10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (2783)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er að því stefnt að fela ríkisstj. að veita frjálsan innflutning bifreiða. Höfuðröksemdirnar má segja að fyrir því séu tvær: Í fyrsta lagi, að bifreiðar eru í langflestum tilfellum óhjákvæmileg nauðsynjatæki í atvinnurekstri landsmanna og samgöngum og veigamikill þáttur í almennri velmegun borgaranna. Í öðru lagi, að með frelsi í bifreiðaverzluninni er hægt að leiðrétta misrétti og óheilbrigða verzlunarhætti. sem verið hafa þjóðinni miklir smánarblettir á liðnum árum.

Spyrja mætti þá, vegna hvers bifreiðainnflutningurinn hafi ekki þegar verið gefinn frjáls, og einnig, hver hefur verið þróun þessara mála á undanförnum árum. Mér þykir rétt að víkja að því lítillega, þó að hitt sé að vísu rétt, að það eru ýmsir aðrir, sem kunna betur til hlítar alla sögu þessara mála.

Ég vil fyrst vekja athygli á því, að þegar Sjálfstfl. tók þátt í ríkisstj. með myndun bjóðstjórnarinnar á sínum tíma, 1939. eftir langvarandi valdaferil Framsfl. og Alþfl. var ríkiseinkasala á bifreiðum í landinu. Þátttaka sjálfstæðismanna í ríkisstj. leiddi til afnáms þessarar einkasölu sem og raftækjaeinkasölu og fleiri ónauðsynlegra ríkisafskipta.

Þess er að minnast, að í byrjun stríðsins var hér nokkur innflutningur nýrra bíla af sérstökum ástæðum. og búum við að nokkru leyti að því í dag. Á ég þar m. a. við innflutning Dodgebifreiðanna, sem höfnuðu hér í stríðsflutningum 1941. Annars er þess að minnast að í stríðinu voru aðallega fluttir hingað inn notaðir bílar, og voru þessir bílar að verulegu leyti keyptir á erlendum markaði. með hagstæðum kjörum þá, þar sem aðrar þjóðir voru að draga úr bifreiðanotkun sinni vegna eldsneytisskorts af styrjaldarástæðum. Einnig var á þessum árum, árum allmikið flutt inn af bílum á vegum námsmanna, sem dvalizt höfðu sérstaklega vestan hafs og annarra, sem erlendis dvöldust, einnig sjómanna og farmanna. Hins vegar varð mjög lítið um bílainnflutning síðustu stríðsárin. og fengu landsmenn þá nokkuð af þessum tækjum frá hernum eða setuliðinu. sem hér var.

Á þessum árum, sem ég hef vikið að, voru skráðar bifreiðar, sem bættust við bílaeign landsmanna, samkv. bifreiðaskýrslu vegamálaskrifstofunnar eftirfarandi (ég miða hér við, að á viðkomandi ári hafi þessi tala bifreiða fyrst komið inn á bifreiðaskrár):

Fólksbílar: 1940 226, 1941 326, 1942 892, en aðeins 15 1943 og 3 1944.

Vörubifreiðar: 85 1940, 307 1941, 1081 1942, en aðeins 31 1943 og 51 1944.

Eftir að nýsköpunarstjórnin tók við völdum, lagði Pétur Magnússon, viðskmrh. þáverandi, fyrir viðskiptaráð að veita mjög rífleg leyfi fyrir innflutningi á fólksbílum, en nýbyggingarráð hlutaðist þá til um mjög mikinn innflutning vörubíla og jeppa. Þannig bættust á bifreiðaskrána á þessum árum:

Fólksbílar: 1945 158, 1946 2134 (og þar í munu vera taldir jepparnir), 1947 785. Vörubílar: 1945 217, 1946 1023 og 1947 654, eða samtals á þessum þremur árum 5275 bílar þegar með er talið nokkuð af almenningsbifreiðum og örfáar tvíhjólabifreiðar, og er þetta gífurlega há tala, miðað við heildartölu bifreiða í landinu á þeim tíma, sem sennilega hefur verið töluvert innan við 10 þúsund.

Eftir stríðið og eftir hina miklu fjárfestingu nýsköpunaráranna varð gjaldeyrisskortur m.a. orsök þess, að nokkuð dró úr bilainnflutningnum, en einnig eðlilegt eftir þá miklu aukningu, sem átt hafði sér stað á bilakosti landsmanna á þessum árum. En upp úr árinu 1947 hefur mjög lítið verið um bílainnflutning og hann óreglulegur eða stopull. Þetta sést glöggt af því, að 1. jan.1954 eru alls skráðar í landinu 11507 bifreiðar, en þar af eru 10069 eldri en frá 1948, m. ö. o., að endurnýjun bílaeignar landsmanna hefur að verulegu leyti verið vanrækt undanfarin sex ár, eða fluttir inn tæplega 240 bílar allra tegunda að meðaltali á ári.

Meðalaldur bílakosts landsmanna er mjög hár hjá okkur eins og nú er komið. Sex ára og eldri eru yfir 90%, sennilega nálægt 91% af öllum bílunum. Og 11 ára og eldri eru líklega nálægt 43%. Þetta er athyglisvert, þegar það er haft í huga, að t. d. í Bandaríkjunum er meðalaldur bifreiða talinn frá 4 og upp í 7 ár, eftir því nokkuð, hvernig á stendur, en það er í landi, þar sem mjög góðir vegir eru og alls ólíku saman að jafna eða hér á landi, eins og vegakerfinu er háttað.

Þetta lauslega yfirlit staðfestir það, sem vitað var, að það hafa alltaf gilt allt aðrar reglur um innflutning bifreiða en annan innflutning og aldrei neinar samræmdar reglur frá ári til árs. Sum árin er sama sem enginn innflutningur. Önnur árin kemur kannske gífurlega mikill innflutningur af einni eða annarri ástæðu. En á þessum árum, enda þótt innflutningurinn hafi verið bundinn leyfum og ákvörðunum nefnda, mun á hverjum tíma hafa verið reynt að samræma þær reglur, bæði frá ári til árs og innan vöruflokkanna á hverju ári, en um bilainnflutninginn hefur alla tíð ríkt í þessu efni hinn mesti glundroði.

Á tveimur tímabilum, sem ég hef hér vikið að, eru nokkrar breytingar, sem stefna að auknu frjálsræði í sambandi við bílaverzlunina. Það er þegar bifreiðaeinkasalan var afnumin, eins og ég minntist á, og einnig á árum nýsköpunarstjórnarinnar eða í viðskiptamálaráðherratíð Péturs Magnússonar, sem heita mátti að nokkurn veginn væri frjáls bifreiðainnflutningur til landsins. Það hefði þess vegna sannarlega mátt vænta þess, að breytingar í þessum málum hefðu átt sér stað síðustu árin, og vissulega komið fram á elleftu stund, að nú sé alvarlega stungið við fótum. Ég skal færa þessum orðum nokkuð frekari stað.

Fyrir alþingiskosningarnar 1949 lagði Sjálfstfl. megináherzlu á þá stefnu að skapa jafnvægi í peningamálum þjóðarinnar, taka upp frjálsa verzlun og afnema haftakerfið. Eftir kosningarnar myndaði formaður flokksins flokksstjórn, sem lagði fyrir þingið tillögur sjálfstæðismanna í fjármálum og viðskiptamálum með frv. um gengisskráningu o. fl., og í byrjun árs 1950 tókst stjórnarsamstarf milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í meginatriðum á grundvelli þeirra tillagna í efnahagsmálunum, sem fólust í frv. Sjálfstfl. Síðan hefur hröðum skrefum verið að því stefnt að gera innflutningsverzlunina frjálsa og afnema hafta- og skömmtunarkerfið, sem lýsti sér í margvíslegum ófögrum myndum.

Viðskiptanefndin var lögð niður 31.jan.1950 og skömmtun afnumin. Vöruskortur, biðraðir og svarti markaðurinn hurfu smám saman. Og ég leyfi mér að vitna til ummæla fyrrverandi viðskmrh., Björns Ólafssonar, um mánaðamótin apríl-maí 1953 um þróun hins aukna frelsis í viðskiptamálunum í ræðu, sem hann hélt á landsfundi Sjálfstfl., þar sem hann segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að gengisbreytingin hafði verið framkvæmd og á þann hátt lagfært að verulegu leyti hið mikla misvægi, sem árum saman hafði truflað efnahagskerfið, var hafinn undirbúningur að því að losa nokkuð af verzluninni úr viðjum haftanna. Hinn 4. ágúst 1950 var fyrsti frílistinn gefinn út. Með honum var um 17% af innflutningi gefinn frjáls. Þetta var fyrsta skrefið, og spáðu margir illa fyrir þessari fyrstu tilraun. Þeir, sem lengi hafa verið ófrjálsir, eru stundum hræddir við þá óvissu, sem frelsið færir þeim, og hrýs hugur við að eiga að standa á eigin fótum. Rúmum fjórum mánuðum síðar, eða hinn 18. des.1950, var frílistinn mikið aukinn, og 7. marz 1951 var bátalistinn gefinn út, sem einnig er frílisti. Var þá áætlað, að komið væri á frílista um 65% af öllum innflutningi til landsins. Samkv. athugun, sem gerð hefur verið á innflutningi síðasta árs, þ. e. 1952, kemur í ljós, að 70% af honum er á frílistum, en aðeins 30% er háð innflutnings- og gjaldeyrisleyfum.“

Framhald þessara mála var það, að samið var um milli Sjálfstfl. og Framsfl. við myndun núverandi ríkisstj., að afloknum alþingiskosningunum í fyrra, að leggja fjárhagsráð niður, og voru afgreidd um það lög á síðasta þingi, sem rýmkuðu mjög verulega athafnafrelsi manna, og móta að öðru leyti þá stefnu í viðskiptamálum að auka viðskiptafrelsið, eftir því sem föng væru á á hverjum tíma, eins og fram kemur í ákvæðum laganna.

Þegar alls þessa er gætt, er von, að menn spyrji: Hvers á þá bílainnflutningurinn að gjalda? Hvað veldur því, að martröð haftakerfisins hvílir enn yfir þessari grein innflutningsins og viðskiptamálanna?

Þegar hér er komið, er rétt að staldra nokkuð við og athuga allra síðasta þátt þessara mála. Í fyrra mun hafa verið í fyrsta sinn um mörg ár ákveðin veruleg úthlutun innflutningsleyfa fyrir vörubílum, eða töluvert á annað hundrað. Á s.l. ári var líka í fyrsta skipti í mörg ár um verulega úthlutun að ræða til atvinnubílstjóra, að vísu aðeins frá clearinglöndum, hinar svonefndu Kaiser-bifreiðar frá Ísrael. Var þetta nokkur úrlausn og sá háttur hafður á, að félag, sjálft félag bifreiðarstjóra, framkvæmdi úthlutun þessara leyfa. Áður og jafnframt hafði verið úthlutað nokkru af leyfum með sérstöku álagi í sambandi við Landssamband íslenzkra útvegsmanna, og voru það aðallega bílar, sem fluttir voru frá Tékkóslóvakíu, nokkuð frá Ítalíu og eitthvað frá Þýzkalandi. En alltaf ríkti þó og hefur ríkt megn óánægja með allar þessar úthlutanir. E. t. v. hafa gjaldeyrislausir bílar, sem svo er kallað, ráðið hér nokkru um, en það hefur jafnframt verið framkvæmt, að menn hafa getað fengið með vissum skilyrðum innflutningsleyfi fyrir bíl, án þess að fá gjaldeyrisleyfi, ef þeir hafa haft einhver skilríki fyrir öflun gjaldeyrisins á annan hátt. En ég vil vekja athygli á því, að ég hef ekki hér gert þá hlið þessara mála að umtalsefni, alla þá óánægju, sem á hverjum tíma hefur ríkt með úthlutun innflutningsleyfa fyrir bílum, en þar má rekja langa og leiða sögu, ef út í það er farið. En ég legg áherzlu á það, að litlu skiptir að sakast við þá menn, sem ráðstafað hafa innflutningnum á hverjum tíma. Kerfið sjálft er með þeim hætti, að það er óframkvæmanlegt hverjum, sem reynir að taka að sér að framkvæma það. Það hefur skapað og skapar misrétti milli einstaklinganna, misrétti milli bílainnflytjenda og siðlausa viðskiptahætti, sem ég hygg að öllum hv. alþm. séu gerla kunnir.

Þegar kom fram á árið 1954, má segja, að legið hafi í loftinu, að innan ríkisstj. væri alvarlega farið að ræða um verulega rýmkun á innflutningi bifreiða og að gefa innflutninginn jafnvel frjálsan. Og þá kemur lokastig þessa máls, sem öllum er í fersku minni og ég þarf ekki að eyða miklum tíma í að rekja. Ríkisstj. ákveður á s.l. sumri, að inn skuli fluttir nú á þessu ári alls um 1300 bílar allt í einu. Af öllum bílunum nema stærstu vörubilunum og jeppum skal greiða sérstakt leyfisgjald, 100% af fob-verðinu, sem verði eins konar endurgreiðsla til togaraútgerðarinnar til eflingar rekstri togaranna. Og í þriðja lagi, að öllu bílamagninu skal úthlutað af innflutningsskrifstofunni og jeppanefndinni samkv. gamla haftakerfinu, þar sem Framsfl. eða framsóknarmenn í ríkisstjórn fengust ekki til að fallast á þá till. sjálfstæðismanna að gera bifreiðainnflutninginn frjálsan.

Þannig standa þessi mál í dag, og spurningin er þá um það nú, hvað fram undan sé, og það mun ákvarðast af afstöðu hv. þingmanna til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir.

Varðandi afstöðu hv. þingmanna til þessarar þáltill. legg ég megináherzlu á eftirfarandi: 1) Með samþykkt hennar mun hverfa úr sögunni það misrétti og sá svarti markaður, sem ríkt hefur í þessu máli í skjóli haftanna.

2) Ríkisstj. hefur í hendi sér í samvinnu við bankana að setja þær almennu reglur um hinn frjálsa innflutning, sem nauðsynlegar teljast af gjaldeyrisástæðum á hverjum tíma, eins og um allar aðrar frílistavörur, enda hafa slíkar reglur verið settar nú við innflutning á bifreiðum þessa árs, þó að sá innflutningur sé leyfisbundinn.

3) Það er ekki líklegt, að fleiri bílar hefðu verið fluttir inn á þessu ári með núverandi verðlagi og greiðsluskilmálum, þótt innflutningurinn hefði verið gefinn frjáls. Þetta er að vísu enn staðhæfing, en mun koma nokkru betur í ljós við framhald þessa máls, og eitthvað hefur þegar borið á því, að þeir, sem leyfi hafa fengið, hafa skilað þeim og ekki talið ástæðu til eða haft aðstöðu til að hagnýta þau. Og áður en þessum bílainnflutningi nú er að fullu lokið, mun vafalaust vera hægt að átta sig betur á þessu, og kemur kannske í ljós meðan málið er til meðferðar hér í þinginu.

4) Það eru engar líkur til þess, að frjáls innflutningur á næsta ári leiði til eins mikils innflutnings og ákvarðaður hefur verið á þessu ári. Það koma á bifreiðaskrána vafalaust yfir 1400 bílar í ár, ef fluttir eru inn um 1300 og eitthvað töluvert af bílum er keypt frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Og eftir áætlun kunnugustu manna er ekki talið líklegt með því verðlagi, sem nú er á bílum, og ef menn ættu það frjálst að kaupa bíla, að meira en um það bil helmingur af þessu bílamagni mundi verða flutt inn á næsta ári.

5) Hafi gjaldeyrisþol þjóðarinnar þolað þennan mikla innflutning í ár, þá er ekki líklegt, að frjáls innflutningur á næsta ári mundi ofbjóða gjaldeyrisgetunni, og leiðir það af því, sem ég sagði undir 4. lið. Það er sennilegt, að til þess bílainnflutnings, sem nú hefur verið ákveðinn, þurfi að verja í gjaldeyri nálægt 33 millj. kr. Að sjálfsögðu ef stæðist sú ágizkun, að bílainnflutningur næsta árs, þótt frjáls væri, yrði ekki nema helmingur að tölunni til, þá mundi það samsvara nálægt því um helming þessarar upphæðar.

Ég sé í þessu sambandi, að hv. þm. V-Húnv. hefur flutt brtt. við þáltill. okkar, sem er viðaukatill., þannig að aftan við till. bætist: „enda sé jafnframt tryggt, að bankarnir selji á hverjum tíma öllum, er þess óska, erlendan gjaldeyri til kaupa á bifreiðum.“

Með hliðsjón af því, sem ég hef sagt um horfur á bílainnflutningi á næstunni, þá tel ég, að það beri á engan hátt að kvíða því, að erfiðara verði um gjaldeyrisöflun til bifreiðakaupa, þótt á frílista væri, heldur en til annarrar frílistavöru. Ég tel þess vegna, að af þeim ástæðum ætti að vera hættulaust að samþykkja þá till., sem hér er flutt, þó að e. t. v. kynni að vera ástæða til að orða hana þannig, að um þetta skyldu gilda sömu reglur og um aðrar frílistavörur, þ. e. a. s., að það verði tryggt með bifreiðarnar á sama hátt og um aðrar frílistavörur, að bankarnir selji á hverjum tíma öllum, er þess óska, erlendan gjaldeyri til kaupa á bifreiðum. Ég er ekki á þessu stigi reiðubúinn til að leggja fram ákveðna brtt. í þessu sambandi, en gæti hugsað mér hana eitthvað á þessa leið. En eins og kunnugt er, hefur um allar frílistavörurnar verið viðhöfð sú regla í sambandi við ráðstöfun gjaldeyris til kaupa á þeim að setja mönnum mismunandi skilyrði til kaupa á gjaldeyrinum. Um sumar frílistavörurnar þurfa menn að greiða inn í bankana innkaupsverð þeirra erlendis, um leið og beðið er um opnun ábyrgðar í banka fyrir kaupum á vörunni eða um leið og greiðsluheimild er fengin. Um sumar frílistavörur eru þessar innborganir miklu lægri, allt niður í 10%, og liggur allt þarna á milli og hefur verið ákvarðað mismunandi á mismunandi tímum af bönkunum, eftir því sem aðstaðan hefur verið, en hefur ekki valdið neinum verulegum árekstrum, eftir að innflutningurinn hefur þó verið gefinn í jafnríkum mæli frjáls og ég hef vikið að. Þrátt fyrir það er ekki hægt að staðhæfa, að á hverju augnabliki, sem menn komi og óski eftir gjaldeyri fyrir frílistavöru, sé hann af hendi látinn. Stundum hafa menn þurft að hafa í þessu nokkra bið. En ég fullyrði, að það hafi í engum tilfellum orðið þannig, að til nokkurs baga hafi orðið, og engum deilum eða umkvörtunum hefur það valdið á opinberum vettvangi. Ég held þess vegna, að það ætti að verða auðvelt að verða sammála í aðalatriðum um þá hugsun, sem mér skilst að liggi að baki þeirri till., sem hv. þm. V-Húnv. hefur flutt.

6) Ég vil leggja áherzlu á, að haftakerfið leiðir til gjaldeyrissóunar, bæði vegna þess, að bílainnkaupunum er ekki stefnt á hagkvæmustu staði og vanræksla eðlilegrar endurnýjunar leiðir til óhóflegs kostnaðar í varahlutainnflutningi og viðhaldi. Þannig er nú ástatt, að mikið af bílaeign landsmanna er með óhæfilegum viðhaldskostnaði miðað við það, sem ætti að vera og hagkvæmt er. Og það er einnig víst, að haftakerfið, eins og hefur verið og eins og það er í dag, hefur beint bílakaupunum miklu meira inn á dýrari bílamarkað, inn á Ameríkumarkaðinn. Ef menn hafa átt þess kost að fá leyfi og mega kaupa bílinn í Ameríku, þá gera menn það heldur nú — segja sem svo: Ja, ég fæ þetta leyfi einu sinni á ævinni. Stjórnarvöldin hafa verið svona afskaplega frjálslynd í ár að leyfa þennan mikla innflutning, en svo næsta ár sjá allir svart og ekkert verður leyft. Það er bezt að taka þann bílinn, sem dýrastur er og ég get gert mér mestan mat úr, en verður hins vegar, ef ég á að eiga hann, mér dýrari í rekstri og þjóðfélaginu dýrari í rekstri og viðhaldi en ýmsir aðrir bilar, sem völ er á, og sérstaklega minni bílar frá Evrópu, sem henta almenningi yfirleitt miklu betur en amerískir bílar. — Ég fullyrði, að haftakerfið sjálft leiðir menn til þess að óska fremur eftir þessum bílum, sem hafa verið í hæstu verði á markaðinum og ekki sízt á svarta markaðinum, enda þótt menn mundu velja öðruvísi, ef þeir vissu það á hverjum tíma, að mönnum væri frjálst að fá bifreið. Af þessum og öðrum sökum, sem ég hef nefnt, er það óneitanlegt, að haftakerfið, eins og það hefur verið, leiðir beinlínis til gjaldeyrissóunar.

7) Ég vildi leggja áherzlu á, að leyfisbeiðnirnar, sem nú er oft talað um og vitnað er til að séu svo og svo margar þúsundir, eru enginn mælikvarði á getu eða þörf manna til bílakaupa, en ákvarðast af hinni óheillavænlegu þróun undanfarinna ára. Menn keppast um að ná í leyfi, þegar þess er gefinn kostur, hvort sem þeir þurfa að nota það eða ekki, vegna þess að það hefur alltaf verið hægt að hafa góðan hagnað af því að krækja sér í slík leyfi um mörg undanfarin ár.

8) Svarti markaðurinn hefur haldið áfram með leyfin nú. Það er líklegast, að um það bil 15% af leyfum, sem gefin hafa verið út á þessu ári, gangi nú þegar kaupum og sölum. Þetta gæti verið rannsóknarefni fyrir þá þingnefnd, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, en ég fyrir mitt leyti held, að það sé ekki óvarlegt að fullyrða, að það sé ekki innan við 15% af leyfunum, sem þegar eru komin á svarta markaðinn og braskmarkaðinn.

Loksins: Það er ekki á valdi nokkurra einstakra manna eða nefnda að skammta bílaleyfi, þegar það samsvarar úthlutun peninga til þeirra, sem leyfin fá, eins og reynslan hefur skorið úr um á undanförnum árum.

Við flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, leyfum okkar að treysta því, að eftir þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið á þessu ári um hinn mikla bifreiðainnflutning, og eftir þá reynslu, sem hlýzt af þeirri úthlutun, og með hliðsjón af þeirri reynslu, sem við höfum hlotið á liðnum árum, þá verði nú samkomulag um það hér á þingi að marka ný spor í þessu máli með samþykkt till. um frjálsan innflutning bifreiða.

Ég tel svo eðlilegt, að þessari till. verði vísað til n., væntanlega allshn., og umr., eins og venja er til, frestað, þegar þar að kemur.