04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Tveir nm. hafa í séráliti lagt til, að till. yrði samþ. óbreytt, en aðrir nm. leggja til, að till. verði vísað til ríkisstj.

Till. þessi var lögð fram nokkuð snemma á yfirstandandi þingi, og var í henni gert ráð fyrir, að ríkisstj. yrði falið að leita samninga við þar tiltekna aðila um verðlækkanir í því skyni að draga úr milliliðakostnaði. Var þá í till. gert ráð fyrir, að athugun þessari yrði lokið fyrir síðustu áramót, en af því gat ekki orðið, þar sem till. var ekki afgreidd fyrir þann tíma. Hins vegar hafa flm. málsins lagt áherzlu á afgreiðslu þess engu að síður, og hefur af þeirra hálfu hér í þinginu einkum verið rætt um þessa till. í sambandi við vinnudeilu þá, sem nú nýlega er um garð gengin.

Það var fyrir alllöngu upplýst hér í Alþ. af hálfu ríkisstj., að hún hefði einmitt með hliðsjón af vinnudeilunni, sem þá var yfirvofandi, gert þær ráðstafanir, sem till. þessi fjallar um.

Hún hefði ritað þeim aðilum, sem þar um greinir, og jafnvel fleirum þeim, sem áhrif hafa sérstaklega á verðmyndun í landinu, og óskað eftir því, að þessir aðilar gerðu ráðstafanir til verðlækkana og gerðu ríkisstj. grein fyrir því, hvaða leiðir væru tiltækilegastar í þeim efnum.

Þetta er það atriði, sem till. fjallar um. Það lá fyrir fjvn., þegar hún afgreiddi þetta mál, að ríkisstj. hefði þegar gert þessar ráðstafanir, og af þeim sökum sýndist meiri hl. n. óeðlilegt í alla staði að samþ. till. í þessu formi, að fela ríkisstj. að gera það, sem hún þegar hafði hafizt handa um. Hins vegar var öll n. sammála um það, að sjálfsagt væri og nauðsynlegt að fylgja þessu máli eftir og raunar á hverjum tíma væri rétt, að ríkisstj. fylgdist með því, að verðlag á nauðsynjum almennings væri ekki óeðlilega hátt. Það er því beinlínis tekið fram í nál. meiri hl. á þskj. 551, að enda þótt meiri hluti n. telji ekki ástæðu til að samþ. till. með hliðsjón af því, að athugun sú sé þegar hafin af hálfu ríkisstj., sem þar er gert ráð fyrir, þá telji meiri hluti n. sjálfsagt, að þeirri athugun verði haldið áfram og allar hugsanlegar leiðir til verðlækkunar verði kannaðar. Og með þeirri forsendu og afdráttarlausri viljayfirlýsingu leggur meiri hl. til, að till. verði vísað til ríkisstj. og þá með það í huga vitanlega, að áfram verði haldið þeim athugunum, sem hún hefur gert, og raunar að þeirri meginstefnu verði jafnan fylgt að leitast við eftir fremsta megni að tryggja almenningi í landinu sem lægst verðlag þeirra nauðsynja, sem hann þarf að kaupa á hverjum tíma.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, nema tilefni gefist til, en vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á þessa afgreiðslu málsins.