04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (2766)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., var borin fram snemma á þessu þingi og sætti þeirri óvenjulegu meðferð, að hún kom ekki til fyrri umr. fyrr en ég hygg í febrúarmánuði, eftir að þing hóf störf á ný. Það hafði þó gengið svo með flest mál stjórnarandstöðunnar, að þau höfðu komizt tiltölulega greiðlega til 1. umr. og nefndar, þó að sá háttur sé nú yfirleitt á hafður að láta flest eða nálega öll mál frá stjórnarandstæðingum liggja í nefnd allan þingtímann og í fæstum tilfellum komast þaðan nokkurn tíma aftur. En það var enn þá meiri óvilji sýndur þessu máli en nokkru öðru með því að hleypa málinu ekki til fyrri umr. fyrr en á síðari hluta þingsins.

Af þessu mátti strax sjá, að ríkisstj. og fylgdarlið hennar hafði ekki mikinn áhuga á málinu; það duldist ekki. Það var ekki hægt að leggja þetta út á annan veg en þann, að þetta væri það málið, — ásamt frumvörpum og tillögum um varnarmálin, — sem stjórnarliðið skyldi standa fastast gegn og helzt ekki láta fá þinglega meðferð.

Svo þegar þing kom saman á ný, var fast eftir því gengið, að þetta mál fengist tekið til fyrri umr., og þá var það nú skömmu síðar gert af hæstv. forseta og málinu vísað til fjvn. Þar lá málið nokkuð lengi fyrir, og var þá sagt, að ríkisstj. væri að vinna að málinu, og varð að taka mark á því, að svo væri. Það, sem vitað er um það starf ríkisstj., er þó ekki annað en það, að hún tilkynnti í febrúarmánuði, þegar sýnilegt var, að verkföll mundu skella yfir, að hún ætlaði að fara inn á þær leiðir, sem þessi þáltill. markaði, og fyrsta skrefið í því efni væri að skrifa þeim 8 eða 9 stórfyrirtækjum, sem nefnd voru í till., og fara fram á það, að þau tilnefndu tvo menn hvert til samninga við ríkisstj. um það að þrýsta verðlagi niður eins og unnt væri. Í bréfi til Alþýðusambands Íslands var því síðan lýst yfir af hæstv. forsrh., að Alþýðusambandi Íslands yrði gefinn kostur á að fylgjast með því, sem síðar kynni að gerast í þessum málum. En Alþýðusambandið hefur ekki fengið neina vitneskju um það, að neitt hafi gerzt í þessum málum síðan hæstv. ríkisstj. skrifaði þessum fyrirtækjum, annað en það, að ég hef frétt það utan að mér, að í byrjun verkfallsins, á fyrstu samninganefndarfundunum, munu tvö eða þrjú af þessum fyrirtækjum hafa skýrt hæstv. ríkisstj. frá því bréflega eða munnlega, að þau treystu sér ekki til að gera neinar ráðstafanir til verðlækkana. Þau afsökuðu sig meðal annars með því, að verðlækkunarráðstafanir þær, sem gerðar voru 1952, væru í gildi enn þá og frekari spor treystu þau sér ekki til að stíga í því efni. Þar með mun málið hafa algerlega niður fallið af hendi hæstv. ríkisstj., og get ég ekki sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi með þessum aðgerðum sinum orðið við efni till., því að það var sannarlega ekki bara um það talað, að hún ætti að skrifa einhverjum ákveðnum fyrirtækjum og bíða síðan eftir svari. Nei, till. var um það, að hún skyldi þrautreyna samninga við þessi fyrirtæki, og ætlunin var sú, að ef fyrirtækin vildu ekki fallast á það við ríkisstj. í hörðum samningum, þá hótaði hún að setja hámarksverð á þær vörur og þá þjónustu, sem þessi fyrirtæki hefðu með að gera. Þannig hefur að verki verið af ríkisstj. í Noregi, og þegar ekki þótti nógu fastlega að verki verið þar, urðu þar stjórnarskipti á s.h hausti, til þess að við tækju menn, sem gengju fastar fram í þessum málum til þess að halda verðlaginu niðri, einmitt af því að það stóð eins á, að í miðjum marzmánuði átti að koma þar til kauphækkana, ef ríkisstj. tækist ekki að hafa knúið fram lækkað verðlag. En það var öðruvísi unnið að þessu hér. Ég undirstrika það, að það hefði þurft að valda stjórnarskiptum hér á landi, einmitt hversu linlega var á þessu máli haldið, og það ber að harma, að svo varð ekki.

Það var aldrei við því að búast, að þau fyrirtæki, sem hæstv. ríkisstj. átti að hefja samninga við um lækkað verðlag, skrifuðu ríkisstj. aftur og segðu: Það er guðvelkomið og sjálfsagt að gera það fyrir ríkisstj. sína að lækka verð á vörum og þjónustu. — Ég bjóst aldrei við því. Ég hygg, að enginn hafi búizt við því. Það var aldrei hægt að búast við því, að þeir segðu: Það er sjálfsagt, að við rýrum okkar gróðahlut. — Menn eru nú fastari á því, sem þeir eiga kost á að fá, heldur en svo.

Með öðrum orðum: Í þessu máli hefur ekkert gerzt, ekkert verið gert annað en kák, eintómt kák. Þess vegna undrast ég það, að hv. meiri hl. fjvn., allir fylgjendur stjórnarflokkanna, skuli enn hafa traust og tiltrú til ríkisstj. í þessu máli. Þeir segjast allir vera á þeirri skoðun, að þetta sé rétt stefna og þeir séu henni fylgjandi og telji nauðsynlegt að gera allt, sem hægt sé, til þess að lækka dýrtíð í landinu. En eftir að ríkisstj. er búin að taka svo linlega á þessu máli og sýna því það mikið kæruleysi, sinnuleysi, eins og hún hefur gert, hefði ég talið, að það væri alveg gersamlega ómögulegt að bera traust til ríkisstj. í málinu og leggja til, að því verði til hennar vísað, til þess að hún sæi um framkvæmd þess. Ég gat ekki fallizt á það eða við tveir, sem minni hl. myndum, og lögðum því til, að till. yrði samþ. Einhver kann að halda því fram, að það sé nú ekki til neins héðan af, verkfallið sé búið og það sé búið að fara inn á aðra leið í þeim málum, hækka kaupgjaldið í staðinn fyrir að lækka verðlagið. En ég tel, að það sé fyllsta þörf á því, að ríkisstj. hefði ströng fyrirmæli frá Alþ. um að vinna á hvern þann hátt sem hún gæti að því að knýja verðlagið niður. Við heyrum t. d. núna, að afloknu þessu verkfalli, að viss fyrirtæki hafi hækkað smurning á bilum um 36–40%. Það er auðvitað algerlega ómögulegt að rökstyðja slíka hækkun á grundvelli kauphækkunarinnar, en það sýnir bara, hversu óskammfeilnin getur gengið langt hjá vissum fyrirtækjum, sem hafa sjálfdæmi um það að fara ofan í vasa almennings, þegar þau vita, að þau hafa ríkisstj. yfir sér, sem hefur velþóknun á slíkri starfsemi. Og það er á þennan hátt, sem við fáum verðbólgu og vaxandi dýrtíð, sem leiðir til þess, að það verður aftur farið af stað um kauphækkanir og reynt að kippa þeim málum aftur í það horf, að fólkið, sem vinnur erfiðu störfin í landinu, geti með einhverju móti dregið fram lífið.

Það er því síður en svo, að það sé úrhættis enn þá að samþykkja þessa till. Það er knýjandi nauðsyn, að Alþ. veiti ríkisstj., sem hefur brugðizt í þessu máli, aðhald og geri strangari kröfur til hennar. Hún hefur brugðizt af því, að þingheimur hefur ekki látið í ljós áhuga sinn fyrir þessu máli og ekki gefið henni þær forskriftir, sem hún gat ekki snuðað sig frá. Hér ætti því ekki aðeins að binda hæstv. ríkisstj. með samþykkt þessarar till., heldur einnig væri full ástæða til þess að koma fram löggjöf, sem tæki verðlagsmálin fastari tökum, og á ég þar við, að það væri full ástæða til ekki aðeins að samþykkja þessa till., heldur einnig að samþykkja það frv., sem hér liggur líka fyrir þinginu um ráðstafanir í verðlækkunarmálum.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál; það er alveg tilgangslaust héðan af. En þörfin fyrir framkvæmd málsins er sú sama nú og áður, og jafnvel er hún brýnni. Það ríður á því, að sú kjarabót, sem verkalýður landsins hefur nú knúið fram, verði ekki eyðilögð af ríkisstj., sem lætur dýrtíðarflóðið færa allt úr skorðum í þjóðfélaginu.

Ef ríkisstj. færi ekki eftir ströngum og ákveðnum samþykktum Alþ., þá væri auðveldara að draga hana til ábyrgðar fyrir, að hún hefði brugðizt. En þeir hv. þm., sem slá skjaldborg um ríkisstj. og hennar frammistöðu í þessu máli, taka á sig ábyrgðina á því, að ríkisstj. getur nú framvegis leikið lausum hala í verðlagsmálunum og borið því við, að það hafi enginn þingvilji verið fyrir því, að hún hagaði sér öðruvísi en hún hefur hagað sér í þessum málum.