hér fyrir hendi grundvöllur til þeirrar hagnýtingar á brotajárni, sem gert er ráð fyrir í till. Það hefur komið í ljós, að fyrirtæki, sem þyrfti að setja á stofn til slíkrar hagnýtingar, er mjög dýrt, þannig að engar horfur virðast vera á því, að hráefni væri hér fyrir hendi, til þess að auðið yrði að starfrækja slíka stálsteypu.

Eins og sakir standa er ekki leyfilegt að flytja úr landi brotajárn nema með sérstöku leyfi. Enn fremur er upplýst, að það járn, sem dýrmætast er, þ. e. a. s. hið raunverulega brotajárn, sem kallað er, pottur, eir og gulmálmar, muni vera nýtt í landinu að fullu, þannig að það er ekkert af því flutt út.

Með hliðsjón af þessum aðstæðum öllum telur n. ekki vera fært að afgr. till. í því formi, sem hún liggur hér fyrir. Hins vegar er n. sammála um, að það sé sjálfsagt að hafa á því vakandi auga, ef aðstæður skapast til þess að nýta á einhvern hátt þetta hráefni svo sem önnur verðmæt hráefni, sem til falla hérlendis, og ætla verði, að ríkisstj. muni fylgjast með því á hverjum tíma, og leggur því n. til, að till. sé vísað til ríkisstj. á þessu stigi málsins.

Með hliðsjón af þeim málsatvikum, sem ég hef hér skýrt frá, vænti ég, að hv. þm. og flm. till. geti eftir atvikum fallizt á þessa málsmeðferð.