04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

31. mál, hagnýting brotajárns

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, og get ég verið stuttorðari fyrir þá sök, að hæstv. viðskmrh. hefur rætt þetta mál það ýtarlega, að það þarf ekki miklu við það að bæta.

Það má auðvitað til sanns vegar færa, að það væri engin hætta í því að samþ. þáltill. um að fela ríkisstj. að athuga þetta mál. Hins vegar er það nú svo um samþykkt till. í því afdráttarlausa formi, eftir að upplýst hefur verið, hvernig málið liggur fyrir, og þær niðurstöður benda ótvírætt í þá átt, að hér sé að sinni a. m. k. ekki um hagkvæmt fyrirtæki að ræða, að það yrði ekki talið óeðlilegt að álykta sem svo, að sú afgreiðsla málsins væri óeðlilegri en sú, sem nefndin leggur nú til, að málinu verði vísað til ríkisstj. og þá með þeim jákvæðu ummælum, að ríkisstj. verði á varðbergi um að hagnýta sér þá möguleika, sem síðar kunna að koma í ljós varðandi nýtingu þess hluta brotajárns, sem ekki er nú þegar nýttur í landinu.

Ég skýrði frá því áðan, að allt hið verðmætasta brotajárn er nýtt hér á landi í járnsteypunum tveimur, Landssmiðjunni og Stálsmiðjunni. Það er því aðeins hið venjulega brotajárn, sem til fellur hér og þar um landið, sem kæmi til með að koma til nýtingar í málmsteypu þeirri, sem flm. gera ráð fyrir að sett yrði á stofn.

Hv. 8. þm. Reykv. skýrði hér frá því áðan, að flutt hefði verið úr landi mikið magn af brotajárni. Það er alveg rétt. En fyrir þetta brotajárn hefur líka fengizt mikið fé, því að það mun vera á annan tug milljóna, sem hefur fengizt fyrir þetta járn í útflutningsverðmætum. Það er því alls ekki svo, að það hafi farið forgörðum. Hefur verið mikið kapp lagt á það af ýmsum að safna saman því járni, sem safnazt hefur í landinu um langt árabil, og þar af leiðandi er ekki hægt að gera sér neinar vonir um, að neitt hliðstætt magn verði til ráðstöfunar í framtíðinni til árlegrar vinnslu.

Ég hygg nú, að það geti naumast verið ákaflega flókið mál, enda hefur það komið í ljós í viðtölum fjvn. við forstjóra Landssmiðjunnar, að gera sér í stórum dráttum grein fyrir líkunum fyrir því, hvort hér væri hagkvæmt að setja upp stálsteypu eða ekki. Þær upplýsingar, sem hann gaf fjvn. og voru mun ýtarlegri á fundi nefndarinnar en er í því bréfi, sem hv. 8. þm. Reykv. las upp, staðfestu það mjög rækilega, að eins og sakir stæðu væru mjög litlar líkur til, að unnt yrði að setja hér upp stálsteypu. Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að það hefði ekki verið hugmyndin að setja hér upp dýra verksmiðju, en ef um stálsteypu er að ræða, þá er það alltaf dýrt fyrirtæki, og það er nauðsynlegt við slík fyrirtæki, að það sé hægt að starfrækja málmbræðsluofninn að staðaldri, þannig að það verður að vera mikið hráefni fyrir hendi. Vitanlega má hugsa sér að flytja inn hráefni, og kæmi það vel til athugunar. En eftir þeirri reynslu, sem bæði Norðmenn og Danir hafa af þessum málum, og vinna þeir þó mjög mikið úr járni og stáli, benda þær upplýsingar allar í þá átt, að hér sé við mikla erfiðleika að stríða í þessu efni.

Mér er ekki kunnugt um, að þær smiðjur, sem fjvn. leitaði til um upplýsingar, hafi atvinnu af því að flytja brotajárn úr landi, hvorki Stálsmiðjan né Landssmiðjan, þannig að af þeim sökum sé hægt að vera með fullyrðingar um það, að þeirra umsögn um málið kunni að vera neikvæð af þeirri ástæðu. Hitt er annað mál, að vitanlega er sjálfsagt að hafa augun opin, eins og ég sagði áðan, um nýtingu á þessu hráefni eins og öðru því hráefni, sem til kann að falla í landinu. Og ég efa ekki, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnmrh. muni hafa augun opin fyrir þessu og fylgjast með og láta athuga það, eftir því sem efni standa til, hvort hér kunni að vera um hagkvæmt fyrirtæki að ræða, þannig að af þeim sökum sé það fullkomin trygging fyrir þeirri afgreiðslu málsins og athugun, sem hv. flm. hafa borið fyrir brjósti, að hafa þá afgreiðslu á málinu, sem fjvn. hefur lagt til.