04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (2767)

93. mál, lækkaðrar dýrtíðar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þegar hv. 2. þm. Eyf., frsm. fjvn., var að tala hér áðan og láta í ljós allgóðan vilja og mikinn hjá hæstv. ríkisstj. að halda verðlagi í skefjum í landinu og tala um, hve sjálfsagt og nauðsynlegt það væri í alla staði, þá datt mér í hug hið fornkveðna: fagurt skal mæla, en flátt hyggja — því að þannig hafa hv. stjórnarflokkar komið fram í þessum málum, bæði í kjaradeilu þeirri, sem stóð hér um langan tíma, og eins gagnvart þeim málum, sem hafa verið borin fram hér á Alþ. um lækkanir verðlags, að þeir hafa lifað eftir þessum gömlu ummælum, sem ég vitnaði til.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það væri óeðlilegt að samþykkja þessa till., eftir að hæstv. ríkisstj. hefði leitað til þeirra aðila, sem till. greinir, og fengið neikvæð svör frá þeim. Og hv. 3. landsk. þm. (HV) sagðist aldrei hafa gert ráð fyrir því, þegar hann flutti þessa till., að það mundu fást greið svör frá þessum aðilum um að lækka verðlag, lækka sinn gróða, heldur hefði hann gert ráð fyrir, að það þyrfti allaðgangsharða samninga í því efni. Nú fer þetta tvennt nokkuð saman hjá þessum tveim hv. þm. Það er rétt hjá hv. 3. landsk., að það þurfti aldrei að búast við því, að gróðafélögin gæfu neitt eftir af frjálsum og fúsum vilja, og það er líka nokkuð til í því, sem hv. 2. þm. Eyf. segir, að eftir að ríkisstj. hefur sýnt einhverja málamyndatilburði í því að tala við þessa aðila, til þess að geta afsakað sig á eftir með því, að hún hefði gert það og ekki fengið jákvæð svör, þá þarf miklu strangari fyrirmæli frá Alþingi í þessum efnum en þessi till. gerir ráð fyrir. En ef hv. stjórnarflokkar og hæstv. ríkisstj. hefði haft einhvern vilja, þann góða vilja, sem hv. 2. þm. Eyf. var að lýsa hér áðan, í því að færa niður verðlag í þessu landi og skapa með því íslenzkum almenningi þá einu raunhæfu kjarabót, sem hægt er að skapa honum í dag, þá hafði hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkar sannarlega tækifæri til þess að gera það, því að mánuði áður en til verkfalls kom, var borið fram hér á Alþingi af okkur þm. Þjóðvfl. frv., sem algerlega batt hendur allra aðila í þessu efni. Það fól í sér meiri kjarabætur til handa öllum almenningi í landinu, hvort sem það voru verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn, bændur eða launþegar og opinberir starfsmenn, heldur en nokkur annar aðili hefur borið fram kröfur um eða gert till. til að ná. Um þetta frv. hefur verið þagað, og það hefur ekki fengizt rætt hér á Alþingi, vegna þess að hæstv. ríkisstj. talaði fagurt, en hugði flátt í málinu. Í því frv. var lagt til, að söluskattur væri felldur niður að þeim hluta, þar sem hann er ranglátastur og ósanngjarnastur, og þeim hluta, sem rennur ekki allur í ríkissjóð, heldur verður að gróðalind fyrir þá, sem eiga að innheimta skattinn fyrir ríkissjóð. Það var einnig lagt til, að tekið yrði upp verðlagseftirlit og Alþýðusambandi Íslands fengið meirihlutavald og þar með verkalýðsstéttunum í því verðlagseftirliti, þannig að þær stéttir hefðu getað tryggt hvort tveggja, lágt verðlag og líka hlut þeirra, sem eiga að flytja inn og þurfa að sjá um það nauðsynjastarf að flytja inn og dreifa vörum til landsmanna. Hagur verkalýðsins var tvíþættur og er tvíþættur í því máli, og það var á allan hátt eðlilegast að fela Alþýðusambandinu eftirlit og yfirráð í þessu máli.

Ég verð að segja það eins og er, að það eru fleiri hér á Alþingi Íslendinga, sem eiga þarna nokkra sök, heldur en. hæstv. ríkisstj. Í þeirri n., sem fékk frv. okkar þm. Þjóðvfl. til afgreiðslu, á sæti einn kommúnisti, og maður skyldi ætla, að hann hefði ekki haft á móti því, að Alþýðusambandið fengi yfirráð yfir verðlagseftirliti í landinu. En hann hefur ekki einu sinni haft fyrir því að skila nál. um frv., ekki einu sinni hann. Það er rétt, að þetta komi fram hér á þinginu.

Loks vil ég taka það fram, að það er tilgangslaust fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkana að afsaka sig með því, að verkfallið sé nú leyst og þess vegna sé óþarft og ástæðulaust að ræða þessi mál. Það er aldrei brýnni þörf en einmitt nú að ræða þessi mál. Við höfum séð nýjasta dæmið, það nærtækasta, sem hv. 3. landsk. gat um hér áðan, þegar olíufélögin, sem sýndu verkamönnum í verkfallinu mestan fjandskap allra aðila, hafa riðið strax á vaðið og hækkað vinnu við smurning á bilum um 40%, og við vitum, að þannig munu hækkanirnar dynja yfir núna næstu vikur og mánuði margfalt meiri en kauphækkun verkamanna gefur tilefni til. Og því segi ég það, að það er aldrei meiri nauðsyn en nú að samþykkja að taka upp verðlagseftirlit og lækkun verðlags í landinu. Íslenzk alþýða hefur nú fyrst mjög brýna lífsnauðsyn á því, að þetta verðlagseftirlit og lækkun á vöruverði verði tekið upp, því að annar eins grundvöllur og sá, sem bröskurunum hefur nú verið skapaður til alls konar hækkunar, bröskurunum, sem eru skjólstæðingar hæstv. ríkisstj. og fá að hækka sína hluti án þess að ráðherra stígi hér í stól og komi með margvíslega útreikninga um það, hvaða áhrif sú hækkun hafi á þjóðarbúskapinn, hefur það í för með sér. að það er aldrei brýnni nauðsyn en nú að hafa eftirlit með þeim. Og þess vegna geta stjórnarflokkarnir og hæstv. ríkisstj. ekki afsakað sig á neinn hátt með því að salta þessi mál, neita að ræða þau eða vísa þeim til ríkisstj., þar sem á að svæfa þau. því að allur almenningur sér, hvernig er í pottinn búið.