04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (2777)

53. mál, sementsverksmiðja o. fl.

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Eins og nál. á þskj. 552 og 541 bera með sér, varð ekki samkomulag um afgreiðslu þessarar þáltill. í fjvn. Meiri hl. leggur til, að till. verði vísað til ríkisstj., en minni hl., hv. 11. landsk., leggur hins vegar til, að till. verði samþykkt.

Í grg. fyrir þessari till. á þskj. 64 um lánsútvegun vegna sementsverksmiðju er að því vikið, að nokkrir erfiðleikar hafi verið á því að útvega lán til byggingar sementsverksmiðju, og er í sambandi við það bent á, að ef til vill væri hægt að greiða úr þessum erfiðleikum með því að semja við stjórn Austur-Þýzkalands um sölu á vélum í verksmiðjuna og greiða þær svo aftur með fiskafurðum, og í till. er látið liggja orð að því, að ef til vill mætti takast að semja um 3–5 ára greiðslufrest á andvirði vélanna.

Eftir að þessari till. hafði verið vísað til fjvn., sendi hún hana til umsagnar stjórnar sementsverksmiðjunnar og enn fremur til Framkvæmdabankans, sem gert er ráð fyrir að hafi milligöngu um útvegun á láni til byggingar verksmiðjunnar. Nefndinni bárust svör frá báðum þessum aðilum, og þeir voru alveg sammála í sínu áliti um það. að sá gjaldfrestur, sem hér væri um að ræða, væri allt of skammur, 3–5 ár, því að það er gert ráð fyrir, að taka muni þrjú ár að byggja sementsverksmiðjuna, þannig að hún verði tiltæk til vinnslu, og mundi þá samkvæmt því þurfa að hefja greiðslur af lánunum strax og verksmiðjan væri komin upp eða sem næst því.

Í svari frá bankastjóra Framkvæmdabankans er frá því skýrt, að ríkisstj. hafi staðið til boða lán til kaupa á vélum í verksmiðjuna og jafnvel fyrir öllum kostnaði hennar, en þau voru háð því skilyrði, að vélar í verksmiðjuna yrðu keyptar frá því landi, sem léti slík lán í té. En ríkisstj. hefði ekki viljað ganga að slíkum kjörum, heldur talið miklu heppilegra og hagkvæmara að geta fengið lán til kaupa á vélunum og valið svo um það, hvar vélarnar væru keyptar; með þessu móti fengjust miklu hagkvæmari kaup og lægra verð. Nú er undirbúningur undir byggingu sementsverksmiðjunnar eins og kunnugt er hafinn. Stjórn sementsverksmiðjunnar hefur sent út tilboð í efni til byggingar á húsum verksmiðjunnar. Hefur verið unnið að því í vetur að undirbúa grunn undir þessi hús, og segja má, að vinna sé nú að hefjast með fullum krafti við byggingu verksmiðjunnar. Enn fremur hefur verksmiðjustjórnin sent út tilboð í vélarnar, bæði hér í álfu og einnig til Vesturheims, og mér skilst, að þessi tilboð séu nú að berast og eitthvað af þeim komið, og er þetta byggt á því, að fyrir hendi verði fé til þess að greiða með vélarnar, svo að það sé hægt að sæta beztu kjörum um kaup á þeim.

Þannig standa nú þessi mál um byggingarframkvæmdir sementsverksmiðjunnar, eftir því sem fjvn. hefur fengið upplýsingar um.

Um það atriði þessarar till. að greiða vélar til verksmiðjunnar með fiskafurðum. er það að segja, að vitanlega væri sjálfsagt að nota þær aðstæður, ef ekki væru aðrar ríkari, sem mæltu því í gegn, þannig að þá yrði að sæta miklu óhagkvæmari kjörum um kaup á vélum. En ríkisstj. hefur það sem öll slík útflutningsmál afurða í sinni hendi, það á sínu valdi, hvort hún telur, að þær aðstæður séu fyrir hendi, að það sé hægt að greiða fyrir sölu afurða vorra í sambandi við þessi kaup, og það verður að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut, að ríkisstj. athugi líka þann möguleika.

Með tilliti til alls þessa varð niðurstaðan hjá meiri hl. fjvn. að leggja til, að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.